Miðvikudagur 09.04.2014 - 21:19 - FB ummæli ()

Samband lýðræðis og lífsgæða þjóða

Í nýjasta hefti fagtímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla birtist grein um lífsgæði nútímaþjóða, sem ég skrifaði um rannsókn er ég gerði á lífsgæðum 29 nútímaþjóða.

Rannsóknarverkefnið fólst í því að safna sem flestum mælingum á mikilvægum lífsgæðaþáttum þjóða og bera útkomur þjóðanna saman og leita skýringa á mismunandi árangri, bæði á heildarmati og einstökum þáttum lífsgæðanna.

Niðurstöðurnar byggja á samanburði nærri 70 ólíkra lífsgæðaþátta, frá hagsæld til heilsufars, menntunarstigs, atvinnustigs, lífskjarajöfnunar, minnkun fátæktar, fjölskylduaðstæðna, samheldni og samfélagsþátttöku og til huglægs mats almennings á lífsgæðum í viðkomandi löndum. Upplýsingarnar eru fyrir tímabilið frá 2005 til 2008, þ.e. fyrir kreppu.

Eins og lesa má um í greininni koma norrænu þjóðirnar best út úr samanburðinum, ásamt Hollandi, Lúxemborg og Sviss.

Þessar þjóðir eru með bestu útkomu á flestum sviðum lífsgæðanna. Niðurstöðurnar benda til að meðal þessara þjóða sé að finna bestu lífsgæði almennings sem finnast í heiminum nú á dögum.

Yfirstéttir sumra landa eru með betri lífsgæði en meðaltal ofangreindar þjóða, en hvergi hefur tekst betur að tryggja almenningi bestu lífsgæði en í norrænu löndunum fimm og Hollandi, Lúxemborg og Sviss.

 

Skýringar á mismunandi lífsgæðum nútímaþjóða

Í seinni hluta ritgerðarinnar er fjallað um mögulegar skýringar á mismunandi lífsgæðum nútímaþjóða.

Þar kemur m.a. fram að mjög sterkt samband er milli styrkleika lýðræðis og almennra lífsgæða. Myndin hér að neðan sýnir sambandið milli styrkleika lýðræðis og lífsgæða þjóða (þetta er mynd 6 í ritgerðinni).

Það er líka niðurstaða merkrar nýlegrar bókar um farsæld þjóða, Why Nations Fail, eftir hagfræðinginn Daron Acemoglu og stjórnmálafræðinginn James Robinson. Sú bók byggir þó á allt annarri aðferðafræði.

Þetta er afar athyglisverð niðurstaða.

Slide1

Þjóðirnar sem eru innan hringsins hægra megin á myndinni sameina það að vera með bestu lífsgæðin og sterkasta lýðræðiskerfið af öllum 29 þjóðunum sem saman eru bornar.

Þetta þýðir að þar sem stjórnvöld svara betur þörfum og óskum almennings (almannahag), þar eru lífsgæðin almennt best. Þar fer saman góð hagsæld og góð almenn lífsgæði (gott heilsufar, menntun, hátt atvinnustig, minni fátækt, betri aðstæður fyrir börn, betri samheldni og samfélagsþátttaka – og þar er meiri ánægja þegnanna með lífið).

Annað sem er athyglisvert á myndinni er að þær þjóðir sem koma best út eru allar frekar fámennar þjóðir.

Í fámennisumhverfinu eru einmitt oft betri skilyrði til að stjórnvöld svari óskum almennings, vegna nálægðar sem er milli stjórnvalda og almennings. Fjarlægðin milli leiðtoga og grasrótarinnar er oft meiri í fjölmennissamfélögunum.

Þar sem lýðræði er afar veikt eða ekki fyrir hendi, svo sem í einræðis- og herstjórnarríkjum, þar er þróunarstig að öðru leyti lágt og lífsgæði almennings mun lakari, samhliða miklum ójöfnuði.

Fámenn yfirstétt hirðir þau gæði sem er að hafa í slíkum löndum og almenningur líður þar viðvarandi skort og fátækt.

Þær þjóðir sem koma best út eiga það líka sameiginlegt að vera með öflug velferðarkerfi sem sérstaklega styðja við lífsgæði lægri stétta og greiða þannig fyrir meiri jöfnuði tækifæra en er í ójafnari samfélögum, eins og til dæmis í Bandaríkjunum.

 

Lýðræði og lífsgæði í Bandaríkjunum

Það er líka athyglisvert að skoða stöðu Bandaríkjanna almennt í þessum samanburði. Bandaríkin eru með mikla hagsæld, raunar í fremstu röð á því sviði, en vegna mikils ójafnaðar í skiptingu þjóðarkökunnar verður þar of mikil fátækt við hlið mikils auðs yfirstéttarinnar.

Lýðræðið í Bandaríkjunum er heldur ekki sérstaklega sterkt.

Það er vegna mikilla áhrifa peningaafla í bandaríska stjórnkerfinu. Það kemur niður á lífsgæðum þeirra sem eru í neðri þrepum samfélagsstigans. Það fólk á fáa málsvara í stjórnmálunum.

Þó við Íslendingar kvörtum oft undan stjórnmálunum, fyrirgreiðsluspillingu og sérhagsmunagæslu, þá eru þrátt fyrir allt góðar forsendur hér fyrir því að stjórnvöld hlusti á óskir og kröfur þegnanna.

Það er einmitt vegna nálægðarinnar sem fylgir fámennissamfélaginu hér.

Þetta er útkoman eins og hún var á árunum fyrir kreppu. Síðan kom hrunið með talsverðu lífsgæðaáfalli, einkum efnahagslegu. Með því drógust við afturúr frændum okkar á Norðurlöndum og fremstu þjóðunum á meginlandi Evrópu – á sumum sviðum, en ekki öllum.

Við færðumst niður um nokkur sæti á lífsgæðakvarðanum. Þó eru lífskjörin hægt og sígandi að batna hér eftir áfall hrunsins.

Skoðum það nánar síðar.

 

Síðasti pistill: Siðlaus svindlari í hávegum hafður

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar