Fimmtudagur 29.05.2014 - 09:45 - FB ummæli ()

Kvótinn rústar landsbyggðinni

“Stórfelld hagræðing stendur fyrir dyrum í íslenskum sjávarútvegi. Skipum mun fækka, fiskvinnslum mun fækka…”.

Þetta segir útgerðarstjóri Vísis hf. í Grindavík, sem nýlega tilkynnti um áform um flutning vinnslu fyrirtækisins frá Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi til Grindavíkur.

Í viðtali við Björn Inga Hrafnsson á Eyjunni segir útgerðarstjórinn, Pétur Hafsteinn Pálsson, að þróunin í sjávarútvegi sé þegar orðin þannig að nokkur fyrirtæki séu ráðandi á sérhverju vinnslusviði sjávarafurða. Fáir og stórir aðilar eiga kvótann og fyrirtæki þeirra stýra öllu – líka því sem mótar lífsskilyrði íbúanna í sjávarbyggðunum kringum landið. Myndbandið frá Djúpavogi segir þessa sögu á áhrifaríkan hátt.

Þetta er það sem sagt var frá upphafi að myndi gerast með tilkomu framseljanlega kvótans. Eignarhald í sjávarútvegi myndi færast á sífellt færri og stærri hendur og byggðum víða um land yrði fórnað. Það hefur gengið eftir.

Áróðursmenn frjálshyggju og auðmanna sögðu kvótakerfið þjóna hagsmunum landsbyggðarinnar. Það var álíka rangt og allt annað sem frá þeim söfnuði hefur komið!

Og útgerðarstjórinn sér frekari þróun í átt til samþjöppunar. Endastöð stærðarhagkvæmninnar, sem ræður för, er væntanlega að örfá stórfyrirtæki eigi allan sjávarútveginn. Eigum við að segja þrjú eða fimm fyrirtæki?

Þetta er boðað á tíma sem er gróðavænlegri fyrir sjávarútveg en verið hefur í áratugi. Gengisfelling hrunsins hefur magnað gróða útvegsmanna í hæstu hæðir. Þó fiskverð lækki lítillega á þessu ári verður áfram góðæri hjá útvegsmönnum. Þeir eru í öðru hagkerfi en almenningur. Samt vilja þeir græða enn meira.

Ekki er umdeild að kvótakerfið getur falið í sér stærðarhagkvæmni. Strandveiðar eiga þó líka rétt á sér.

Stóri gallinn við kvótakerfið er hins vegar sá, að hagræðingin sem það getur skapað er einungis til ábata fyrir útvegsmenn – en á kostnað landsbyggðarfólks.

Íbúum sjávarbyggðanna blæðir fyrir hagræðingu útvegsmanna. Störf þeirra tapast, eignir þeirra í sjávarplássum verða verðlausar. Gangi sú þróun lengra sem útgerðarstjóri Vísis í Grindavík spáir verður víða frekara rof eða hrun í sjávarbyggðum.

Hvað er til ráða?

Er hægt að láta skammtíma gróðasókn útvegsmanna stefna samfélögum víða um land í eyði? Þarf ekki að miðla hagsmunum milli útvegsmanna og íbúa sjávarbyggðanna? Hafa íbúar landsbyggðarinnar ekki tilkall til að njóta ávaxta sjávarauðlindarinnar rétt eins og útvegsmenn?

Núverandi aðgerðir til að verja byggðarlögin (byggðakvóti, strandveiðiheimildir) eru veikar og ómarkvissar og skila ekki árangri, eins og gömul og ný dæmi sýna.

Þóroddur Bjarnason, félagsfræðingur og stjórnarformaður Byggðastofnunar, reifar athyglisverða hugmynd um breytingar á kvótakerfinu, til að styrkja stöðu sjávarbyggða sem búa við óöryggi og veikan grundvöll. Þóroddur talar um svæðisbundinn kvóta.

Í skrifum sínum hefur Þóroddur spurt hvort leggja eigi af byggðakvóta og aðrar sporslur en einfaldlega svæðisbinda hluta aflaheimilda ríkisins. Hluti kvótans sé t.d. bundinn á Vestfjörðum og svæðisbundinni hagræðingu sé að öðru leyti leyft að eiga sér stað. Hugmyndafræðin byggir á því að um skýrt markmið sé að ræða; það er að segja, hvernig mun byggðin á viðkomandi svæði líta út eftir tvo áratugi en ekki á sama tíma að ári. Þessar svæðisbundnu heimildir yrðu fyrir hvern sem er.

„Þá skiptir ekki máli hvort um ræðir heimamenn eða ekki, því starfsemin væri bundin á svæðinu hvort sem er,“ segir Þóroddur og spyr hvort það skipti máli hvort aflinn er unninn í Bolungarvík eða á Ísafirði. Með þessu væri snúið frá því að reyna að jafna stöðu sjávarbyggða innbyrðis, þeirra sem standa verst, en reynt að efla útgerð svæðisbundið sem kæmi þessum sömu byggðum til góða. Þessi svæðisbinding myndi fela í sér að að aflaheimildir gengju kaupum og sölum líkt og í stóra kerfinu. Munurinn væri sá að þeim fylgdu kvaðir um fullvinnslu á tilteknu vinnusóknarsvæði, litlu eða stóru. Lægra verð á slíkum kvóta myndi endurspegla meint óhagræði af dreifðari og smærri vinnslum og þannig gera þær samkeppnisfærar.

Þetta myndi þýða að svæðisbundnu heimildirnar yrðu í höndum þeirra sem sæju tækifæri til arðbærrar vinnslu á smærri svæðum en þær yrðu ekki seldar í burt. Þetta væri því eins konar markaðslausn á byggðavanda núverandi kerfis. Þetta ætti ekki aðeins við um stærri og öflugari svæðin, t.d. eru Djúpivogur og Borgarfjörður eystri skilgreind sem örsmá vinnusóknarsvæði sem fengju þá sínar svæðisbundnu heimildir. En samgöngubætur sem stækka og styrkja vinnusóknarsvæði myndu jafnframt leiða til svæðisbundinnar hagræðingar í sjávarútvegi. (ívitnun í umfjöllun Svavars Hávarðssonar í Fréttablaðinu í dag)

Þetta eru athyglisverðar hugmyndir hjá Þóroddi Bjarnasyni, sem vert er að kanna til hlítar. Önnur leið væri að eyrnamerkja hluta hressilegs veiðileyfagjalds til alvöru byggðaþróunaraðgerða.

Það er ófært að sjávarútvegi sé stýrt með hagsmuni útvegsmanna eina að leiðarljósi. Samfélög sjávarbyggðanna eiga líka rétt.

Og þjóðin öll á jú auðlindina…

 

Síðasti pistill: Útbrunnir Sjálfstæðismenn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar