Föstudagur 13.06.2014 - 23:31 - FB ummæli ()

Ábyrgðin á hruninu

Það var klaufalegt, en ekki óvænt, þegar Benedikt Jóhannesson neitaði því að Sjálfstæðisflokkurinn bæri mesta ábyrgð á hruninu, í viðtali við DV um daginn.

Benedikt er jú Sjálfstæðismaður að upplagi, þó hann sé í andófi við flokkinn sinn og vilji stofna út úr honum nýjan flokk sem verði jákvæðari gagnvart ESB-aðild Íslands. Hann vildi samt ekki hallmæla flokknum sínum.

Benedikt dróg að vísu til baka þá miklu ranghugmynd er hann hafði sett fram, þ.e. að almenningur bæri mesta sök á hruninu.

En þetta atvik sýnir þörf þess að hinar augljósu staðreyndir um ábyrgina á hruninu séu í hávegum hafðar – svo við megum betur vita hvað ber að varast í framtíðinni.

Ég hef skrifað marga pistla um þetta efni hér á Eyjunni og ritgerðir á fræðilegum vettvangi að auki, sem byggja á megin sjónarhorni og kenningum þeirra fræða sem fjalla um fjármálabólur og fjármálakreppur.

Bók Guðrúnar Johnsen, Bringing Down the Banking System, er mjög góð og með skýra niðurstöðu, er byggir að stórum hluta á vinnu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna. Ingi Freyr Vilhjálmsson fjallar ítarlega um ábyrgðina á hruninu í bók sinni Hamskiptin. Fleiri fræðileg framlög mætti nefna.

 

Það sem fór afvega

Í grunninn var það geigvænleg skuldasöfnun íslenska þjóðarbúsins sem setti landið á hliðina með hruninu. Þessi skuldasöfnun var örari og meiri en áður eru dæmi um í fjármálasögu síðustu átta alda. Aðeins Írar nálguðust okkur í þessu efni, enda fór líka illa fyrir þeim.

Þessi mikla skuldasöfnun tengdist alltof örum og ósjálfbærum vexti bankanna og tengslum þeirra við spákaupmennsku með lánsfé. Útrásin var ein birtingarmynd þessa. Ofurskuldsetning íslensks sjávarútvegs vegna fjárfestinga í óskyldum greinum var önnur.

Allt var þetta gert í þágu leitar að skjótfengnum gróða. Fyrir helstu þátttakendur heppnaðist ævintýrið, því íslenskir fjármála- og framtaksmenn græddu gríðarlega á þessu öllu fram að hruni. Ríkustu tíu prósent Íslendinga juku tekjur og eignir sínar örar en áður hefur sést á byggðu bóli.

 

Hverjir voru helstu gerendurnir?

Það voru eigendur og stjórnendur bankanna sem gerðu þessa gríðarlegu og ósjálfbæru skuldasöfnun mögulega. Rannsóknarnefnd Alþingis setti frumábyrgðina á hruninu á þeirra herðar.

En hverjir tóku lánin? Það voru einmitt þeir sem voru helstu gerendurnir, þeir sem juku áhætturnar úr hófi með græðgi sinni.

Opinber gögn sýna að það voru fyrirtækin sem juku skuldirnar langmest – ekki heimilin eða ríkið.

Það voru einkum atvinnurekendur, efnaðir einstaklingar og braskarar úr hópi framtaksmanna, sem notuðu hið gríðarlega mikla lánsfé til að braska með hlutabréf og fasteignir. Þó heimilin hafi aukið skuldir sínar frá 2004 var hlutur þeirra í heildaraukningu skuldanna lítill.

Fjármálamenn og braskarar voru helstu gerendurnir.

 

Hver var hlutur stjórnmála og eftirlitsaðila?

Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir þeirra (Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið) áttu að verja fjármálalegan stöðugleika, gjaldmiðilinn og öryggi landsmanna.

Þau brugðust þessum hlutverkum í einu og öllu. Það var líka niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis.

Líklegasta skýringin á því að þessir aðilar brugðust er sú, að þeir allir hafi verið fangar nýfrjálshyggjutíðaranda.

Sú pólitík boðaði afskiptaleysisstefnu stjórnvalda (veikingu “eftirlitsiðnaðarins”), samhliða ofurtrú á óhefta markaðshætti og sjálfstýringarmátt þeirra. Frelsi fjármálageirans jókst og með því lausatök í eftirliti, aðhaldi og stjórnun. Örygginu var fórnað á altari fjármálafrelsis og óhóflegrar græðgi.

Slík þróun hafði hafist í Bandaríkjunum og Bretlandi um 1980 og breiddist þaðan út um heiminn, m.a. með hnattvæðingunni. Hér gekk þetta lengra en víðast, eins og skuldasöfnunin og óhófsbraskið sýna. Hugmyndin um að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð (skattaparadís fyrir efnafólk) var hluti myndarinnar.

Afleiðingin var sú, að íslenska bólan varð sú stærsta sinnar tegundar og hrunið sömuleiðis. Þetta var klassísk en óhóflegri fjármálabóla en áður hefur sést sem sprakk hér haustið 2008.

 

Rót ófaranna lá í tíðaranda nýfrjálshyggjunnar

Aukinn frjálshyggjutíðarandi var þannig ein af meginforsendum þess að Ísland og fleiri lönd fóru jafn illa afvega og raun ber vitni. Þar liggur rótin að vandanum sem upp kom, bæði hér á landi og annars staðar – fjármálakreppan varð jú alþjóðleg.

Nýfrjálshyggjan réttlætti þá stefnubreytingu sem jók frelsið á fjármálamörkuðum, ýtti undir afskiptaleysisstefnu stjórnvalda, ýtti undir einfeldnislega oftrú á óhefta markaðshætti, boðaði aukin fríðindi fyrirtækja og fjárfesta (minna eftirlit, meiri leynd, meira sjálfstæði, aukin not skattaskjóla), auk þess að réttlæta líka aukna gróðasókn auðmanna og hinn aukna ójöfnuð sem öllu þessu fylgdi.

Þess vegna hafa menn nú víðast hert lög, reglur og eftirlit til að stemma stigu við endurtekningu óheillaþróunarinnar. Spurning er þó hvort nóg sé að gert.

Meira að segja áhrifamiklir frjálshyggjumenn, eins og Richard A. Posner í Bandaríkjunum, viðurkenna þetta og segja áhætturnar sem fylgja óheftum markaði óboðlegar.

Það sama verður þó ekki sagt um helstu talsmenn nýfrjálshyggju hér á landi.

Þeir sigla áfram eins og ekkert hafi í skorist!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar