Þriðjudagur 24.06.2014 - 12:28 - FB ummæli ()

Hagfræðin varð hugmyndafræði

Frægt var þegar Elísabet Englandsdrottning spurði stjórnendur hagfræðideildar London School of Economics hvers vegna sérfræðingar deildarinnar hefðu ekki séð fjármálakreppuna koma.

Hvernig gátu þau mistök sem voru að hlaðast upp í aðdraganda kreppunnar farið framhjá þeim, með alla þessa hagfræðiþekkingu?

Fátt varð um skýr svör.

Staðreyndin er sú, að ríkjandi hagfræði hafði farið afvega um áratuga skeið og losnað úr tengslum við raunverulegt fjármála- og efnahagslíf.

Ríkjandi hagfræði (nýklassíska hagfræðin) hafði breyst í hugmyndafræði sem gamnaði sér við stærðfræðilega loftfimleika og óraunhæfar hugmyndir um fullkomleika markaðarins. Fjármálamarkaðir voru t.d. taldir alltaf hafa rétt fyrir sér. Markaðir sem einkennast m.a. af hjarðhegðun, óhófi, of mikilli áhættutöku, græðgi, braski, siðleysi og jafnvel lögbrotum.

Fjármálamarkaðir voru þannig sagðir verðleggja áhættu alltaf rétt að meðaltali og gengið var út frá að gerendur á markaði væru einungis að hegða sér „skynsamlega“. Öll inngrip stjórnvalda eða eftirlitsaðila voru sögð valda skekkjum. Allt hlaut að fara á besta veg, vegna sjálfvirkni þeirrar guðdómlegu vélar sem óheftur markaður væri – bara ef hann fengið að vera í friði fyrir eftirliti og ríkisafskiptum.

Hin ríkjandi hagfræðitrú var kölluð “tilgátan um hinn virka markað” (“the efficient market hypothesis”). Sú hugarsmíð var byggð á ofureinföldum forsendum sem gerðu stærðfræðilegar útfærslur kenningarinnar mögulegar. Þess vegna blómstraði stærðfræði í hagfræðinni og veitti ófullkomnum kenningum sýndarskjól.

Ríkjandi hagfræði breyttist þar með í hugmyndafræðilega kreddu nýfrjálshyggjunnar, eins og heimspekingurinn Stefán Snævarr fjallar ágætlega um í bók sinni Kredda í kreppu.

En einfaldleiki forsendanna sem allt var byggt á gerði hins vegar að verkum, að tengslin við veruleikann rofnuðu. Þess vegna fór fræðigreinin svo illa afvega – og hagstjórnin með.

Allt fór raunar á versta veg! Næst stærsta fjármálakreppa sögunnar skall á frá og með árinu 2008. Sú stærsta var Kreppan mikla á fjórða áratug síðustu aldar. Nýklassíska hagfræðin hafði á síðustu árum gert ráð fyrir að slíkt gæti ekki lengur gerst!

Þessi ofureinfalda markaðshyggjutrú varð grundvöllur aukinnar afreglunar og aukins frelsis á fjármálamörkuðum upp úr 1980, segir Robert Skidelsky, ævisöguritari John Maynard Keynes í nýlegri grein. Frelsi á markaði var aukið og aðhald minnkað. Afskiptaleysisstefna ríkti í vaxandi mæli.

Þróunin endurspeglaði það, að hagfræðin tók yfir pólitíska hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, sem jafnframt þjónaði fyrst og fremst hagsmunum fjármálaaflanna, stjórnendum og eigendum stórfyrirtækja og banka. Þetta var hagfræði ríkasta eins prósentsins.

 

Greining Krugmans á villuráfi hagfræðinnar

Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur fjallað nokkuð ítarlega um þessa óheillaþróun hagfræðinnar í átt til ýktra hugmynda um hinn óbrigðula óhefta markað (sjá t.d. hér).

Krugman nefnir einnig ýmis dæmi um tengsl hagfræðinnar við hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Hagfræðideildin við Chicago háskóla var lengi helsti vettvangur þessa rétttrúnaðar og nýfrjálshyggju í senn. Milton Friedman og Friðrik von Hayek voru brautryðjendur þar (Hayek þó einkum í frjálshyggjuhugmyndafræði). Seinni tíma áhrifamenn þar voru m.a. Robert Lucas, Eugene Fama og John Cochrane.

Krugman nefnir einnig hagfræðinginn og Nóbelsverðlaunahafann Edward Prescott sem dæmi um fáránleika sumra hugmynda þessara markaðshyggjumanna, en íslenskir nýfrjálshyggjumenn fluttu hann hingað til lands og hafa hampað honum í gríð og erg síðan, meðal annars til að réttlæta vúdú-hagfræðina. Sú villutrú náði óvíða meiri útbreiðslu en hér á landi.

Prescott telur m.a. að atvinnuleysiskreppa (eins og varð í kjölfar fjármálakreppunnar) endurspegli það, að óvenju mikill fjöldi vinnandi manna hafi ákveðið að fara í frí, frekar en að vinna! Atvinnuleysisbætur hvetji menn til þess – jafnvel þó þær hafi ekki hækkað sérstaklega í aðdraganda kreppunnar (sjá hér).

Krugman segir að samkvæmt þessum skilningi Prescotts hafi “Kreppan mikla” í reynd verið “Sumarfríið mikla”! Menn hafi í auknum mæli kosið að hætta að vinna og hagkerfið því fallið saman…

Fáránleikinn í þessu er varla umræðu verður.

Raunar gengu þessir nýju riddarar markaðshyggjunnar lengra út úr veruleikanum en sjálfur Milton Friedman hafði gert á þeim tíma er hann var leiðandi á þessum slóðum. Þó var hann afar atkvæðamikill hugmyndafræðingur nýfrjálshyggjunnar – en heldur skárri hagfræðingur.

Það sem m.a. gerðist, að mati Krugmans, var að lærdómur fræðigreinarinnar frá árum Kreppunnar miklu, lærdómurinn af hagfræði John M. Keynes, var settur til hliðar, því hann samræmdist ekki pólitík nýfrjáshyggjunnar. Í honum fólst skilningur á ófullkomleika markaðarins og mikilvægi ríkishlutverks fyrir aðhald og eftirspurnarstjórnun og jafnvel fyrir rekstur opinberrar velferðarþjónustu.

Hins vegar sjá menn nú, eftir bitra reynslu af fjármálakreppu samtímans, að Keynes hafði að mestu rétt fyrir sér. Þegar menn færðu sig um of í átt hins óhefta markaðar fóru hlutirnir að fara afvega. Jafnvægið tapaðist með of miklu markaðsfrelsi og afskiptaleysisstefnu:  áhætta jókst, skuldir jukust úr hófi og rangar ákvarðanir stýrðu för í of miklum mæli.

Oftrúin á óhefta markaðinn leiddi menn afvega. Verkefnið nú ætti að vera að endurstilla hagkerfið í betra jafnvægi milli frelsis og aðhalds, milli kapítalisma og lýðræðis.

Hér á landi var þetta sérstaklega pínlegt. Enda fóru Íslendingar meira afvega á þessu sviði en flestar eða allar þjóðir á bóluárunum. Hrunið var rökrétt afleiðing þess.

Þetta gæti meðal annars bent til þess, að kennsla í hagfræði hér á landi hafi farið um of í átt hins nýja rétttrúnaðar um yfirburðakosti hins óhefta markaðar – eða að of margir leiðandi kennarar hafi í of miklum mæli gengist hinni ógæfulegu hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar á hönd.

Fróðlegt væri að fá umræðu um þetta og hvernig við Íslendingar getum í framtíðinni best varist endurtekningu þess mikla áfalls sem hrunið var.

VIlluráf hagfræðinnar

Síðasti pistill: Hamskiptin – hvernig pólitík breytti Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar