Föstudagur 27.06.2014 - 14:32 - FB ummæli ()

Hólmsteinn dansar hrunið

Hannes Hólmsteinn kynnti í vikunni ritgerð eftir sig um orsakir hrunsins, sem birt er í riti frá áróðursveitu hægri manna í Ungverjalandi. Þetta er auðvitað ekki fræðirit, heldur pólitískt barátturit sem reynir að fegra hlut skjólstæðinga sinna í fjármálakreppunni. Það á svo sannarlega við um skrif Hannesar.

Hannes hefur áður kynnt þessar hugmyndir sína um endurritunar sögunnar, í ýmsum netmiðlum og víðar.

Miðað við frásögn Hannesar sjálfs af erindi sínu í þessu ungverska riti voru helstu orsakir hrunsins á Íslandi þessar:

  • Íslenska seðlabankanum var einum seðlabanka neitað um gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann.
  • Breskum bönkum í eigu Íslendinga var einum neitað um þá fyrirgreiðslu, sem breska ríkið veitti bönkum í október 2008 og Verkamannaflokksstjórnin breska setti hryðjuverkalög á Íslendinga.

Þetta eru sennilega ódýrustu skýringarnar á bankahruninu sem boðið hefur verið uppá til þessa – fyrir utan þá kenningu að hrunið væri Baugsfjölskyldunni einni að kenna (Hannes og Davíð Oddsson voru höfundar þeirrar kenningar).

Alvöru fræðimenn á sviði fjármála draga upp allt aðra mynd af orsökum hrunsins.

Maður skilur þó vel að helstu þátttakendur í hrundansinum vilji ekki kannast við spor sín og tilþrif á gólfinu. Það á við um fjármálamennina, braskarana, eftirlitsaðilana og stjórnvöldin sem brugðust.

En ekki síður á það við um hugmyndafræðingana sem réttlættu „íslenska efnahagsundrið“, sem færði okkur hrunið. Hannes sjálfur er þar fremstur í flokki.

Og enn stígur hann hrundansinn…

 

Hér var allt í fínasta lagi – samkvæmt kokkabókum nýfrjálshyggjunnar

Hannes fullyrðir sem sagt í þessari grein að hér hafi allt verið í fínasta lagi fram að hruni og að bönkunum hefði átt að bjarga. Hann telur meira að segja að bandarískir skattborgarar hefðu átt að taka það að sér, óháð stöðu þessara banka og þjóðerni.

Þvert á móti taldi seðlabankastjóri Bandaríkjanna þessum bönkum ekki bjargandi og benti hann Íslendingum á neyðaraðstoð AGS, fyrir þjóðir sem búnar eru að koma sér í óviðráðanlegar ógöngur.

Núverandi seðlabankastjóri á Íslandi telur að Ísland hefði aldrei getað staðið undir þeim skuldum sem við hefðum gengist undir ef Bandaríkjamenn hefðu lánað okkur nægilegt fé til að bjarga þessum bönkum. Samt telur Hannes að þeim hefði átt að bjarga!

Hannes Hólmsteinn telur greinilega að ekkert hafi verið óelilegt við þróunina fram að hruni hér á landi, annað en það að Jón Ásgeir var einn af útrásarvíkingunum!

  • Örasti vöxtur banka í sögunni var ekki óeðlilegur.
  • Mesta skuldasöfnun sögunnar var ekki óeðlileg.
  • Risaútlán án fullnægjandi trygginga voru ekki óeðlileg.
  • Geigvænleg áhættutaka og jafnvel löglausir starfshættir voru ekki óeðlilegir
  • Siðlaus einkavæðing ríkisbankanna til flokkstengdra vildarmanna var ekki óeðlileg. Fleira af þessum toga mætti nefna.

Flestir alvöru fræðimenn á sviði fjármálafræða (t.d. Guðrún Johnsen, Robert Aliber og Gylfi Zoega, Gylfi Magnússon, Mats Josefsson og Karlo Jänneri) og Rannsóknarnefnd Alþingis komast að allt annari niðurstöðu. Þessir aðilar segja að starfsemi íslenska fjármálakerfisins hafa verið mjög ámælisverð – raunar í verulegu ólagi.

Íslenska fjármálakerfið var á feigðarflani frá 2003 og alveg fram að hruni. Hrunið var óhjákvæmileg afleiðing af því sem hér var látið viðgangast í fjármálakerfinu, vegna veiks eftirlits og frjálshyggjutíðaranda sem réttlætti og fegraði allt saman („íslenska efnahagsundrið“).

 

Íslenska bankakerfið var í alvarlegu ólagi

Rannsóknarnefnd Alþingis og vönduð bók Guðrúnar Johnsen, Bringing Down the Banking System, sýna t.d. með skýrum hætti, hvernig bankarnir uxu alltof hratt, með alltof mikilli erlendri skuldsetningu og alltof mikilli áhættu.

Örari vöxtur en annars staðar og meiri erlend lántaka þýðir að íslensku bankarnir tóku meiri áhættur en aðrir vestrænir bankar. Samt fullyrðir Hannes að íslenskir bankamenn hafi ekki verið verri en aðrir bankamenn (sem þó voru vissulega slæmir)!

Þá voru starfshættir bankanna að mörgu leyti mjög ámælisverðir, sem gróf undan rekstrarhæfi þeirra. Bankarnir höfðu t.d. rýrt eigið fé sitt í aðdraganda hrunsins með ævintýralega áhættusömum starfsháttum og ofurlánveitingum til eigenda sinna og vildarvina, oft án fullnægjandi eða eðlilegra trygginga. Kúlulán skiluðu engum vaxtatekjum á löngu árabili inn í rekstur bankanna.

Eigendur allra föllnu bankanna tóku til sín óeðlilega mikið af útlánum – oft með ámælisverðum hætti og jafnvel lögbrotum, eins og fram hefur komið í sumum kæru- og dómsmálum.

Bankarnir drógu beinlínis upp falska mynd af eigin rekstri í bókhaldi sínu og ársreikningum. Á því sviði brugðust helstu endurskoðunarfyrirtæki landsins. Það hef ég eftir ofangreindum heimildum og fagmönnum á sviði bókhaldsmála.

Fjöldi ákærumála og sakfellinga á síðustu árum sannar að rangt var við haft í mörgum tilvikum. Fleiri slík mál eru í farvatninu í dómskerfinu.

Allt stuðlaði þetta að því að gera íslensku bankana ósjálfbæra til lengdar og því var einungis tímaspursmál hvenær þeir myndu hrynja, eftir að aðgengi að frekara lánsfé erlendis takmarkaðist frá 2006-7.

Hannes Hólmsteinn telur þó að þetta hafi allt verið í besta lagi!

 

Hannes þakkaði nýfrjálshyggjunni “íslenska efnahagsundrið”!

Hannes er auðvitað málsaðili, því nýfrjálshyggjan sem hann boðaði og auðhyggjan sem hann talaði fyrir réttlættu allt það sem hér gerðist fram að hruni.

Hannes var mesta klappstýra útrásarinnar og auðhyggjunnar. Ef einhver fann að því sem var að gerast sakaði Hannes viðkomandi umsvifalaust um öfund eða óvild í garð auðmanna eða Davíðs Oddssonar! Þetta stóð hjá honum alveg fram að hruni.

Undir lok árs 2007 fékk Hannes vúdú-hagfræðinginn Arthur Laffer til að koma til Íslands. Sá fullyrti við það tækifæri að hér væri allt í allra besta lagi, því Íslendingar væru svo miklir frjálshyggjumenn. Allir vilja þess vegna koma með fé sitt til Íslands, sagði Laffer. Þetta sagði hann skömmu eftir að erlenda lánsfjárstreymið hafði að mestu stöðvast! Þetta var um tíu mánuðum fyrir hrun.

Hannes mærði braskið og útrásina fram að hruni og kallaði hana “íslenska efnahagsundrið” (sjá t.d. hér – þetta er frá frá september 2007).

Frjálshyggjunni og Davíð Oddssyni þakkaði hann sérstaklega þetta meinta “efnahagsundur” (sjá t.d. hér).

En nú þvær hann hendur sínar og nýfrjálshyggjunnar af allri sök, eftir að illa fór.

Allir sjá að þetta er ekki trúverðugur málflutningur hjá Hannesi og öðrum frjálshyggjumönnum og bröskurum – alveg sama hversu oft hann er endurtekinn.

Við þurfum að vara okkur á málflutningi svona fólks, svo hrunið verði ekki endurtekið í náinni framtíð.

 

Síðasti pistill: Hagfræðin varð hugmyndafræði

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar