Þriðjudagur 01.07.2014 - 00:46 - FB ummæli ()

Hagstofan – fróðleg rannsókn á fátækt

Í gær birti Hagstofa Íslands nýja skýrslu um skort á efnislegum lífsgæðum á Íslandi. Þetta eru tölur fyrir tímabilið frá 2004 til 2013, sem koma úr lífskjarakönnunum Hagstofunnar og Eurostat.

Áður hafa verið birtar ýmsar upplýsingar um fátækt úr þessum könnunum, meðal annars hlutfall fólks sem er undir afstæðum fátæktarmörkum og umfang hættu á fátækt og félagslegri útskúfun.

Nýja skýrslan bætir frekari upplýsingum í þessa flóru. Það er mikilvægt því mælingum á afstæðri fátækt eru takmörk sett og því nauðsynlegt að mæla fleiri hliðar fátæktarvandans, eins og Guðný Björk Eydal og ég bendum á í kafla um fátækt í nýlegri bók (Þróun velferðarinnar 1988 til 2008).

Það er því mikill fengur af þessari nýju skýrslu Hagstofunnar um skort á efnislegum lífsgæðum.

Þeir sem teljast búa við skort á efnislegum lífsgæðum eru skilgreindir þannig, að þeir búi á heimili sem þrennt af eftirfarandi á við:

„Þeir hafa lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts síðastliðna tólf mánuði og hafa ekki efni á vikulöngu fríi með fjölskyldunni árlega.

Þeir hafa ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð annan hvern dag, geta ekki mætt óvæntum útgjöldum, hafa ekki efni á heimasíma né farsíma, eiga ekki sjónvarpstæki, eiga ekki þvottavél, hafa ekki efni á bíl eða geta ekki haldið húsnæðinu nægjanlega heitu.“

Meðal niðurstaðna má finna samanburð á útkomu þessara mælinga á skorti á efnislegum gæðum og afstæðri fátækt í ESB-ríkjum (m.v. 60% fátæktarmörk). Þann samanburð má sjá á myndinni hér að neðan.

Screen shot 2014-06-30 at 4.05.34 PM

Myndin er úr skýrslunni „Skortur á efnislegum lífsgæðum 2004 til 2013“ (sjá Félagsvísa Hagstofu Íslands).

 

Þarna kemur fram að meiri munur er milli þjóða hvað snertir umfang skorts á efnislegum gæðum en er á afstæðri fátækt. Að mörgu leyti er mælingin á skorti efnislegra gæða raunsærri en afstæða mælingin, þó hún segi einnig mikilvæga sögu.

Ísland var með lægst hlutfall fólks undir afstæðum fátæktarmörkum á árinu 2012, eða 7,9%. Það hafði lækkað úr um 10%, sem lengst af hafði verið niðurstaðan úr könnunum Hagstofunnar frá 2003. Aðgerðir stjórnvalda gegn kreppuáhrifunum höfðu þessi áhrif, þ.e. að lækka hlutfall afstæðrar fátæktar. Þess gætti sérstaklega hjá eldri borgurum, en þar lækkaði hlutfall eldri borgara sem voru undir 60% fátæktarmörkum úr um 15% árið 2007 í tæp 5% 2010.

Þegar skortur á efnislegum gæðum er borinn saman milli landanna er Ísland í sjötta efsta sætinu, þ.e. einungis fimm lönd voru með minna umfang skorts á efnislegum gæðum.

Þær þjóðir sem eru fyrir ofan okkur eru hagsælustu ríki Vesturlanda, þjóðir sem ekki urðu fyrir alvarlegri kreppu eins og Ísland (þetta eru Sviss, Svíþjóð, Noregur, Lúxemborg og Holland). Þetta er því afar góð útkoma fyrir Ísland nú, ekki síst í ljósi hins gríðarlega áfalls sem hrunið var.

Þegar þessar mælingar eru teknar saman, ásamt fleiri mismunandi mælingum (t.d. raunverulegum ráðstöfunartekjum þeirra sem eru undir fátæktarmörkum og kvörtunum lágtekjufólks undan erfiðleikum við að ná endum saman) þá fæst trúverðug heildarmynd af fátækt á Íslandi í samanburði við önnur lönd. Þetta hefur oft verið deilumál í þjóðmálaumræðu hér á landi, því sumir hafa viljað neita því að hér væri yfir höfuð nokkur fátækt.

Heildarmyndin er almennt séð sú, að fátækt er svipuð hér á landi og á hinum Norðurlöndunum. Þó hafa fátækir Íslendingar lægri ráðstöfunartekjur en samsvarandi hópar á hinum Norðurlöndunum og fátækir Íslendingar kvarta meira undan erfiðleikum við að láta enda ná saman. Svo er útkoman betri hér að sumu öðru leyti, t.d. hefur atvinnustig yfirleitt verið betra hér, en það forðar mörgum frá fátækt.

Annað sem er sérstaklega athyglisvert í þessari nýju skýrslu Hagstofunnar er að skortur á efnislegum gæðum hafði minnkað undir lok bóluáranna fyrir hrun, en jókst svo aftur eftir hrunið, eins og við var að búast. Samt varð hann almennt ekki meiri en verið hafði á árunum 2004 og 2005, eins og ég hef áður bent á.

Það bendir til að sú viðleitni stjórnvalda að hlífa viðkvæmustu heimilunum við verstu afleiðingum hrunsins hefur tekist að umtalsverðu leyti.

Fyrir vikið hefur fátækt ekki aukist varanlega á Íslandi, eins og við mátti búast. Það er mikilvægur árangur og góður grunnur fyrir almenning og stjórnvöld að byggja á til framtíðar.

Myndin hér að neðan sýnir einmitt hvernig skortur á efnislegum lífsgæðum, samkvæmt þessari mælingu, var minni eftir hrun en verið hafði á árunum 2004-5.

Screen shot 2014-07-01 at 4.47.25 PM

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar