Laugardagur 05.07.2014 - 10:45 - FB ummæli ()

Veikt eftirlit – svindlarar blómstra

Undanfarið hefur Fréttablaðið staðið fyrir góðri umræðu um innihaldslausar vottanir á matvælum. Slíkar vottanir felast í því að setja jákvæða stimpla á vöruna, án þess að nokkuð sé á bak við það.

Þetta lítur út eins og einhver ábyrgur eftirlitsaðili hafi vottað gæði vörunnar – en er í mörgum tilvikum ekkert annað en glansmynd sem seljandinn setur sjálfur á umbúðirnar. Tær snilld!

“Lífrænt ræktað”.

“Náttúruleg afurð”

“Frjáls kjúklingur” o.s.frv…

Í leiðara Fréttablaðsins í dag vekur Ólafur Stephensen athygli á því, að rúmlega 90% af lambakjöti er með einhverja vottun um að á býlinu sé gæðastýring viðhöfð. Það segir svo sem ekkert um gæði hverrar vörueiningar sem þaðan fer. Þetta er sem sagt lausleg vottun.

En rúsínan í pylsuenda leiðarans er sú, að vara frá þeim tíu prósentum sem ekki eru með slíka vottum er seld eins og hún sé með þessa vottun líka!

Hvers vegna?

Jú, framkvæmdastjóri SS segir að engin búð myndi vilja selja þá vöru sem telst óvottuð. Skiljanlega.

En samt finnst framkvæmdastjóranum í lagi að rýra gildi vottunarinnar og plata neytendur með því að blanda óvottaða kjötinu saman við það vottaða!

Niðurstaðan verður sú, að neytendur halda að þeir séu að kaupa gæðavottaða vöru, en hafa í reynd enga tryggingu fyrir því.

Neytendur eru plataðir – blekktir – rændir.

Þetta er raunar svona á fjölmörgum sviðum. Verðmerkingar eru t.d. meira að segja orðnar verulega ófullkomnar eða engar í sumum tilvikum – þó lög kveði á um að þær skuli vera vandaðar og skýrar.

Neytendaverndarbatteríið er í varanlegu fríi – og mætti þess vegna vera staðsett á Svalbarða eða í sólarlöndum.

Fiskistofa hefur eftirlit með sjávarútvegi og útvegsmönnum. Hún er ekki í tísku frekar en annað eftirlit. Þess vegna var ákveðið að senda hana norður og niður – án umhugsunar eða athugunar á afleiðingum.

Kanski Fiskistofu verði fundinn staður í húsakynnum Samherja á Akureyri? Það gætu verið samlegðaráhrif í því…

 

Veikur eftirlitsiðnaður skapar frelsi til að svindla á neytendum

Orsök alls þessa er sú, að eftirlitsiðnaður er í ónáð hjá atvinnulífinu, sem vill frekar frjálshyggju.

Eftirlitsleysi skapar meiri tækifæri til að blekkja neytendur og hafa þá að fíflum. Án alvöru eftirlits er auðveldara er að selja þeim dýrari vöru á fölskum forsendum.

Grafið var undan eftirliti í fjármálageirum Vesturlanda upp úr 1980, í nafni aukinnar frjálshyggju. Það skapaði meira frelsi á fjármálamörkuðum.

Það notuðu fjármálamenn og braskarar til að fara nýjar og duldari leiðir í gróðasókn sinni. Slíkt skilaði þeim gríðarlegum tekjum og eignum – en setti fjármálakerfi heimsins á hliðina í fjármálakreppunni, þeirri stærstu síðan Kreppan mikla skall á 1929.

Fjármálamenn tóku of miklar áhættur, drekktu öllu í skuldum, hlupu svo með gróðann í felur og skildu skuldirnar eftir handa ríkisstjórnum og almenningi til að glíma við.

Tær en ógeðfelld snilld!

Þetta undirstrikar auðvitað mikilvægi eftirlits og aðhalds hins opinbera, sem sýnt er að markaðir veita ekki sjálfkrafa – heldur finna sífellt leiðir til að sniðganga.

Eftirlit hamlar nefnilega frelsi gróðapunga og svindlara til að fara illa með sakleysingja.

En eftirlit er ekki í tísku hjá atvinnurekendum, fjármálamönnum og alls ekki hjá gróðaþyrstum bröskurum og svindlurum. Hægri stjórnmálamenn vilja það heldur ekki.

Frjálshyggjumenn, sem eru atvinnumenn í áróðri, segja svo að afskiptaleysisstefnan sé góð fyrir alla!

En hún er bara góð fyrir svindlara.

Neytendur eru alltaf fórnarlömbin. Það er arðvænlegt að svindla á þeim í skjóli eftirlitsleysis.

Frelsið virkar ekki til fulls án aðhalds.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar