Sunnudagur 06.07.2014 - 16:47 - FB ummæli ()

Lið Davíðs vill Má úr bankanum

Það er nokkuð ljóst að stuðningsmenn Davíðs Oddssonar berjast af öllu afli gegn endurráðningu Más Guðmundssonar í stöðu seðlabankastjóra.

Mogganum hefur verið beitt af afli gegn Má um hríð. Davíð á auðvitað harma að hefna. Ríkisstjórn Jóhönnu setti Davíð af eftir hrun fjármálakerfisins og gjaldþrot Seðlabankans og réð Má síðar í stöðuna. Hirð Davíðs hefur ekki fyrirgefið neitt og vill nú ná fram hefndum og koma sínum manni að.

Í gær skrifaði Davíð enn einu sinni til að vega að seðlabankastjóra og herforingjarnir Björn Bjarnason og Hannes Hólmsteinn sömuleiðis. Þeir fóru geyst.

Már gaf reyndar á sér nokkurn höggstað með málaferlum sínum gegn bankanum vegna launakjara sinna og annars sem því hefur fylgt. Það er þó spurning hvort sú yfirsjón eigi að vega meira en augljós fagleg hæfni hans á starfssviðinu.

Liðsmenn Davíðs nota sér feilspor Más þó til hins ýtrasta og ýkja málið úr hófi. Hólmsteinn jafnar þessu máli til dæmis við mistök og lögbrot bankastjóra einkabankanna, sem settu þjóðarbúið í þrot! Ekkert slegið af í afbökunum og furðurökum þar – eins og fyrri daginn!

Liðsmenn Davíðs vilja fá Ragnar Árnason sem seðlabankastjóra í stað Más. Ragnar er náinn samstarfsmaður Hannesar Hólmsteins í framleiðslu frjálshyggjutals og raunar einn róttækasti frjálshyggjumaður Vesturlanda. Gengur lengra en sjálfur Hólmsteinn að því er virðist – segir í öllu falli meira opinberlega um róttæka þjóðfélagssýn sína.

Ragnar Árnason hefur í seinni tíð verið einn alharðasti talsmaður óheftrar markaðshyggju, einkavæðingar og kvótakerfisins í þjóðmálaumræðunni hér á landi. Vill einnig afnema opinbera heilbrigðiskerfið og leggja almannatryggingar niður. Vill að einkaaðilar eigi allar auðlindir landsins, ekki bara fiskimiðin.

Það myndi auðvitað vekja athygli á Vesturlöndum ef Íslendingar myndu setja fiskihagfræðing með róttækar frjálshyggjuskoðanir í stöðu seðlabankastjóra, svo skömmu eftir frjálshyggjuhrunið. Aðrar þjóðir eru jú flestar að herða eftirlit hins opinbera með fjármálageiranum, eftir að ofurfrelsi og afskiptaleysi þar leiddi til fjármálakreppunnar. Menn snúa sér nú frekar frá óheftri frjálshyggju, þó hún eigi að vísu enn marga talsmenn í hópum auðmanna heimsins.

 

Pólitiskt upplegg ráðningarferlisins

En kanski er ekki hægt að útiloka Ragnar í dæminu. Bjarni Benediktsson hefur forðast að taka á Davíðs-mönnum og gerði raunar Ragnar að formanni ráðgjafarhóps í ráðuneyti sínu. Það eru líka Sjálfstæðismenn sem ráða för við ráðningu seðlabankastjóra og allir matsnefndarmenn virðast vera Sjálfstæðismenn, þ.á.m. er fyrrverandi varaformaður flokksins (Ólöf Nordal). Þetta er mjög pólitískt upplegg á ráðningarferlinu.

Ólöf Nordal stýrir líka meðferð bankaráðsins á greiðslumáli Más Guðmundssonar og Ragnar Árnason situr með henni í núverandi bankaráði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Sem sagt: allt mjög pólitískt.

En það er á hinn bóginn langsótt að forysta Framsóknar muni gleypa slíka frjálshyggjusendingu frá Sjálfstæðismönnum. Traust erlendis á íslenskum fjármálum og fjármálastjórn skiptir líka máli. Framsóknarmenn hafa að vísu verið óánægðir með Má og hávaxtastefnu Seðlabankans, sem og afstöðu forystu bankans gagnvart skuldalækkunarleiðinni.

Frá þeirra bæjardyrum gæti því virst nærtækt að skipta Má út. Friðrik Már Baldursson gæti þá verið góð málamiðlun í stöðunni.

Friðrik Már er jú ágætlega hæfur til starfans, með fjármálahagfræði sem sérgrein, ólíkt Ragnari. Ekki er Friðrik Már heldur þekktur sem villtur frjálshyggjumaður, þó hann sé mikill markaðshyggjusinni. Hann er meira hefðbundinn hagfræðingur.

Helsti löstur á ráði Friðriks Más er aðild hans að skýrslugerð um rekstrarhæfi íslensku bankanna á árinu 2007, með Richard Portes. Skýrsla þeirra var gerð að beiðni Viðskiptaráðs og fól í sér mjög óraunhæft mat á stöðu fjármálakerfisins.

Már Guðmundsson hefur ekki verið fundinn sekur um slíka faglega misbresti við stjórn peningastefnunnar og Seðlabankans. Það verður hins vegar matsnefnd Sjálfstæðismanna sem sker úr um vægi kosta og galla umsækjendanna, þar á meðal ofangreinda þætti.

Már virðist þó standa höllum fæti ef mið er tekið af pólitísku uppleggi í ráðningarferlinu.

 

Síðasti pistill: Veikt eftirlit – svindlarar blómstra

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar