Sunnudagur 27.07.2014 - 10:04 - FB ummæli ()

Það sem vantar í tekjublöðin

Nú er sá tími ársins sem Frjáls verslun og dagblöðin birta tölur um tekjur einstaklinga á síðasta ári, byggt á upplýsingum skattstjóra um álagningu tekjuskatts einstaklinga.

Þetta eru atriði sem margir hafa áhuga á.

Það er hins vegar rétt að hafa í huga, að tölurnar sem tekjublöðin birta eru fyrst og fremst um atvinnutekjur og lífeyristekjur.

Fjármagnstekjur einstaklinga vantar alveg inn í myndina.

Það gefur mjög villandi upplýsingar um heildarekjur fólks – sérstaklega um tekjur hátekjufólks (sjá nánar hér).

Hátekjufólk er almennt með stóran hluta heildartekna sinna í formi fjármagnstekna (arðgreiðslur, leigutekjur, vaxtatekjur, söluhagnað o.fl.).

Á hápunkti bóluhagkerfisins, árið 2007, var ríkasta eina prósent heimila í landinu með um 86% heildartekna sinna sem fjármagnstekjur. Til að fara nærri hefði þurft að margfalda birtar tekjur hæstu stjórnenda og eigenda í atvinnulífi um átta til níu sinnum.

Birtar tölur um tekjur hátekjufólksins í Frjálsri verslun það árið voru sem sagt bara brot af því sem hátekjufólk (ríkasta eina prósent heimila í landinu) hafði í raun í heildartekjur.

Þá var líka ótalið það af tekjum og eignum hátekjufólks sem rann í erlend skattaskjól á þeim tíma, en það var umtalsvert.

Árið 2012 höfðu fjármagnstekjur lækkað talsvert en voru samt að jafnaði hátt í helmingur heildartekna ríkasta eina prósentsins. Það hefur að öllum líkindum verið hærra í nýjasta framtalinu, fyrir árið 2013, um eða yfir helmingur.

Það má því segja að óhætt sé að tvöfalda áætlaðar tekjur margra í hópi hátekjufólks sem birtar eru í nýjustu tekjublöðunum, til að fara nærri um áætlaðar heildartekjur viðkomandi út frá meðaltalinu.

Ef fjármagnstekjurnar væru taldar með væru margir topparnir sem sagt með tvöfalt hærri tekjur en birtar eru.

Það munar um minna.

En víða eru líka fjárfestar, atvinnurekendur og eigendur í atvinnulífi skráðir með mjög lágar mánaðartekjur í tekjublöðunum. Margir þeirra eru hins vegar með tekjur í formi fjármagnstekna eða tekna erlendis – þeir hafa líka mun meira en birt er, þ.e.a.s. ef þeir eiga arðgefandi eignir.

Það eru því víða mjög villandi upplýsingar í tekjublöðunum, einkum um háu tekjurnar.

Réttastar eru upplýsingar blaðanna fyrir venjulega launþega, sem ekki eiga miklar arðgefandi eignir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar