Þriðjudagur 05.08.2014 - 21:39 - FB ummæli ()

Finnst þér matur ekki nógu dýr á Íslandi?

Það er ágreiningur milli stjórnarflokkanna um hvort hækka beri matarskattinn eða ekki. Þetta snýst um virðisaukaskattinn á innlenda matvöru.

Framsóknarmenn óttast að hækkun matarskattsins bitni sérstaklega illa á lágtekjufólki. Það er rétt hjá þeim.

Matvæli bera í dag lægri virðisaukaskatt en flestar aðrar vörur, eða 7% í stað 25,5%.

Lægra álagningarþrepið á matvæli var á sínum tíma sett til að hlífa venjulegum heimilum við útgjaldabyrðum.

Þessu vilja Sjálfstæðismenn nú breyta. Þeir vilja tvöfalda matarskattinn (7%>>>14%) en lækka almennu álagninguna í staðinn, úr 25,5% í 24,5%.

Fáir munu finna fyrir lækkun vsk. um eitt prósentustig (ef kaupmenn skila því yfir höfuð til neytenda). En þeir sem hafa þungar byrðar af matarkaupum, t.d. fyrir barnmargar fjölskyldur, munu finna fyrir tvöföldun vsk-álagningar á innlendu matvælin.

Flestum finnst verð á matvælum á Íslandi meira en nógu hátt. Hvað finnst þér? Ertu til í að borga 14% vsk. ofan á matvöruna í stað 7%?

Þetta heitir að breikka skattstofninn.

Í reynd er þetta þannig að skattbyrði í virðisaukaskattinum yrði flutt af þeim sem kaupa í meiri mæli lúxusvöru yfir á þá sem kaupa í meiri mæli matvöru.

Auk þess vilja Sjálfstæðismenn fella niður öll vörugjöld, sem oft eru sérstaklega lögð á lúxusvarning. Sjálfstæðismenn eru að hugsa um hag tekjuhærri hópanna – eins og fyrri daginn.

Hagfræðingar og Sjálfstæðismenn vísa í tölur úr neyslukönnun Hagstofunnar sem virðast benda til að lágtekjufólk og hátekjufólk verji svipuðu hlutfalli tekna sinna til matvælakaupa. Sumir draga þá ályktun að þetta þýði að hækkun matarskattsins myndi ekki sérstaklega lenda á lágtekjufólki. Það eru villurök.

Tölur neyslukönnunar Hagstofunnar eru villandi m.a. vegna námsmanna í úrtakinu sem teljast hafa mjög litlar eða engar tekjur (lifa á námslánum) en eru með útgjöld til matvæla (sem hækkar meðaltal matvælaútgjalda lágtekjufólks). Það stenst ekki að lágtekjufólk hafi sama neyslumynstur eða lífsstíl og hátekjufólk, eins og sumir lesa út úr neyslukönnuninni.

Auk þess kaupir lágtekjufólk meira af matvöru í lægri gæðaflokki, sem er mun ódýrari en hátekjufólk oft kaupir.

 

Lágtekjufólk á mun erfiðara með að láta enda ná saman

Í öllu falli er lágtekjufólk með meiri byrðar af útgjöldum til nauðþurfta og á mun erfiðara en hátekjufólk með að láta enda ná saman. Það þýðir að auknar álögur ríkisins á matvæli sem keypt eru til daglegrar neyslu leggjast alltaf með hlutfallslega meiri þunga á lágtekjufólk.

Lágtekjufólk hefur einfaldlega minna borð fyrir báru til að taka á sig hækkanir.

Myndin hér að neðan sýnir muninn á erfiðleikum við að láta enda ná saman hjá tekjulægstu 20% heimila og þeim 20% heimila sem hafa hæstu tekjurnar.

Miklu munar. Hátt í 60% lágtekjufólks á erfitt með að láta enda ná saman, en einungis um fjórðungur hátekjufólks.

Erfitt að ná endum saman ha og lá

Sjálfstæðismenn tala alltaf mikið um að þeir vilji lækka skatta á heimilin og fyrirtækin. Í reynd sýnist manni að þeir vilji einkum lækka skatta á hátekjufólk og stóreignafólk – og á fyrirtækjaeigendur.

Þeim virðist hins vegar alveg saman þó þeir hækki skatta á lægri og milli tekjuhópana, eins og þeir gerðu ítrekað á tímabilinu frá 1995 til 2004.

Það er gott að Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra og félagar hennar standa velferðarvaktina og vilja verja þá sem verst standa gegn hækkun matarskattsins. Vonandi finnst leið til þess í samningum milli stjórnarflokkanna.

Aðrar leiðir til skattabreytinga gætu líka verið vænlegar.

Ef menn endilega vilja hafa virðisaukaskattinn flatari en nú er þá er hægt að verja lágtekjufólk með öðrum og jafnvel betri leiðum, t.d. með veglegri hækkun persónufrádráttarins. Vandinn er sá að Sjálfstæðismenn hafa ekki verið hlynntir hækkun persónuafsláttarins og maður óttast að þar kæmu þeir með sýndarhækkun sem ekki jafnaði metin. Sporin hræða.

Önnur leið væri sú, að halda auðlegðarskattinum og nýja veiðigjaldinu til fulls og lækka í staðinn hærra þrepið í virðisaukaskattinum án hækkunar á matarskattinum. Einnig mætti hreinsa til og sanera virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna – afla meiri tekna þar (m.a af útlendingum).

Slíkar leiðir væru betri fyrir lágtekju- og millitekjufólk.

 

Síðasti pistill: Hátekjuhóparnir stinga aðra af – enn á ný

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar abstraksjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar