Mánudagur 08.09.2014 - 22:03 - FB ummæli ()

Rangfærslur um gjaldeyrishöft

Fæstir hafa nokkurn áhuga á höftum, hvort sem þau tengjast gjaldeyri eða viðskiptum almennt. Auðvitað vilja flestir frekar frelsi en höft. Skiljanlega.

Hins vegar vita þeir sem kynna sér sögu og virkni kapítalismans, að algerlega óheftum markaði fylgja miklar áhættur, mikill ójöfnuður og óstöðugleiki.

Óheftur kapítalismi skilar ekki meiri hagvexti en hóflega taminn kapítalismi blandaða hagkerfisins.

 

Óheftur kapítalismi brást í Kreppunni miklu – og aftur nú

Á Vesturlöndum lærðu menn þá lexíu af Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar, að óheftur kapítalismi fer á endanum illa afvega – í óhófi, áhættum, skuldasöfnun og ójöfnuði. Sem leiðir svo iðulega til fjármálahruns, eins og varð á Wall Street haustið 1929 og sem breiddist þaðan út um heiminn, með miklum hörmungum fyrir almenning.

Þess vegna gripu allar vestrænar þjóðir til þess úrræðis að hefta eða temja markaðsfrelsið að hluta á eftirstríðsárunum, til að tryggja betur öryggi þjóða og stöðugleika – og raunar einnig til að tryggja að allur þorri almennings nyti efnahagsframfara, en ekki bara yfirstéttin.

Við tók hið blandaða hagkerfi, með virku hlutverki ríkisvaldsins (hagstjórn, reglun og fínstillingu), við hlið markaðarins.

Hluti af hinni nýju skipan var Bretton Woods fyrirkomulag peningamála, sem meðal annars fól í sér gjaldeyrishöft, þ.e. takmarkanir á frelsi til fjármagnsflutninga milli landa. Milliríkjaviðskipti voru þó tiltölulega greið og vaxandi.

Gjaldeyrishöftum á Vesturlöndum fylgdi ekkert helsi eða hörmungar, heldur gríðarlegar framfarir, þrátt fyrir allt!

Tímabil blandaða hagkerfisins frá um 1945 og til um 1975 var eitt almesta framfaraskeið sögunnar. Hagvöxtur var með mesta móti og kaupmáttur almennings jókst meira en fyrr og síðar. Velferðarríkið byggðist upp og dró verulega úr áhrifum stéttaskiptingar á tækifæri ungs fólks.

Allt gerðist þetta innan gjaldeyrishafta, sem voru almennt við lýði á Vesturlöndum fram til um 1973, er þau tóku að leysast upp. Frá 1980 jókst frelsi til fjármagnsflutninga á ný í mörgum löndum og með því jókst áhættan á fjármálakreppum og ójöfnuði sömuleiðis. Tíðni fjármálakreppa stórjókst einnig, eftir að hafa verið afar lítil sem engin á gullöld blandaða hagkerfisins.

 

Frjálshyggjuvæðing frá 1980 jók áhættur og ójöfnuð

Sú þróun að auka frelsi á fjármálamörkuðum var réttlætt með barnalegri frjálshyggjupólitík, sem réttlætti ójöfnuð og boðaði að óheftari markaðir myndu skila auknum hagvexti. Það gekk hins vegar ekki eftir.

Hagvöxtur eftir 1980 hefur almennt verið minni en á gullöld blandaða hagkerfisins frá 1945 til um 1980. Ójöfnuður hefur hins vegar stóraukist eftir 1980 og óstöðugleiki sömuleiðis.

Fáar þjóðir voru jafn illa leiknar og Íslendingar, af óheftum markaði og afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar, á áratugnum frá um 1998 til 2008. Því fylgdi glórulaus skuldasöfnun, óhóf og óreiða. Það færði okkur svo hrunið og lífskjaraskerðinguna í kjölfarið.

Að ráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var gripið til hamlana á flæði fjármagns úr landi, til að aftra því að gengi krónunnar félli enn meira en um þau ca. 50% sem yfir þjóðina gekk, með hátt í 30% kjaraskerðingu.

 

Gjaldeyrishöftin eru til að verja heimilin og þjóðarbúið

Þess vegna erum við nú með gjaldeyrishöft. Til að aftra því að krónan hrynji enn frekar en orðið er og rýri kjör heimilanna á ný – beinlínis með öðru hruni lífskjara. Erlendar skuldir myndu einnig verða þyngri klafi með öðru hruni krónunnar, bæði fyrir ríkisvaldið og fyrirtækin.

Seðlabankinn hefur, ásamt AGS, boðað að skapa verði skilyrði til að hægt verði að létta gjaldeyrishöftum án þess að stefna stöðugleika og kjörum þjóðarinnar í bráða hættu.

Það er skynsamlegt.

Sumir áhrifamenn, einkum í fjármálaheiminum, ásamt atvinnurekendum og efnafólki, hafa hins vegar verið talsmenn hraðferðar út úr gjaldeyrishöftunum. Rétttrúaðir frjálshyggjumenn taka svo alltaf undir, ef þeir eru þá ekki beinlínis forsöngvarar.

Þessir aðilar virðast ekki hafa áhyggjur af því að krónan hrynji aftur með þekktum afleiðingum fyrir heimilin. Þeir vilja kanski um fram allt koma eigum sínum úr landi, jafnvel þó almenningi blæði með frekari gengisfellingu og kjaraskerðingu.

 

Rangfærslur um höftin

Margir kaupa áróður þeirra sem hafa skammtíma hag af hröðu afnámi gjaldeyrishafta. Dæmi um það mátti sjá í leiðara eins dagblaðanna í gær.

Þar var ítrekuð dæmigerð villutrú um gjaldeyrishöftin, í umræðu um brýnustu verkefni ríkisstjórnarinnar. Svona hljómaði það:

“Þar ber náttúrulega helst að nefna afnám hinna alræmdu gjaldeyrishafta sem eru hægt og bítandi að murka lífið úr viðskiptalífinu og gera okkur að ríkisvæddu láglaunalandi – algjöru brottkasti meðal þeirra þjóða sem við höfum oftast borið okkur saman við í gegnum tíðina. “

Í þessari stuttu klausu er öllu snúið á haus, með miklum rangfærslum. Til dæmis eru gjaldeyrishöftin ekkert sérstaklega “alræmd”. Þau eru að verja þjóðina gegn frekari hruni lífskjaranna og auka stöððugleika.

Gjaldeyrishöftin eru heldur ekki að “murka lífið úr viðskiptalífinu”. Ísland hefur verið með eitt hæsta hagvaxtarstigið á Vesturlöndum alveg frá 2011 og spáð er enn meiri hagvexti á næstu tveimur árum.

Atvinnuleysi minnkar stöðugt og betur en hjá öðrum kreppuþjóðum (sjá t.d. hér). Þrátt fyrir gjaldeyrishöftin.

Höftin eru alls ekki að gera okkur að “ríkisvæddu láglaunalandi” – heldur aftra því að við verðum óheft og markaðsvætt láglaunaland, með enn lakari kjör en nú er.

Ísland varð eitt að ríkustu löndum heims innan gjaldeyrishafta, sem voru í gildi hér til ársins 1995.

Afnám haftanna drekkti þjóðinni síðan í skuldum gráðugra braskara eftir aldamótin 2000.

Sjálfsagt er að stefna að afnámi gjaldeyrishafta í framtíðinni, en það verður að gerast án þess að krónan hrynji um tugi prósenta, á kostnað heimilanna. Til þess þarf að byggja upp þau skilyrði sem duga til að verja þjóðina gegn öðru lífskjarahruni. Síðan þarf að tryggja að óheft peningafrelsið steypi okkur ekki fyrir björg á ný. Ríkisvaldið þarf að temja fjármálaheiminn, reka eftirlit og veita aðhald.

Þetta getur tekið tíma.

Það er þó í góðu lagi, vegna þess að gjaldeyrishöftin hafa tiltölulega litlar afleiðingar fyrir hagvöxt og nýsköpun – ef einhverjar.

 

Síðasti pistill:   Basl einstæðra foreldra á Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar abstraksjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar