Fimmtudagur 11.09.2014 - 15:04 - FB ummæli ()

Karl Garðarsson kemur sterkur inn

Að öðrum nýjum þingmönnum Framsóknar ólöstuðum verður að segjast að Karl Garðarsson hefur komið sterkar inn en flestir.

Karl hefur tekið skynsama og afgerandi afstöðu í ýmsum málum, nú síðast varðandi matarskattinn og niðurskurð til skattrannsóknarstjóra.

Hækkun matarskattsins úr 7% í 12%, sem er draumur Sjálfstæðisflokksins, gæti reynst ríkisstjórninni erfið, ekki síst Framsóknarflokknum.

Því er mikilvægt að Framsókn fylgi fordæmi Sigmundar Davíðs frá 2011 og vari við áhrifum matarskattsins á lágtekjufólk og millistéttina. Karl Garðarsson hefur haft forystu um þetta og margir úr röðum Framsóknarmanna hafa tekið undir með honum.

 

Hækkun matarskatts erfiðust fyrir lægri tekjuhópa

Nú hefur ASÍ birt nýjar tölur (hér) er sýna á skýran hátt að lágtekjufólk ver helmingi stærri hluta tekna sinna til matarkaupa en hátekjufólk. Þar með er tekið undir það sem ég sagði um hvernig byrðar af hækkun matarskattsins dreifast á tekjuhópa í byrjun þessarar umræðu (sjá hér og hér).

Screen shot 2014-09-11 at 2.15.30 PM

Með þessum tölum er líka kveðin niður sú hugsanavilla, sem margir hagfræðingar hafa flaggað, að ekki sé munur á vægi matarútgjalda í heimilishaldi hjá lægri og hærri tekjuhópum.

Niðurstaðan er ljós: Hækkun matarskattsins leggst með mun meiri þunga á þá sem minnst hafa.

Sú leið sem er farin í nýja fjárlagafrumvarpinu er að stilla upp mótvægisaðgerð, einkum hækkun barnabóta um nærri einn milljarð, sem á sérstaklega að beinast að lágtekjufólki.

Þá er spurningin: Er það sé nóg til að bæta fyrir hinar auknu álögur?

Svo er augljóslega ekki, vegna þess að mun fleiri verða fyrir hækkun matarskattsins en þeir sem fá fullar og óskertar barnabætur (samhliða á reyndar að auka skerðingu bótanna, sem þýðir að barnabæturnar dragast fyrr saman þegar tekjur barnafjölskyldna hækka upp fyrir lágtekjumörk).

Nettó staða heimila með lægri tekjur versnar því við breytinguna. Þeir sem kaupa mikið af flatskjám og rafmagnstækjum gætu þó fengið nettó lækkun virðisaukaskatts með breytingunni – en sú leið að stórauka neyslu á dýrum heimilistækjum er varla fær fyrir lágtekjufólk.

Eins og venjulega þegar Sjálfstæðismenn breyta skattkerfinu, þá vill hagur hátekjufólks batna en byrðar lægri og milli tekjuhópa þyngjast.

Framsóknarfólk sem hefur efasemdir um hækkun matarskattsins þarf því að herða róðurinn og fá mun öflugri mótvægisaðgerðir, til dæmis hækkun persónufrádráttarins.

 

Veikara eftirlit – meira svigrúm til undanskota

Það er líka hárrétt hjá Karli Garðarssyni að niðurskurður á fjárveitingum til skattrannsóknarstjóra er vægast sagt furðulegur, því slíkar fjárveitingar skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs, auk þess að veita eðlilegt og mikilvægt aðhald.

Framlög til skattrannsóknarstjóra borga sig sjálf eða skila beinum hagnaði.

Lækkun þeirra verður því einungis til að veita meira svigrúm til undanskota – en ekki til að spara í ríkisrekstrinum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar