Fimmtudagur 20.11.2014 - 14:26 - FB ummæli ()

Styrmir von Stasi

Það vakti mikla athygli þegar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins til áratuga og áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum, upplýsti að hann hafði stundað njósnir um vinstri menn á Viðreisnarárunum (sjöunda áratugnum).

Uppljóstrarinn sem veitti Styrmi upplýsingar fékk greitt fyrir viðvik sitt og formaður Sjálfstæðisflokksins, ritstjóri Morgunblaðsins og sendiráð Bandaríkjanna (CIA?) fengu upplýsingarnar. Styrmir telur að Bandaríkjamenn hafi lengst af greitt kostnaðinn af starfinu.

Þarna var sem sagt um að ræða samstillta aðgerð milli ritstjórnar Morgunblaðsins (þar sem Styrmir starfaði), forystu Sjálfstæðisflokksins, ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins og bandaríska sendiráðsins.

Þetta er auðvitað með ólíkindum, eins og Sigurjón M. Egilsson ritstjóri Fréttablaðsins bendir á í leiðara gærdagsins.

Sjálfstæðisflokkurinn stundaði þó einnig víðtæka upplýsingasöfnun um kjósendur, eins og m.a. kom fram í ævisögu Gunnars Thoroddsen, eftir Guðna Jóhannesson sagnfræðing. Slíkar upplýsingar voru m.a. notaðar til að mismuna vinstra fólki á vinnumarkaði (sjá einnig hér).

Þessi starfsemi virðist hafa miðað frekar að því að styrkja valdastöðu Sjálfstæðisflokksins en að verja lýðræðissamfélagið á Íslandi, eins og Styrmir þó gefur í skyn.

Alþýðubandalagið og forveri þess voru ekki að berjast fyrir endalokum lýðræðis á Íslandi á sjöunda áratugnum, ef ég man rétt, heldur fyrir breyttum áherslum í þjóðmálum, einkum betri kjörum almennings og hlutleysi í alþjóðamálum.

 

Um hverja er njósnað í dag?

Að þessu leyti var njósnastarfsemi Sjálfstæðisflokksins svipuð að eðli og starfsemi Stasi, austurþýsku leyniþjónustunnar. Þetta var starfsemi sem miðaði að því að efla og viðhalda valdastöðu ráðandi stjórnmálaflokks.

Vissulega var Stasi að verja afar ógeðfellt samfélag og ógeðfelldan valdaflokk, með skuggalegum aðferðum, mjög ólíkt því sem var hér á landi. Samt verður ekki framhjá því horft, að Sjálfstæðismenn beittu ólýðræðislegum aðferðum við að efla valdastöðu sína og berja á vinstri mönnum.

Ólýðræðislegar aðferðir stjórnvalda grafa undan lýðræðinu frekar en að verja það og efla.

Það er þó ef til vill þroskamerki fyrir þjóðmálaumræðuna og valdaskiptinguna á Íslandi í dag að Styrmir skuli á næstunni taka við stjórn umræðuþáttar í Ríkissjónvarpinu ásamt Þórhildi Þorleifsdóttur, þekktri vinstri konu á njósnaárum Styrmis.

Vonandi veit það á eitthvað gott í framhaldinu, kanski heilbrigðari þjóðmálabaráttu!

Hins vegar læðist að manni sú kaldhæðnislega hugsun, að verið gæti að Styrmir og félagar hafi njósnað um Þórhildi Þorleifsdóttur og félaga hennar á þessum árum – og kanski gera þeir það enn!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar