Sunnudagur 11.01.2015 - 11:20 - FB ummæli ()

Launa þarf listamennina svo menning blómstri

Það er dýrt að vera Íslendingur. Það gerir fámennið.

Markaður í fámennissamfélagi er alltaf takmörkunum háður. Ekki eru nógu margir til að heilbrigð samkeppni fái þrifist. Verðlag er því of hátt.

Þeir sem reyna að lifa af því að selja sérvöru hafa of fáa kaupendur.

Þetta á ekki síst við um flest svið menningar.

Það er sérstaklega erfitt að vera listamaður á fámennismarkaði.

Samt eiga Íslendingar óvenju stórar sveitir listamanna og marga mjög öfluga og snjalla. Það sýnir mikinn kraft fólksins í því erfiða umhverfi sem hér er.

Þetta á ekki síst við um tónlistina, en líka bókmenntir og myndlist.

Af þessum sökum þarf fámennisþjóð að leggja mikinn áburð og vökvun til listamanna, til að halda þeim og menningunni gangandi –  og helst í blóma.

Við getum ekki ætlast til að menn skapi list svo um munar af hugsjón einni og svelti sig til þess. Við getum gert betur og búið til betra umhverfi fyrir listafólk.

Starfslaun listamanna hafa lengi þjónað sem eins konar áveitukerfi fyrir menninguna og verið afar þýðingarmikil sem slík. Samt er þar allt skorið við nögl og lýðskrumarar og menningarfælur ýmsar veitast iðulega að fyrirbærinu.

Ég sé að snillingurinn Bubbi Mortens hefur gefist upp á að sækja um listamannalaun vegna ítrekaðrar höfnunar.

Við ættum að vera stolt af því að hafa Bubba og ýmsa aðra framúrskarandi listamenn á starfslaunum. Það væri eðlileg viðurkenning á mikilvægi framlagsins og verðlaun fyrir óvenjugóða sköpun. Öðrum hvatning.

Við mættum líka sýna því skilning að vegna áhrifa netsins hefur diskasala hrunið á síðustu árum, en það hefur rústað markað tónlistarmanna, a.m.k. tímabundið. Sama gildir að hluta um bækur.

Það er eðlilegt að samfélagið sýni slíku skilning og bjóði upp á aðlögun að breyttum skilyrðum. Afnám virðisaukaskatts á bókum og menningu hefði t.d. verið meira viðeigandi en hækkun á þessum tímapunkti.

Menningin þarf bæði áburð og góða ræktarmenn. Það skilja garðyrkjumenn og bændur.

Blómleg menning bætir lífsgæði allra í samfélaginu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar