Þriðjudagur 13.01.2015 - 13:48 - FB ummæli ()

Afleiðingar hryðjuverkanna

Hryðjuverkin skelfilegu í París munu magna þróun sem þegar er komin á mikinn skrið á Vesturlöndum:

  • Andúð á Íslam mun aukast
  • Leit að og eftirlit með hættulegum einstaklingum eykst
  • Umburðarlyndi í opnum samfélögum veikist
  • Vandi fjölmenningarsamfélaga eykst
  • Stjórnmálaflokkar sem vilja hefta fjölgun innflytjenda munu eflast

Hryðjuverkin vekja auðvitað óhug. Þau tengjast kimum Íslamstrúar og eru sögð gerð í nafni trúarinnar og spámannsins. Það leiðir eðlilega til aukins fyrirvara gagnvart Íslam og jafnvel til aukinnar andúðar í garð múslima á Vesturlöndum.

Á Vesturlöndum búa nú þegar vel á annað þúsund róttækra íslamista sem hafa farið til Sýrlands og sem gætu gerst liðsmenn í heilögu stríði (Jihad), eins og frönsku hryðjuverkamennirnir, as sögn Spiegel.

Almenningur krefst aukins öryggis í kjölfar hryðjuverka. Stjórnvöld munu verða við því, auka eftirlit og jafnvel banna róttækan íslamisma og tengda hegðun.

Það er eðlilegt í ljósi ógnarinnar, en um leið er umburðarlyndi í opnu samfélögunum á Vesturlöndum settar nýjar og þrengri skorður

Góðir múslimar, sem eru stóri meirihlutinn, líða mest allra fyrir gerðir þessara hryðjuverkamanna. Íslamskir hryðjuverkamenn eru því verstu óvinir Íslams á Vesturlöndum.

 

Er hnattvæðingin komin of langt?

Það verður varla framhjá því komist að viðurkenna að hnattvæðing hins opna vestræna samfélags er komin í miklar ógöngur – hefur að öllum líkindum farið langt framúr því sem gerlegt er við núverandi aðstæður í heiminu.

Draumurinn ljúfi um fjölmenningarsamfélag, þar sem fólk af ólíkum uppruna, með ólíka trú og ólíka lífsskoðun, býr saman í sátt og samlyndi er vandasamari í framkvæmd en menn gerðu ráð fyrir.

Ástæðan er djúpstæð gjá milli menningarheima, lífshátta og hugarfars, sem leiðir til alvarlegra árekstra.

Vestræna umburðarlyndið, mannréttindin, lýðræðið og markaðsfrelsið er um margt illa samrýmanlegt við lífsskoðun margra múslima og margra annarra þjóða sem búa utan Vesturlanda.

Á síðustu árum höfum við séð nýja stjórnmálaflokka sem vilja beita sér gegn fjölgun innflytjenda koma til sögunnar og vaxa óvenju hratt. UKIP í Bretlandi, National Front í Frakklandi, Sannir Finnar í Finnlandi, Svíþjóðardemókratar og margir fleiri.

Hryðjuverkin munu magna fylgisaukningu við þá, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Við getum hrópað að þetta séu ný-nasistar eða kynþáttahatarar, sem væri þó mjög villandi. Flestir sem ganga til liðs við þessa flokka hafa fyrst og fremst áhyggjur af samkeppni við innflytjendur um störf og lífskjör.

Aðrir hafa áhyggjur af því að mikil fjölgun innflytjenda af óskyldum menningarheimi breyti samfélögum sem fyrir eru og íbúum eru kær.

Aðrir vilja ekki trúarbragðastríð múslima inn á götur samfélaga sinna, eins og talsmenn slíkra afla í Þýskalandi segja (sjá hér).

Það er bæði til góð og slæm þjóðernishyggja. Þjóðerni og menning skipta fólk máli þó það sé fjarri því að teljast vera þjóðernisöfgamenn eða kynþáttahatarar. Hófleg ræktarsemi við eigin menningu og sögu er heilbrigð.

Góð vestræn samfélög eru þess virði að viðhalda og efla, til dæmis norrænu lýðræðis- og velferðarsamfélögin, sem eru að mörgu leyti mannvænustu samfélög jarðarinnar.

Að því leyti eru alvöru kynþáttahatarar og öfgamenn úr okkar eigin röðum, eins og fjöldamorðinginn Breivik, verstu óvinir umburðarlyndra og opinna vestrænna samfélaga.

 

Mun umburðarlyndi opna samfélagsins lifa af?

Það er heldur ekki sjálfgefið að umburðarlyndi okkar nái svo langt að við séum reiðubúin til að leyfa fólki úr öðrum menningarheimi að breyta samfélagi okkar á róttækan hátt. Þegar innflytjendur af mjög ólíkum menningarheimi eru orðnir 20% til 30% íbúa, eða meira, gerist það sjálfkrafa.

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá hafa hryðjuverkamenn áhrif, sem öll eru til ills. Ég nefni nokkur af þeim áhrifum í listanum í byrjun greinarinnar.

Vandi nútímans er sá, að opin samfélög eru viðkvæm fyrir ógn hryðjuverkamanna og þessum áhrifum. Það er því auðvelt að stigmagna þau.

Hversu mörg hryllileg hryðjuverk þarf í viðbót til að breyta samfélögum okkar í óbærileg og rándýr eftirlitssamfélög?

Helstu fórnarlömb þessarar þróunar eru vestræna umburðarlyndið og fjölmenningarsamfélagið, hvað sem líður góðum ásetningi um annað.

Ég hygg að þessi mál eigi eftir að verða með stærstu viðfangsefnum vestrænna samfélaga á næstu árum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar