Laugardagur 24.01.2015 - 10:29 - FB ummæli ()

Ný sápuópera: Hannes hreinsar Davíð

Um daginn fór ég á fyrirlestur sem Hannes Hólmsteinn hélt um “ný gögn um hrunið”.

Þar kom að vísu fátt nýtt fram um orsakir hrunsins, en þetta var hins vegar skemmtilegt tækifæri til að sjá hvernig Hannes er að þróa skáldskap sinn um meintar erlendar orsakir hrunsins, sem hann segist vinna að.

Hannes segir sjálfur að hann nálgist verkefnið sem pólitískur “vígamaður” frekar en hlutlaus fræðimaður. Það er heldur ekki nýtt. Flest sem Hannes hefur gert í gegnum tíðina, meðal annars í nafni fræða og háskólastarfs, eru pólitísk áróðursverk, með einum eða öðrum hætti.

Ævisaga Halldórs Laxness er helsta frávikið – en hún var að umtalsverðu leyti skrifuð af Halldóri Laxness sjálfum undir höfundarnafni Hannesar Hólmsteins, eins og hæstiréttur staðfesti eftirminnilega.

Hannes segist “standa með Íslandi og gegn útlendingum” í umfjöllun sinni um erlendar orsakir hrunsins. Það hjálpar honum væntanlega að komast að þeirri niðurstöðu að sökin sé útlendinga, en ekki Íslendinga. Hlutleysi og alvöru fræðimennska myndi bara þvælast fyrir!

Ef menn ætla að kenna útlendingum alfarið um íslenska hrunið þurfa þeir að horfa framhjá innlendum orsökum þess. Þær voru vissulega mikilvægar, enda varð hér til stærsta bóluhagkerfi sögunnar, hvorki meira né minna.

Því fylgdi mikil óreiða, óvenju ör skuldasöfnun og gríðarleg áhætta, sem á endanum kom mönnum í koll og rak bankana í þrot. Þetta bóluhagkerfi var verk Íslendinga, þó alþjóðlegar aðstæður hafi gert þeim kleift að fara ótrúlega langt afvega.

Rifjum fyrst upp helstu innlendu orsakir hrunsins áður en við skoðum hina nýju sápuóperu Hannesar Hólmsteins.

 

Innlendar orsakir hrunsins og helstu gerendur

Einkavæðing bankanna 1998 til 2003 hafði verið framkvæmd samkvæmt hefðbundinni formúlu hins gamalgróna íslenska klíkukapítalisma – “helmingaskiptareglunni”. Bankarnir voru settir í hendur einstaklinga sem voru “í (nánu) talsambandi við stjórnarflokkana”.

Eftir að bankarnir voru að fullu einkavæddir, í byrjun árs 2003, slepptu þeir öllu lausu og lánsfé streymdi til landsins sem aldrei fyrr. Það fé var að mestu notað af fjármálamönnum og fyrirtækjaeigendum, oft nátengdum eigendum bankanna, til spákaupmennsku og brasks. Það er ekki heilbrigð efnahagsstarfsemi.

Skuldasöfnun og taumlaust brask var mjög ábatasamt fyrir yfirstéttina í landinu og gekk svo langt að landinu var drekkt í erlendum skuldum, um leið og braskararnir söfnuðu upp gríðarlegum eignum. Stjórnvöld sátu aðgerðalaus hjá og dáðust að hagnaðartölum banka og stærri fyrirtækja. “Sjáiði ekki veisluna drengir”, sagði fjármálaráðherrann haustið 2007, þegar þjóðarbúið stefndi lóðrétt í hrun.

Stjórnendur Seðlabankans leiddu ekki hugann að ógnum við fjárhagslegan stöðugleika svo merkjanlegt væri og Fjármálaeftirlitið lét bankastjórnendur blekkja sig út í hafsauga. Ríkisstjórnin var eins og klappstýra hjá útrásarvíkingum.

Íslenska fjármálamiðstöðin” var eins og skrípamynd af Wall Street kapítalisma á sterum. “Wall Street on the Tundra” var heitið sem þekktur bandarískur blaðamaður notaði á fyrirbærið.

Sjálfstæðismenn urðu fyrir miklu áfalli með hruninu. Stefna sem Eimreiðarhópurinn innleiddi undir forystu Davíðs og Hannesar (1991-2004) og stjórnun flokksins á fjármálum þjóðarinnar samfleytt í 18 ár (1991-2008) endaði með hruni fjármálakerfisins og djúpri kreppu efnahagslífsins.

Sjálfur guðfaðir nýfrjálshyggjunnar á Íslandi, Davíð Oddsson, var æðsti yfirmaður íslenska fjármálakerfisins (aðalbankastjóri Seðlabankans) þegar dansinn kringum gullkálfinn keyrði um þverbak (2005-2008) – og svo þegar allt hrundi til grunna.

Davíð átti að vernda “fjárhagslegan stöðugleika”, sem seðlabankastjóri. En á hans vakt fór hins vegar öll fjármálastjórn þjóðarbúsins úr skorðum eins og frekast gat orðið – með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina.

Þetta var líklega mesta klúður Íslandssögunnar.

 

Bankar byggðir á sandi

Íslenska þjóðarbúið var orðið skuldsettasta þjóðarbú heims þegar árið 2004-5. Einstaklega ör vöxtur skulda var til vitnis um of alltof mikla áhættu og ótraustan grundvöll – einstaklega brothætt bankakerfi. Það sýndi skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis og það kemur einnig glögglega fram í vandaðri bók Guðrúnar Johnsen fjármálahagfræðings um fall bankakerfisins.

Hið sama sagði finnski fjármálaeftirlitsmaðurinn Kaarlo Jännäri, er gerði sérstaka úttekt á orsökum bankahrunsins. Einnig hinir virtu fjármálahagfræðingar Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff, sem rannsakað hafa allar helstu fjármálakreppur síðustu átta alda. Þau segjast aldrei fyrr hafa séð aðra eins skuldasöfnun og á Íslandi og Írlandi í aðdraganda kreppunnar (skuldir jukust örar á Íslandi). Ósjálfbær skuldasöfnun er algengasta orsök bankahruns.

Staðan var orðin erfið þegar á árinu 2006 og þegar alþjóðlegir fjármálamarkaðir lokuðust haustið 2007 var bara tímaspursmál hvenær íslenska spilaborgin myndi hrynja. Icesave og Edge sparireikningarnir framlengdu líf bankanna um hríð, en teningunum var löngu kastað.

 

Sápuópera Hannesar Hólmsteins

Hrunið var rothögg fyrir Sjálfstæðismenn. Fyrstu viðbrögð voru að horfast í augu við mistök sem gerð voru og sýna betrumbót með Endurreisnarskýrslunni frægu. Davíð Oddsson sópaði henni hins vegar af borðinu og reyndi í staðinn að hengja sökina á Baugsfjölskylduna eina.

Síðan kom Styrmir Gunnarsson með “umsáturskenninguna”, sem var sú að útlendingum væri um að kenna (einkum Bandaríkjamönnum), því þeir hefðu ekki viljað bjarga íslensku bönkunum eftir að þeir höfðu verið reknir í þrot af Íslendingum sjálfum. Sérkennileg rökfræði það.

Seðlabanki Bandaríkjanna taldi íslensku bönkunum ekki viðbjargandi og ráðlagði Íslandi að leita neyðaraðstoðar AGS. Mun meira lánsfé þyrfti en Seðlabankinn óskaði eftir.

Auk þess virtist ljóst að Íslandi gæti ekki ráðið við þær skuldir sem stofna þyrfti til ef reyna ætti að bjarga þessum bönkum (sem ekki var heldur víst að tækist). Þá er ónefnt óréttlætið sem hefði falist í því að skuldsetja almenning á Íslandi enn meira en þó varð, til að bjarga eigendum einkabanka frá eigin glapræðum.

Hannes Hólmsteinn hefur ítrekað reynt að hreinsa Sjálfstæðisflokkinn, nýfrjálshyggjuna, Davíð og félaga sína í Eimreiðarhópnum af allri ábyrgð á því sem misfórst hér á landi. Hann hefur einnig reynt að fría fjármálamennina og braskarana af allri sök – nema Baugsfjölskylduna eina.

Sú fjölskylda varð snemma að skotspæni hjá þeim Eimreiðarmönnum vegna þess að Baugsmenn komu ekki úr þeirri klíku sem Sjálfstæðisflokknum var þóknanleg. Treguðust einnig við að greiða verndargjaldið í flokkssjóðinn.

Hannes var sem sagt enn í fyrirlestrinum um daginn að tala um að allt hefði verið í stakasta lagi á meðan Davíð var forsætisráðherra en svo hafi Baugsfjölskyldan tekið við árið 2004 og stýrt landinu í nafni einhvers nýs “klíkukapítalisma” – rétt eins og gamli klíkukapítalisminn hefði aldrei verið til.

Raunar hefur hann oft áður sagt að fyrst eftir 2004 hafi allt farið afvega, vegna Baugsfjölskyldunnar. Það er annars magnað hversu vel Hannesi tekst stundum að gleyma því að Davíð var sjálfur æðsti stjórnandi íslenska fjármálakerfisins (sem aðalbankastjóri Seðlabankans) frá 2005 til 2009. Davíð stýrði fjármálakerfinu að hruni.

Screen shot 2015-01-17 at 6.26.23 PMMynd Gunnars Karlssonar, úr Fréttablaðinu.

Nýr spunaþráður

Nú er hins vegar kominn nýr þráður í spunann hjá Hannesi. Hann er sá, að bankarnir íslensku hafi ekki verið neitt verri en erlendir bankar og því hefði átt að bjarga þeim. Vandinn var bara sá að þeir voru alltof stórir til að Íslendingar gætu sjálfir bjargað þeim.

Hannesi finnst, eins og Styrmi, að Bandaríkjamenn hefðu átt að bjarga bönkunum, vegna þess að við studdum þá í kalda stríðinu. Síðan gerir hann mikið úr því að Brown og Darling, leiðtogar Bretlands, hefðu beinlínis viljað fella íslensku bankana og unnið að því í leyni.

Í fyrirlestrinum var það helst nýtt að nú er Hannes farinn að tengja þessa ævintýralegu tilgátu við spekúlasjón um að leiðtogar Bretlands hafi viljað kenna Skotum þá lexíu að sjálfstæði borgaði sig ekki, með því að fella íslenska fjármálakerfið.

Nokkuð djúp samsæriskenning það. Þessir viðburðir á Íslandi gerðust mörgum árum áður en ákveðið var að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Það var David Cameron sem samdi um það árið 2012 en ekki Gordon Brown árið 2008!

Þetta er náttúrulega spuni hjá Hannesi, þar sem eitt rekst á annars horn. Fabúla án haldbærra sönnunargagna.

Fróðlegt verður að fá viðbrögð erlendra aðila við þessari sápuóperu í fyllingu tímans.

 

Sjálfstæðismenn vilja sápuóperuna – til að sleppa við ábyrgð

Þegar litið var yfir hópinn sem var á fyrirlestri Hannesar og félaga sýndist mér að stór meirihluti væru virkir Sjálfstæðismenn. Nærri helmingur Eimreiðarmanna var á staðnum.

Þeir og aðrir flokksmenn drukku í sig einfeldningslegar og á köflum hlægilegar útlistanir Hannesar á hinum ýmsu þráðum sápunnar – rétt eins og þetta væri í fullri alvöru.

Það er skiljanlegt. Sjálfstæðismenn þyrstir í aflausn ábyrgðar á þessu mesta klúðri Íslandssögunnar. Fyrir sig, flokkinn, stefnuna og leiðtogana.

Að klína sökinni nær alfarið á útlendinga er þægilegasta undankomuleiðin.

Ég sé fyrir mér að þegar Hannes hefur lokið við skáldskapinn þá verði góð eftirspurn eftir sápuóperu hans hjá félögum Sjálfstæðismanna um land allt. Hann gæti hæglega farið með þetta sem “roadshow” um byggðir landsins, eins konar sumargleði Sjálfstæðismanna, undir auglýsingunni „Hannes hreinsar Davíð og flokkinn“.

Ekki er þó víst að hann slái við freyðibaðsýningum dönsku strípastúlkunnar Susan Haslund, sem gekk í 7 ár á sveitaböllum um land allt! Það var feikivinsælt þegar “Susan baðaði sig” á mannamótum.

 

Einn góður fróðleiksmoli

Ég tók þó með mér einn gagnlegan fróðleiksmola frá þessari forsýningu Hannesar um daginn:

Hann upplýsti að Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, hefði sagt við Davíð Oddsson seinni hluta árs 2005, að hann óttaðist að íslenska efnahagsundrið væri snjóbolti sem væri á leið niður fjallshlíð – og hann óttaðist líka að Davíð yrði undir honum.

Jóhannes Nordal, hinn aldraði og margreyndi seðlabankamaður, varð sannspár um þetta.

Snjóboltann hnoðuðu þó Davíð og félagar sjálfir og renndu af stað niður fjallið. Gráðugir braskarar stukku svo á hann hver á fætur öðrum uns hann varð risavaxinn, með þekktum afleiðingum.

Það er auðvitað hægt að finna til með Davíð og félögum fyrir að hafa orðið undir þessu fargi…

Flokkar: Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar