Mánudagur 23.02.2015 - 10:58 - FB ummæli ()

Kaupþingslánið – svörin sem vantar

Sá óvenjulegi og stóri viðburður að Seðlabankinn skyldi ákveða að lána Kaupþing banka nær allan gjaldeyrisvarasjóð Íslands þann 6. október 2008 er enn að mestu óskýrður.

Ákvörðunin var tekin á hrundaginn mikla. Síðar sama dag flutti Geir Haarde “Guð blessi Ísland” ræðuna.

Um kvöldið setti Alþingi svo neyðarlögin og morguninn eftir var Landsbankinn fallinn. Glitnir hafi verið tekinn yfir af Seðlabankanum rúmri viku fyrr, í aðgerð sem virtist hafa verið vonlaus fyrirfram, enda fór bankinn skömmu síðar í gjaldþrot.

Lehmann bankinn bandaríski hafði fallið nærri þremur vikum fyrr og alþjóðlegir fjármálamarkaðir voru búnir að vera frosnir um mánaða skeið.

Á Íslandi voru menn búnir að verja allri helginni á undan hrundeginum mikla í viðræður í Ráðherrabústaðnum um ýmsar leiðir til að bjarga íslensku bönkunum, meðal annars með því að fá lífeyrissjóðina til að flytja allar erlendar eignir sínar heim og dæla þeim inn í bankana, þeim til björgunar.

Sem betur fer stóðu stjórnendur lífeyrissjóðanna í lappirnar og höfnuðu því að hætta sparifé landsmanna með þeim hætti. Hverjir létu sér annars detta í hug að gera það? Því mætti svara.

Lánið til Kaupþings var sem sagt veitt eftir að hrunið var hafið.

Af skrifum Reykjavíkurbréfs í Morgunblaðinu um helgina má ráða og hugsunin hafi verið sú að freista þess að bjarga einum banka, þ.e. Kaupþingi. Það sagði þáverandi aðalbankastjóri Seðlabankans líka í fjölmiðlum þegar málið var kynnt á hrundögunum (sjá greinargóð skrif Benedikts Jóhannessonar um þetta hér).

Það má auðvitað spyrja hversu raunsætt það mat hafi verið, að hægt væri að bjarga þriðja bankanum þegar tveir voru þegar fallnir, í þessum aðstæðum krosseignatengsla og krosslánatengsla. Erlendir lánveitendur litu gjarnan á alla íslensku bankana sem eina heild og voru meira en líklegir til að láta það sama ganga yfir Kaupþing og hina bankana.

En ef menn voru að taka ákvörðun um að lána nær allan gjaldeyrisvarasjóð landsins, nærri 80 þúsund milljónir króna, til fallandi banka þá hlýtur að hafa verið rætt í hvað fjármagnið átti að fara.

 

Hverju nákvæmlega átti lánið að bjarga?

Hver var hinn bráði vandi sem lánið átti að leysa og hvernig var hægt að sjá að þetta fjármagn væri líklegt til að bjarga bankanum?

Allt þetta hlýtur að hafa verið rætt og skýrt af Kaupþingsmönnum þegar þeir fóru fram á aðstoðina við Seðlabankann. Seðlabankinn hlýtur einnig að hafa lagt mat á þörfina og líkindin á að lánveitingin myndi duga.

Eða svo verður að ætla. Ekki hafa Seðlabankamenn tekið ákvörðun um slíka lánveitingu blindandi eða út í loftið, hvort sem það var gert með samráði við ríkisstjórnina eða ekki.

Ábyrgðin á lánveitingunni var og er augljóslega hjá Seðlabankanum einum, eins og lög kveða á um. Seðlabankinn átti að vinna faglega matið sem hlaut að liggja til grundvallar svona ákvörðun.

Þarna eru margar stórar spurningar sem svara þarf:

  • Í hvað átti lánsféð að fara?
  • Hverju nákvæmlega átti að bjarga – hvaða afborganir gat bankinn ekki innt af hendi eða hvaða óviðráðanleg veðköll höfðu verið gerð?
  • Af hverju lá svo mikið á að ekki var hægt að ganga frá pappírum og veðum áður en féð var greitt út?
  • Hvernig komst Seðlabankinn að þeirri niðurstöðu að lánið myndi duga til að bjarga bankanum sem þegar riðaði til falls?
  • Hvernig var hægt að gefa sér að FIH bankinn danski myndi standa undir veðinu, í ljósi aðstæðna?
  • Vissi Seðlabanbankinn of lítið um aðstæðurnar sem uppi voru í íslenska fjármálakerfinu og í því alþjóðlega?
  • Vantaði skilning á því í Seðlabankanum hvað felst í fjármálakreppum?

Síðan er sú hlið málanna sem snýr meira að Kauþingi en Seðlabankanum, þ.e. hvað varð um fjármagnið eftir að Kaupþing fékk það í hendur? Það hefur heldur ekki verið skýrt.

Ef fjármagnið var veitt til að leysa tiltekinn skilgreindan vanda þá hefði þetta átt að vera ljóst. Þá hefði líka átt að vera auðrekjanlegt hvers vegna lánið dugði ekki til að bjarga bankanum. Hann féll tveimur dögum síðar.

Í Fréttablaðinu var fullyrt á árinu 2010 að lánsféð hefði meðal annars runnið til að kaupa skuldabréf af starfsmönnum bankans? Ef svo var þá gæti verið um lögbrot að ræða. Hvert var féð millifært frá bankanum á Íslandi?

Þessu þarf öllu að svara með skýrum og gagnsæum hætti.

Gerningurinn leiddi til þess að þjóðin tapaði um 35 milljörðum króna. Það hefði mátt byggja nýjan Landsspítala fyrir það sem þarna glataðist.

Menn hafa lagt lykkju á leið sína til að skýra og svara fyrir minna tap en þetta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar