Fimmtudagur 26.02.2015 - 11:39 - FB ummæli ()

Stjórn fjármála – Ísland verst í heimi?

Írar eru nú að rannsaka orsakir fjármálahrunsins sem varð 2008. Í Irish Times í gær var frétt um vitnisburð tveggja prófessor fyrir rannsóknarnefnd þingsins.

Báðir fjölluðu um að reglun og eftirlit í fjármálageiranum hefði verið mjög veikburða á Írlandi og gríðarleg mistök hefðu því verið gerð, einkum í seðlabankanum og fjármálaeftirlitinu.

Gregory Connor, prófessor í fjármálahagfræði og bókhaldi við Írlandsháskóla í Maynooth, sagði að einungis seðlabankinn og fjármálaeftirlitið á Íslandi hefðu gert meiri mistök en gerð voru á Írlandi.

Ég hef áður sagt þetta sama, með tilvísunum í hina heimsþekktu fjármálahagfræðinga Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff (sjá til dæmis hér og hér).

Þau Reinhart og Rogoff, sem rannsakað hafa allar helstu fjármálakreppur síðustu 8 alda, bentu á að aldrei fyrr hefðu þau séð jafn öra skuldasöfnun og á Íslandi og Írlandi í aðdraganda hrunsins.

Óhófleg skuldasöfnun og óeðlilega ör vöxtur banka eru vísbendingar um of mikla áhættutöku – sem iðulega leiðir til bankahruns og fjármálakreppu.

Prófessorarnir sem vitnuðu fyrir rannsóknarnefndinni í Írlandi segja að grípa hefði átt inn í þróunina á Írlandi strax árið 2005, til að draga úr skuldasöfnun og áhættu.

Það sama á við um Ísland.

 

Einfeldni og afskiptaleysisstefna réðu ferðinni á Íslandi

Hér á landi voru menn hins vegar gagnteknir af einfeldningslegri trú á frjálshyggjutalið um fullkomleika óheftra markaða og „skynsemi einkageirans“.

Stjórnendur Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og ríkisstjórnir bólutímans féllu flöt fyrir afskiptaleysisstefnu nýfrjálshyggjunnar og hölluðu sér aftur í stólunum og sögðu: “Sjáiði ekki veisluna”?

„Allt er eins gott og best getur orðið“, sögðu spámenn nýfrjálshyggjunnar – raunar alveg fram að hruni.

Hannes Hólmsteinn hæddi og uppnefndi til dæmis hagfræðiprófessorinn Robert Wade við London School of Economics í júlí 2008, eftir að Wade hafi skrifað gagnrýna grein um þróun og stöðu bankanna á Íslandi. Aðra efasemdarmenn kallaði Hólmsteinn “ginningarfífl”.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði við erlenda sjónvarpsstöð um miðjan september 2008 að íslensku bankarnir stæðu vel og að ríkið gæti greitt skuldir þeirra ef því svo sýndist. Hvoru tveggja var víðáttufjarri veruleikanum.

Robert Wade hafði sem sagt rétt fyrir sér. Bankarnir voru hrundir til grunna um þremur mánuðum eftir birtingu greinar hans

Það virðist því miður vera svo, að Ísland verðskuldi þá einkunn að stjórn peninga- og fjármála í landinu, a.m.k. frá um 2003 til 2008, hafi verið sú versta í heimi.

Kanski við ættum að horfast í augu við það, til að vita betur hvað ber að varast í framtíðinni?

 

Síðasti pistill:  Kaupþingslánið – svörin sem vantar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar