Mánudagur 23.03.2015 - 12:00 - FB ummæli ()

Er ný launastefna tímabær?

Í febrúar árið 1986 skrifaði ég opnugrein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni “Ný launastefna – Hvers vegna Íslendingar ættu að fylgja fordæmi annarra þjóða” (sjá greinina neðst á þessari síðu).

Þar var lagt út af þeirri staðreynd að grunnlaun voru óvenju lág á Íslandi, miðað við ríkidæmi þjóðarinnar (þjóðarframleiðslu á mann). Sömuleiðis var vinnutími hér afar langur og framleiðni á vinnustund lítil.

Lagði ég til að Íslendingar gerðu eins og aðrar sambærilegar hagsældarþjóðir og hækkuðu grunnlaun, styttu vinnutíma og reyndu að auka framleiðni samhliða þessum breytingum.

Benti ég m.a. á reynslu af yfirvinnuverkfalli á árinu 1977 þar sem fram kom í könnun Vinnuveitendasambandsins að hjá 85% fyrirtækja hefði tekist að halda sömu afköstum, þrátt fyrir yfirvinnubannið.

Mér sýndust því góðar forsendur fyrir því að takast mætti að kasta láglaunastefnunni fyrir róða og gera lífskjör sambærilegri við það sem tíðkaðist á hinum Norðurlöndunum – í sérstöku átaksverkefni.

Þó sumt hafi batnað hér frá þessum tíma er staðan í megindráttum enn sú sama (sjá hér). Íslendingar hafa of mikið fyrir öflun lífskjara sinna, vegna of lágra launa og of langs vinnutíma – og þar með er of mikið álag á heimili, einkum ungar barnafjölskyldur. Framleiðni er enn óeðlilega lítil.

Góður kollegi minn í Háskólanum, sérfræðingur í vinnumarkaðsmálum, las þessa gömlu grein mína fyrir nokkru og benti mér á að hún ætti sérstaklega vel við í dag – þrátt fyrir háan aldur!

Þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar Samtök atvinnurekenda (SA) sendu frá sér nýtt útspil í kjarasamningamálum.

 

Nýtt útspil atvinnuekenda (SA)

SA-menn leggja nú til að í fyrirliggjandi kjarasamningum verði grunnlaun hækkuð en álagsgreiðslur fyrir yfirvinnu og vaktavinnu verði lækkaðar á móti. Launakerfi verði stokkuð upp og yfirvinna minnki.

Þetta útspil þeirra miðar að því að forðast að til víxlverkunar launa og verðlags komi, vegna krafna um miklar launahækkanir.

Þessi nýja opnun SA-manna gæti verið mikilvægt skref í átt að þeirri launastefnu sem ég lagði til árið 1986, ef vel tækist til um útfærslu. SA-menn mættu að vísu tala skýrar um nauðsynlegt samspil veglegrar hækkunar grunnlauna, styttingu vinnutíma og aukinnar framleiðni í samfélaginu.

Kanski launþegahreyfingin og atvinnurekendur ættu að skoða þessa leið í fullri alvöru núna?

Daglaunastefna af þessu tagi þjónar hagsmunum allra: heimila, fyrirtækja og stjórnvalda. Hún er í senn hagkvæm og réttlát.

Þessi leið í kjarasamningum myndi gera Ísland nútímalegra og fjölskylduvænna – en jafnframt samkeppnishæfara um mannauðinn og unga fólkið.

———————————

Greinin frá 1986 í tveimur hlutum:

s.olafsson

s.olafsson2

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar