Fimmtudagur 30.04.2015 - 13:19 - FB ummæli ()

Leiðin út úr kjaradeilunum

Staðan á vinnumarkaði er erfið. Atvinnurekendur segja kröfur alltof miklar en allur almenningur styður kröfu Starfsgreinasambandsins (SGS) um að 300 þúsund króna lágmarkslaun náist á næstu þremur árum.

Það þýðir hækkun um 30 þúsund krónur á ári fyrir þá lægst launuðu, þrjú ár í röð.

Í mörgum atvinnugreinum er auðvelt að verða við þessum kröfum – og kanski víðast.

Sjávarútvegur mun áfram skila ofsagróða og akfeitum arðgreiðslum til eigenda þó gengið verði að þessum kröfum fyrir fiskvinnslufólk og jafnvel fyrir allt starfsfólk.

Annars staðar gæti þurft að hagræða í rekstri og halda aftur af hækkunum til hærri starfsstétta, til að aftra verðbólguskoti.

Þessi krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun er nefnilega innan við meðaltal heildarlauna hjá flestum starfsstéttum SGS, eins og sjá má á myndinni hér að neðan (úr Fréttablaðinu sl. þriðjudag):

Screen Shot 2015-04-30 at 12.50.35

Þó gengið verði til fulls að kröfum SGS (rauðu súlurnar) verður launataxtinn samt að jafnaði innan við það sem greitt er í dag í heildarlaun fyrir viðkomandi störf (ljósbláu súlurnar).

Þetta þýðir að atvinnurekendur hafa það í hendi sér að hemja verðbólguáhrif vegna hækkunar grunnkaupsins, t.d. með einhverri styttingu vinnutíma og lækkun aukagreiðslna – og einfaldlega með almennri hagræðingu.

Til að hemja verðbólguáhrifin frekar er líklega rétt að binda hækkanir til hærri launahópa við flata krónutöluhækkun, svipaða og SGS fær eða lægri.

Atvinnulífið á svo að mæta þessum kauphækkunum með aukinni áherslu á framleiðniaukandi aðgerðir og halda aftur af verðbólguhvetjandi hækkunum til toppanna. Einnig að halda aftur af of miklum arðgreiðslum til eigenda.

Ég vek athygli á því að það sem HB Grandi greiddi út í arð nýlega er miklu hærri fjárhæð en nemur kostnaði við hækkun launa skv. fullum kröfum SGS. Hækkanir til stjórnenda og eigenda flæða líka út í hagkerfið og hafa verðbólguáhrif.

Málið er að atvinnurekendur í flestum greinum geta mætt þessum kröfum sem uppi eru og eiga sjálfir að bera ábyrgð á að þær leiði ekki til verðbólguskots. Ýmislegt er hægt að gera til að ná því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar