Föstudagur 08.05.2015 - 12:10 - FB ummæli ()

Sagnfræði eða sögufalsanir?

Björn Jón Bragason, sem titlar sig “sagnfræðing”, sendi nýlega frá sér bókina Bylting – og hvað svo? Björn Jón er róttækur frjálshyggjumaður, fyrrverandi formaður Frjálshyggjufélagsins.

Meginmarkmið ofangreindrar bókar virðist vera að dreifa ófrægingum og slúðri um ýmsa pólitíska andstæðinga höfundar.

Þegar hefur verið bent á margar rangfærslur og staðreyndavillur í þeirri bók, meðal annars er snerta Jón Baldvin Hannibalsson f.v. utanríkisráðherra.

Þessi skrif Björns Jóns hafa því lítið með alvöru sagnfræði að gera.

 

Saga Hafskips endurskrifuð

En Björn Jón þessi var á bóluárunum fyrir hrun á launum hjá Björgólfi Guðmundssyni og fyrirtækjum hans við að skrifa bók um Hafskip hf, sem Björgólfur og félagar höfðu stýrt í gjaldþrot árið 1985. Bókin heitir Hafskip í skotlínu.

Meginmarkmið þeirrar bókar var að fegra sögu þessa viðskiptaævintýris Björgólfs Guðmundssonar og félaga, svo betur hæfði ímynd hans sem nýs aðaleiganda og stjórnarformanns hins einkavædda Landsbanka Íslands.

Bókin um Hafskip kom út um það leyti er Landsbankinn og aðrir einkareknir bankar íslenskir fóru í þrot, hrundu til grunna, með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenskan almenning.

Það hafði einungis tekið Björgólf og hina nýju bankamennina um 5 ár að reka fjármálakerfið allt í þrot. Gjaldþrot banka þeirra voru með stærstu gjaldþrotum heimssögunnar – sem er magnað að teknu tilliti til smæðar íslenska samfélagsins.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, páfi nýfrjálshyggjunnar á Íslandi, hafði nokkrum vikum fyrir hrun útnefnt Björgólf Guðmundsson sem merkasta Íslendinginn, ásamt Davíð Oddssyni og Geir Haarde.

Hrunið kastaði þó óneitanlega nokkurri rýrð á þetta ævintýralega mat Hannesar!

Björn Jón virðist hafa þjónað húsbónda sínum og launagreiðanda vel og dregið upp þá mynd, að Hafskip hafi í reynd ekki verið gjaldþrota heldur hafi fyrirtækið verið látið falla af annarlegum ástæðum.

Kanski næsta verkefni „sagnfræðingsins“ verði að skrifa bók um það, að Landsbankinn hafi hreint ekki verið gjaldþrota haustið 2008, heldur hafi honum verið „fórnað af einhverjum annarlegum ástæðum“. Nema Hannes Hólmsteinn taki af honum ómakið og verði fyrri til!

Kanski þeim detti jafnvel báðum í hug að boða þá speki, að íslensku bankarnir hafi farið á hausinn af því að erlendar ríkisstjórnir hafi neitað að bjarga þeim (eftir að íslenskir snillingar voru búnir að reka þá í þrot)? Það skyldi þó ekki vera…

„Sagnfræðingar nýfrjálshyggjunnar“ telja mikla þörf á að endursemja sögu hrunsins, með fölsunum og afbökunum  enda er hrunið óneitanlega kusk á hvítflibba nýfrjálshyggjunnar og þeirra auðmanna sem bröskuðu Ísland í þrot.

Það yrði ævintýraleg sápuópera, líkt og þessi bláa bók um Hafskip.

 

Sögufalsanir um Hafskip

Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður skrifaði í vikunni ítarlega grein á Pressunni um rangfærslur og blekkingar Björns Jóns í þessari bók um Hafskip og segir söguna eins og hún var í reynd (sjá hér).

Fleiri aðilar, meðal annars starfsmenn helsta viðskiptabanka Hafskipa, hafa áður gert alvarlegar athugasemdir við bók Björns Jóns.

Skemmst er frá því að segja, að ekki stendur steinn yfir steini í skrifum Björns Jóns Bragasonar um Hafskip. Hann fegrar Björgólf og félaga vísvitandi með ósannindum og afbökunum, eins og glögglega má sjá í grein Ragnars H. Hall. Staðreyndirnar tala sínu máli.

Það er leiðinlegt að sjá svona skrif kennd við “sagnfræði”, eins og Björn Jón Bragason gerir.

Bókin um Hafskip virðist eiga meira skylt við keypta froðu almannatengla en ábyrg fræðastörf sem alvöru sagnfræðingar stunda.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar