Þriðjudagur 12.05.2015 - 11:06 - FB ummæli ()

Mikil auðlegð Íslendinga

Nýlega hafa birst tvær alþjóðlegar skýrslur um auðlegð þjóða. Önnur kemur frá svissneska bankanum Credit Suisse og hin frá Alþjóðabankanum.

Með auðlegð er átt við hreinar eignir heimila umfram skuldir. Eignir geta bæði verið fjáreignir (sparifé, verðbréf, hlutabréf, lífeyriseignir o.s.frv.) og fasteignir (einkum íbúðarhúsnæði, en einnig landeignir).

Einnig má telja auðlindir, svo sem ræktarland, námur með verðmætum jarðefnum og aðrar auðlindir. Sjávarauðlindin og orkuauðlindir Íslendinga eru af þeim toga og raunar óvenju verðmætar náttúruauðlindir.

Skemmst er frá því að segja að samkvæmt báðum ofangreindum skýrslum er auðlegð Íslendinga með þeim allra mestu, þegar reiknuð er auðlegð á hvern fullorðinn einstakling í landinu. Skýrslurnar beita þó ólíkum aðferðum.

Á myndinni hér að neðan má sjá niðurstöðu Credit Suisse. Þar kemur fram að Ísland er í þriðja efsta sæti af OECD-ríkjunum, sem eru ríkari hluti jarðarbúa. Við erum þarna næst á eftir Sviss og Ástralíu og á svipuðum slóðum og Norðmenn og Bandaríkjamenn.

Ísland er nokkru fyrir ofan Frakkland, Svíþjóð og Danmörku, en talsvert fyrir ofan Finnland og Þýskaland, svo dæmi séu tekin.

Við og Norðmenn erum sem sagt ríkust norrænu þjóðanna.

AUðlegð Íslendinga

Skýrsla Alþjóðabankans sýnir tölur fyrir 1995, 2000 og 2005, sem eru í öllum tilvikum talsvert hærri, vegna þess að þar er lagt mat á náttúruauð o.fl. umfram það sem er í skýrslu svissneska bankans.

En þrátt fyrir það er Ísland einnig í allra efstu sætum í þeirri skýrslu, enda njótum við þess m.a. að vera fámenn þjóð í stóru landi. Við vorum þegar komin í þessa öfundsverðu stöðu á árinu 1995, að vera ein af ríkustu þjóðum Jarðarinnar.

Þarna eru því tvennar allsterkar vísbendingar um að auðlegð Íslendinga nútímans séu með allra mesta móti sem þekkist á Jörðinni. Samt eru sjávarauðlindin og orkuauðlindir okkar ekki meðtaldar í þessum tölum (þær hafa nýlega verið metnar á að minnsta kosti 5 milljónir króna á hvert mannsbarn á Íslandi, sem væri þá talsvert meira á hvern fullorðinn).

Það er tvennt sem er sérstaklega ríkulegt á Íslandi: eignir heimila í íbúðarhúsnæði og lífeyriseignir. Fjáreignir aðrar en lífeyriseignir eru rétt í meðallagi OECD-ríkja. Náttúruauðlindirnar eru líka óvenju miklar hér.

Þó margir skuldi mikið í húsnæði sínu á fyrri hluta æviskeiðsins er húsnæði á Íslandi stórt og veglegt og séreignarfyrirkomulag er útbreitt, samanborið við margar aðrar vestrænar þjóðir. Þannig að þegar fólk eldist og nær að borga niður skuldir myndast gjarnan mikil eign í íbúðarhúsnæði og öðrum fasteignum á Íslandi, samanborið við það sem er í mörgum öðrum löndum.

Lífeyriseignir Íslendinga eru svo sérstakur kafli í eignaflórunni. Samanlagðar eignir lífeyrissjóðanna nema nú um 150% af árlegri landsframleiðslu, sem er ekki fjarri stærð norska olíusjóðsins, hlutfallslega séð. Skylduaðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins skilar þessu.

Mat OECD er að meðal lífeyriseign Íslendinga sé nú samsvarandi til níu árslauna á meðallaunum (inni í því er þó einnig væntanlegt framlag almannatrygginga, ca. 25-30%).

Rétt er að hafa þann fyrirvara á að mat eigna er flókið og talsverðri óvissu háð, þó ofangreindar skýrslur reyni að samræma niðurstöðurnar. En við vitum líka að stórar eignir Íslendinga eru ekki meðtaldar í ofangreindu mati.

Ef eignir íslensku þjóðarinnar í fiskimiðunum og orkulindunum væru meðtaldar væri staða Íslendinga enn betri en þessar tölur Credit Suisse og Alþjóðabankans gefa til kynna. Síðan mætti að auki meta eignirnar í víðernum og óspilltri náttúru, sem bera uppi öfluga og ört vaxandi ferðaþjónustu nútímans.

Það virðist því nokkuð öruggt að Íslendingar séu í reynd ein af alríkustu þjóðum Jarðarinnar, samkvæmt þessum vísbendingum, að öllu meðtöldu.

 

Rík þjóð ætti að geta lifað vel

Ef Íslendingar eru ein af ríkustu þjóðum Jarðarinnar ættu þeir að geta lifað vel. Og það gera Íslendingar að umtalsverðu leyti, samanborið við flestar aðrar þjóðir á Jarðarkringlunni (sjá hér).

Íslendingar búa alla jafna frekar vel, eiga mikið af veglegum bifreiðum, sumarhúsum og margvíslegum húsbúnaði og öðrum efnislegum lífsgæðum.

En mörgum finnst mikið vanta uppá að lífskjör Íslendinga séu jafn góð og hjá sumum grannþjóðunum, einkum á hinum Norðurlöndunum (sjá hér).

Þó er það svo að einkaneysla er alla jafna mikil á Íslandi og umfang efnislegra lífsgæða á íslenskum heimilum er þrátt fyrir allt umtalsvert.

Hins vegar er það vissulega rétt að Íslendingar þurfa að hafa mun meira fyrir lífsgæðum sínum en frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum. Við vinnum mjög mikið og of erfitt er fyrir ungt fólk að eignast íbúðarhúsnæði á Íslandi.

Kaup fyrir dagvinnu er lægra hér (og raunar óeðlilega lágt miðað við þjóðartekjur á mann og almenna auðlegð þjóðarinnar). Íslendingar bæta það hins vegar upp með mikilli atvinnuþátttöku og löngum vinnutíma og ná að jafna efnislegu lífsgæðin með því.

Við höfum sem sagt mun meira fyrir lífsgæðaöflun okkar en frændurnir á hinum Norðurlöndunum.

Þetta ætti að vera hægt að laga fyrst við erum ein af ríkustu þjóðum Jarðarinnar. Norðmenn sem búa við alíka mikla auðlegð og við hafa mun minna fyrir öflun sinna lífsgæða.

Það ætti líka að vera hægt að hafa gæði heilbrigðisþjónustu og menntakerfis með allra besta móti á Íslandi, með allt þetta ríkidæmi.

Pottur er hins vegar brotinn hvað snertir skiptingu eigna þjóðarinnar og fénýtingu sameiginlegu náttúruauðlindanna (sjávarauðlindarinnar og orkulindanna).

Fámenn yfirstétt fær of mikið af þjóðarauðnum – og fjöldinn fær of lítið.

Eignaskiptingin er mjög ójöfn. Ég mun fjalla nánar um það í seinni pistlum.

 

Síðasti pistill:  Sagnfræði eða sögufalsanir?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar