Mánudagur 18.05.2015 - 09:56 - FB ummæli ()

Húsnæðismálin: Lítill áhugi Sjálfstæðismanna

Togsteita milli fjármálaráðuneytis og velferðarráðuneytis vegna nýrra frumvarpa Eyglóar Harðardóttur ráðherra um húsnæðisbætur og um félagslegt leiguhúsnæði hefur vakið mikla athygli.

Þessi frumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra eru hluti af stórum umbótapakka sem unnið hefur verið að um hríð, með aðkomu margra er málið snertir.

Margir hafa líka vænst þess að húsnæðismálin gætu orðið hluti af lausn kjaradeilna á vinnumarkaði.

Allir eru sammála um mikilvægi umbóta á sviði húsnæðismála, enda ástandið sérstaklega erfitt fyrir ungar fjölskyldur, ekki síst á leigumarkaði.

Eftir að Eygló Harðardóttir lagði fram frumvörp sín hefur fjármálaráðuneytið hins vegar sett þau í frystingu, undir því yfirskyni að svo langan tíma taki að kostnaðarmeta frumvörpin.

Fyrir kunnáttumenn tekur einungis nokkra daga að kostnaðarmeta slík frumvörp – ekki vikur og því síður mánuði.

Í ljósi kjaradeilna og hugsanlegra breytinga er auðvitað mikilvægt að fá grunnmat kostnaðar og einnig með ýmsum breytilegum útfærslum. Þannig er aðilum auðveldað að leggja mat á fýsileika ólíkra leiða og hvað er yfirhöfuð mögulegt í meðferð málsins, bæði á þingi og í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins.

Nei, þá stöðva Sjálfstæðismennirnir í fjármálaráðuneytinu málið og reisa hinar ýmsu hindranir í veg fyrir umbæturnar. Tefja og tafsa. Bera fyrir sig stífar afgreiðslureglur, rétt eins og ekki megi kostnaðarmeta ólíkar útfærslur og afbrigði.

Þessa framgöngu fjármálaráðuneytisins er erfitt að skilja nema sem endurspeglun af miklu áhugaleysi Sjálfstæðismanna fyrir þeim leiðum húsnæðisbóta og hugmyndum um umbætur á leigumarkaði sem í farvatninu eru.

 

Gegn styrkjum til fjölskyldna en vilja styrkja fyrirtæki

Sjálfstæðismenn hafa í seinni tíð talað gegn vaxtabótum (og jafnvel líka gegn leigubótum). Þeir vilja frekar að fullt markaðsverð skelli á fjölskyldunum, jafnvel þó þær ráði ekki við okrið.

Sjálfstæðismenn tala þannig oft gegn húsnæðisbótum og niðurgreiðslum velferðarkerfisins, kalla það “opinbera styrki”, sem þeir segja slæma.

En þeir eru hins vegar hlynntir opinberum styrkjum til verktaka, til dæmis með því að gefa þeim lóðir undir íbúðarbyggingar eða með sérstökum skattafríðindum. Telja að þannig megi gera húsnæði ódýrara fyrir kaupendur og leigjendur.

Gallinn við þá leið Sjálfstæðismana er sá, að engin trygging er fyrir því að slíkir styrkir til fyrirtækja leiði til lægra verðs á íbúðum eða leigu. Þeir geta allt eins farið beint í aukinn hagnað eigenda og braskara. Raunar er það líklegast.

Hér áður fyrr var Sjálfstæðisflokkurinn málsvari séreignastefnu og vildi gera fólki kleift að kaupa íbúðarhúsnæði. Þeir hafa hins vegar alltaf haft lítinn áhuga á félagslegum úrlausnum fyrir fólk með lægri tekjur.

Nú er spurningin hvort Sjálfstæðismenn séu alveg búnir að snúa baki við fjölskyldunum í landinu og hugsi eingöngu um fyrirtæki og fjárfesta?

 

Síðasti pistill:  Mikil auðlegð Íslendinga

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar