Mánudagur 25.05.2015 - 17:14 - FB ummæli ()

Ójöfnuður tekna og eigna – fyrir og eftir hrun

Mikilvægt er að greina á milli ójafnaðar í tekjuskiptingu og eignaskiptingu þegar rætt er um þróun efnahagslegs ójafnaðar á Íslandi.

Þróun þessara tveggja þátta var ólík, en margir rugla þessu saman.

 

Ójöfnuður tekna

Skoðum fyrst tekjuskiptinguna. Myndin hér að neðan sýnir hve stór hluti tekna þjóðarinnar kom í hlut ríkasta eina prósentsins á Íslandi og í Bandaríkjunum fram til 2012. Miðað er við allar skattskyldar tekjur.

Ójöfnuður USA of ÍS

Eins og sjá má jókst hlutur hátekjuhópsins á Íslandi frá um 1998 til 2007 langt umfram aukninguna hjá sama hópi í Bandaríkjunum. Hlutur ríkasta eina prósentsins er í ágætu samræmi við aðrar mælingar á tekjuójöfnuði (hlutur ríkustu tíu prósentanna eða Gini-ójafnaðarmælinga – sjá hér og hér).

Hlutur hátekjuhópanna fór að aukast markvert í Bandaríkjunum eftir 1980 til 2007 og varð meiri en víðast á Vesturlöndum. Það er vel þekkt og staðfest núorðið.

Sambærileg þróun hófst á Íslandi eftir 1995 og jókst verulega eftir 1998 þegar bóluhagkerfið fór á flug – og síðan með enn meiri hraða eftir 2003.

Aukning ójafnaðar í tekjuskiptingunni á Íslandi varð meiri frá aldamótum og að hruni en sést hefur áður á Vesturlöndum – mun örari en í Bandaríkjunum, eins og sjá má á myndinni.

Eftir hrun snérist þróunin svo algerlega við. Ójöfnuður tekna minnkaði stórlega á ný. Mun meira en í Bandaríkjunum, þar sem hlutur þeirra allra ríkustu er nú aftur orðinn meiri en hann varð mestur fyrir kreppu.

Árin 2011 og 2012 var hlutur hátekjuhópsins á Íslandi orðinn svipaður og verið hafi nálægt aldamótum, eða áður en mestu áhrif bóluhagkerfisins komu fram. Hann er samt nú meiri en verið hafði fyrir árið 2000, eins og sést vel á myndinni.

Tekjuskiptingin varð jafnari eftir hrun vegna mikillar minnkunar fjármagnstekna og vegna aukinna jöfnunaráhrifa af skatta- og bótastefnu stjórnvalda (sjá nánar hér).

Nýjustu tölur um ójöfnuð tekna benda til að tekjuskiptingin á Íslandi sé nú með jafnasta móti meðal OECD-ríkjanna, við erum í hópi 4-5 jöfnustu ríkjanna hvað snertir jöfnuð ráðstöfunartekna (án söluhagnaðarhluta fjármagnstekna).

Upplýsingar úr skattagögnum á síðasta ári benda þó til að fjármagnstekjur hafi aukist meira en aðrar tekjur milli áranna 2012 og 2013, sem þýðir að öðru jöfnu aukinn tekjuhlut allra hæstu hópanna, þ.e. þeirra sem eiga mestar eignir er gefa arð og rentu. Útvegsmenn og aðrir fjármálamenn sem eru allra efst á toppi eignaskiptingarinnar hafa væntanlega notið þess, frá 2013 og fram á núverandi ár.

Að öðru leyti virðast hafa verið litlar breytingar á tekjuskiptingunni eftir 2012, að minnsta kosti í samanburði við árin fyrir hrun.

 

Ójöfnuður í skiptingu eigna jókst hins vegar eftir hrun

Ójöfnuður í skiptingu eigna virðist hins vegar hafa aukist eftir hrun. Það liggur í því að eignir þeirra sem minna áttu rýrnuðu hlutfallslega meira en eignir þeirra sem mest áttu. Um þetta má lesa hér og hér.

Hér að neðan má sjá yfirlitsmynd um þróun hreinna eigna heimila í þremur tíundarhópum: á toppnum (ríkustu tíu prósentin), í efri miðjunni (tíundarhópur nr. 6) og á botninum (eignaminnstu tíu prósentin). Hún sýnir glögglega hvernir hlutur þeirra eignamestu af hreinum eignum jókst eftir 2005 og áfram eftir hrun og til 2010, um leið og neikvæð eiginfjárstaða þeirra sem eru á botninum versnaði hlutfallslega meira en á toppnum (Heimild: Hagstofa Íslands).

Hlutur millistéttarinnar af hreinum eignum heimilanna (svörtu súlurnar litlu) minnkaði um rúmlega helming frá 2005 til 2013, úr 3,9% í 1,4%.

Bilið milli topps og botns í eignaskiptingunni stækkaði þannig eftir hrun – og þó það hafi minnkað aftur frá 2011 til 2013 er það enn talsvert meira en var fyrir árið 2008 og raunar allt tímabilið frá 1997 til 2007.

Eignir þriggja stétta

Það er því nokkuð ólík mynd sem dregst upp af þróun tekjuskiptingarinnar og eignaskiptingarinnar fyrir og eftir hrun. Sú fyrri jafnaðist eftir hrun (í kjölfar mikillar aukningar ójafnaðar frá 1998 til 2007), en sú seinni varð ójafnari á heildina litið. Eignaskiptingin er nú talsvert ójafnari en hún var á tímabilinu frá 1997 til 2005.

Ef eignir fara að gefa af sér örari ávöxtun en var fyrst eftir hrun munu fjármagnstekjur aukast hraðar en allar aðrar tekjur á ný. Þær koma einkum í hlut þeirra eignamestu (arður og söluhagnaður hlutabréfa og fasteigna).

Það gæti þá leitt til aukins ójafnaðar í tekjuskiptingunni líka, að öðru óbreyttu. Ef kjarasamningar hins vegar auka hlut lágtekjufólks umfram aðra myndi það vega gegn ójafnaðaráhrifum af fjármagnstekjum í tekjuskiptingunni.

Framtíðin er því óviss hvað þróun ójafnaðar tekna og eigna snertir.

Stefna stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins skiptir miklu um endanlega framvindu ójafnaðarins í landinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar