Sunnudagur 31.05.2015 - 16:45 - FB ummæli ()

Hóflegar launahækkanir og stór ríkispakki

Samningarnir á almennum markaði ná til tæplega fjögurra ára og fela í sér talsverða hækkun lægstu launa, en mjög hóflegar kauphækkanir fyrir þá sem eru með meira en 300 þúsund krónur á mánuði.

Starfsgreinasambandið (SGS), sem fyrst reifaði kröfuna um að koma lágmarkslaunum í 300 þús. kr. árið 2018, vinnur mikilvægan sigur – og fleiri njóta þess.

Kaupmáttaraukningin kemur einkum í ár og á næsta ári hjá flestum.

En fyrir þá sem eru með meira en 300 þús. verður lítil sem engin kaupmáttaraukning vegna samninganna á árunum 2017 og 2018, ef verðbólga verður nálægt markmiði Seðlabankans. Samt er spáð ágætum hagvexti.

Millitekjuhópar fá þó einhverja kaupmáttaraukningu vegna skattalækkana á  þeim árum.

Almennt er mjög lítið tilefni til að auka verðbólgu að hálfu atvinnurekenda vegna þessara kjarasamninga, því kauphækkanir þorra launþega eru hóflegar. Láglaunafólkið sem mest fær er minnihluti launþega.

Framlag ríkisins til kjarasamninganna er hins vegar stórt, í formi umbóta í húsnæðismálum (sem einkum gagnast lægri og millihópum) og skattalækkana (sem einkum gagnast millitekjuhópum).

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra kemur fyrirhuguðum umbótum sínum áfram, þrátt fyrir ómaklega árás fjármálaráðuneytisins á hana fyrir nokkru. Það er sigur, bæði fyrir hana og ASÍ.

Nýtt félagslegt húsnæðiskerfi kemur til sögunnar, með mikilli fjölgun leiguíbúða og húsnæðisbætur hækka umtalsvert – sem einkum bætir hag lágtekjufólks.

Sjálfstæðismenn fá fram skattalækkun til millihópa, með niðurfellingu milliþrepsins í tekjuskattinum. Einnig lækka þeir tolla á fötum og skóm, sem er ágætt úrræði.

Munur stjórnarflokkanna krystallast nokkuð vel í þessum ríkispakka. Framsókn bætir hag lægri og milli hópa en Sjálfstæðisflokkurinn hugsar einkum um þá sem hafa hærri tekjur.

En á heildina litið er þetta framlag ríkisins til kjarasamninganna óvenju stórt og markar tímamót í húsnæðismálunum, sem var aðkallandi.

 

Greining launahækkana og líkur á kaupmáttaraukningu

Í töflunni hér að neðan má sjá yfirlit um launabreytingar samkvæmt samningunum, greint eftir árum og launabilum.

Screen Shot 2015-05-31 at 10.28.15

Með því að telja samanlagðar hækkanir á tímabilinu öllu, sem er 4 ár, þá fá menn nokkuð háar prósentutölur, allt upp í rúmlega 30% fyrir lágtekjufólkið (dálkur 7).

En ef hækkunum er skipt niður á einstök ár þá er heildarhækkunin ekki sérlega mikil að meðaltali á ári hverju (dálkur 8), eða frá 3,6% fyrir tekjuhæsta hópinn, og upp í 7,6% að meðaltali á ári fyrir þá lægst launuðu (fer hjá þeim úr 10,9% fyrsta árið niður í 4,5% árið 2017). Að auki koma smá sporslur fyrir fiskvinnslufólk og afgreiðslufólk.

Svo má sjá í næstneðstu línunni í töflunni hvernig hækkunin kemur frá ári til árs fyrir þá sem eru á meðaltekjum þessara dæma (488 þús. á mán.). Til samanburðar er svo þróunin hjá láglaunafólki og loks verðbólguspá í neðstu línunni.

Þar má sjá að von um kaupmáttaraukningu fyrir þá sem eru með meira en 300 þús. er fyrst og fremst á tveimur fyrstu árum samningsins (2015 og 2016), en mjög litlar líkur eru á kaupmáttaraukningu árin 2017 og 2018, vegna launahækkana.

Vonandi duga útgönguákvæði til að sleppa mönnum þá frá þessum samningi, því alltaf er óásættanlegt að fólk fái minni kaupmáttaraukningu en nemur vexti þjóðarframleiðslu á mann (sem ætti að vera 2-3% á ári í venjulegu árferði).

Á heildina litið færir þessi kjarasamningalota mörgum talsvert, einkum láglaunafólki.

Framlag stjórnvalda skiptir miklu máli fyrir ávinning samninganna.

Hvernig ríkið aflar svo tekna fyrir því sem eftir er gefið gæti þó breytt einhverju um skiptingu ávinnings.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar