Þriðjudagur 09.06.2015 - 11:54 - FB ummæli ()

Stóru orðin standa

Það virðist ástæða til að hrósa ríkisstjórninni og ráðgjöfum hennar fyrir þá áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna sem kynnt var í gær.

Áætlunin er mjög álitleg og skynsamlega útfærð, með höfuðáherslu á að verja hagsmuni almennings.

Sú nálgun að skilgreina ófrávíkjanleg stöðugleikaskilyrði, sem eiga að tryggja sem best að ekki myndist of mikill þrýstingur á gengisfall krónunnar, er afar mikilvæg leið.

Hótunin um álagningu stöðugleikaskatts styrkir svo samningsstöðu stjórnvalda og ýtir undir að kröfuhafar samþykki samningaleiðina, þ.e. með nauðungarsamningum þrotabúanna.

 

Önnur leið en haukarnir töluðu fyrir

Þessi leið ríkisstjórnarinnar er önnur en sú sem haukar hins óhefta markaðar, sumir atvinnurekendur og braskarar hafa talað fyrir. Þeir hafa ítrekað sagt að afnema ætti höftin í flýti (jafnvel á þremur mánuðum) og taka höggið – en vera svo fljót upp á ný.

Þannig hafa kredduhagfræðingar nýfrjálshyggjunnar ítrekað talað, en líka fulltrúar samtaka fyrirtækja og fjárfesta.

Hvað hefði þeirra leið haft í för með sér?

Jú, hún hefði örugglega leitt til mikils falls krónunnar (eins og þessir aðilar viðurkenndu sjálfir), með tilheyrandi lækkun kaupmáttar heimila og aukinni skuldabyrði. Þetta hefði orðið endurtekið hrun fyrir heimilin og raunar hefði þjóðarbúið að öllum líkindum farið á hliðina á ný.

Ég hef ítrekað sagt að engin ríkisstjórn myndi lifa af slíkar hrossalækningar.

Ríkisstjórnin hafnar leið haukanna og fer leið skynseminnar.

 

Stóru orðin standa

Stjórnvöld leitast við að tryggja stöðugleika og verja krónuna miklu falli, en leggja að auki mikla kröfu á þrotabúin og aðra erlenda krónueigendur. Það getur að sögn fært ríkissjóði tekjur á bilinu 600-800 milljarða, sem ætlað er til niðurgreiðslu ríkisskulda.

Tjón ríkissjóðs af hruninu og braskbólunni er að hluta bætt með stöðugleikagjaldinu (eða stöðugleikaskattinum ef til hans kæmi).

Sú fjárhæð hefði að vísu mátt vera enn hærri, því tjón ríkisins og almennings varð meira (sjá hér og hér).

Þetta eru þó hærri upphæðir en menn hafa almennt gert sér vonir um til þessa.

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, reynist á ný maður sinna stóru orða.

Enginn hefur talað með afdráttalausari hætti um réttmæti þess að sækja miklar fjárhæðir í þrotabúin og snjóhengjuna en hann, alveg frá því fyrir kosningar 2013. Margir hagspekingar, blaðamenn og stjórnmálamenn hafa gert lítið úr yfirlýsingum hans um þetta. Það reynist nú hafa verið ómaklegt.

Bjarni Benediktsson kemur einnig afar vel frá þessum málatilbúnaði öllum. Ég hef oft gagnrýnt hann fyrir stefnu hans í skattamálum og tillitsleysi gagnvart hagsmunum milli og lægri tekjuhópa, sem er reyndar almennt sjúkdómseinkenni á Sjálfstæðisflokknum.

En menn eiga að vera sanngjarnir og nú sé ég ástæðu til að hrósa Bjarna Benediktssyni og ríkisstjórninni allri fyrir þessa áætlun.

Að hluta er þessi áætlun samhljóma því sem fyrri ríkisstjórn lagði upp með frá 2011 og seðlabankastjóri talaði fyrir, þegar hann sagði að erlendir kröfuhafar þyrftu að gefa eftir allt að 75% af krónueignum. Nú er stefnt á nær fulla eftirgjöf þeirra krónueigna og varfærnislega og skynsamlega framkvæmd.

Vonandi gengur þessi áætlun eftir eins og að er stefnt. Þá mun hún fela í sér mikil tímamót.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar