Þriðjudagur 11.08.2015 - 22:17 - FB ummæli ()

Mikil ánægja með íslenska menntakerfið

Ný könnun OECD á ánægju almennings með menntakerfið í 43 ríkjum heimsins sýnir mikla trú Íslendinga á menntakerfi sínu.

Ísland er í efsta sæti, ásamt Írlandi og Belgíu (83% eru ánægð). Næst á eftir koma Noregur, Sviss og Finnland.

Svíar, Bretar, Frakkar og Þjóðverjar koma mun neðar. Neðstir eru Grikkir, ásamt Brasilíu, Rússlandi og stríðshrjáðri Úkraínu. Hér eru niðurstöðurnar í heild:

Ánægja með menntakerfið 2014

Annað hvort er þetta mjög gott hjá Íslendingum eða þá að almenningur veit ekkert um menntakerfið í landinu.

Flestir hafa þó talsverða reynslu af menntakerfinu vegna skólagöngu eigin barna. Við hljótum því að meta þessar upplýsingar þannig að fólki finnist kerfið virka vel og veita ágæta þjónustu.

Viðmót menntakerfisins er í öllu falli gott og hægt er að hafa trú á því.

Við eigum samt að hafa í huga að árangur nemenda í grunnskólanum er ekki langt fyrir ofan meðallag OECD-ríkja.

Það er sem sagt ekki endilega fullt samræmi milli árangurs á prófum og ánægju almennings með menntakerfið. Finnar ná mun betri árangri en við en almenningur þar er ívið minna ánægður með menntakerfi sitt en við Íslendingar.

Verst er auðvitað að vera neðarlega bæði í námsárangri og ánægju fólks með kerfið. Svíar eru nú að mörgu leyti komnir í þá stöðu – ólíkt því sem áður var. Er það afleiðing af breyttri stjórnarstefnu síðustu tvö kjörtímabilin, með aukinni einkavæðingu?

Eftir hrunið mikla mega Íslendingar vel við una að vera árið 2014 í efsta sæti svo margra þjóða, hvað snertir ánægju almennings með menntakerfið.

Fyrir okkur sem vinnum í menntakerfinu er þetta auðvitað uppörvandi.

Við erum þó með eitt alódýrasta háskólakerfi sem fyrirfinnst á Vesturlöndum og náum samt þokkalegum árangri þar. Það er starfsfólki háskólanna meira að þakka en fjárveitingavaldinu.

Nú er hins vegar að standa við stóru loforðin frá aldarafmæli Háskóla Íslands og ná meðalfjárveitingu OECD-ríkjanna á nemanda á Íslandi ekki seinna en árið 2018, líkt og tekist hefur fyrir grunnskólann og framhaldsskólann.

Það mun skila samfélaginu meiri framförum og efla nýsköpun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar