Þriðjudagur 25.08.2015 - 16:42 - FB ummæli ()

Rangfærslur Vigdísar Hauks um öryrkja

Hæstvirtur formaður fjárlaganefndar Alþingis, Vigdís Hauksdóttir, var í viðtali við RÚV í gær. Þar talaði hún meðal annars um örorkulífeyrisþega og fór því miður ranglega með nokkrar lykilstaðreyndir.

Vigdís sagði að öryrkjar væru hér um 9% fólks á vinnumarkaði en um 2% á hinum Norðurlöndunum.

Þetta er kolrangt.

Nýjustu tölur TR sýna að öryrkjar eru um 8,8% af fólki á vinnumarkaði hér (2014), en á hinum Norðurlöndunum er þetta svipað í Danmörku en nokkru hærra í Finnlandi og talsvert hærra í Noregi og Svíþjóð (örorkulífeyrisþegar eru þar 10-11% fólks á vinnualdri, skv. tölum OECD).

Í reynd eru Íslendingar með umtalsvert færra fólk á vinnualdri á lífeyri en er á hinum Norðurlöndunum. Ég skrifaði grein um það á Eyjunni fyrir um tveimur árum (sjá hér).

Árið 2011 voru um 21% Íslendinga 16 ára og eldri á einhverjum lífeyri en í hinum Norðurlöndunum var samsvarandi hlutfall frá 27% og upp í 30%. Nýrri tölur fyrir 2013 eru svipaðar (heimild: NOSOSKO 2014).

Við erum með heldur hærra hlutfall ungs fólks á örorkulífeyri en hinar norrænu þjóðirnar en mun lægra hlutfall hjá fólki á aldrinum 50-66 ára, en langflestir örorkulífeyrisþegar eru einmitt á þeim aldri. Konur eru þar í meirihluta, einkum vegna hærri tíðni gigtarsjúkdóma hjá þeim en hjá körlum.

Um 5,7% þjóðarinnar allrar voru á örorkulífeyri í fyrra (2014). Umtalsvert hefur dregið úr fjölgun örorkulífeyrisþega hér á landi á síðustu árum (sjá hér).

Árið í fyrra fjölgaði örorkulífeyrisþegum t.d. um 1,1%, en á árunum upp úr 1990 var fjölgunin allt upp í tíu sinnum meiri. Fjölgunin í fyrra var svipuð og íbúafjölgunin í landinu.

Þetta eru því vægast sagt villandi staðhæfingar hjá formanninum og öðrum um fjölda og fjölgun öryrkja hér á landi og meintan vanda sem því tengist.

 

Mikilvægi vinnuhvata

Annað sem Vigdís fór rangt með var þegar hún sagði að allar launatekjur skerði örorkubætur almannatrygginga.

Hið rétta er að öryrkjar mega hafa tæpar 110 þúsund krónur á mánuði (1.315.200 krónur á ári) í atvinnutekjur án þess að örorkulífeyrinn sjálfur skerðist.

Hjá þeim sem hafa engar aðrar tekjur en frá almannatryggingum skerða atvinnutekjur hins vegar lágmarksframfærslutrygginguna, sem er svolítið annað mál – en engu að síður óheppilegt.

Ég tek hins vegar undir með Vigdísi þegar hún segir mikilvægt að auka hvata til vinnu og ég legg eindregið til að öll skerðing örorkulífeyris vegna atvinnutekna verði algerlega afnumin.

Ríkinu ætti fyllilega að duga að fá skatttekjur af atvinnutekjum öryrkja. Þannig væri hvatinn til atvinnuþátttöku öryrkja hámarkaður.

Gleymum því hins vegar ekki, að menn fá ekki örorkulífeyri nema þeir hafi alvarlega langtíma sjúkdóma eða umtalsverðar líkamlegar eða andlegar hamlanir sem skerða vinnugetu. Starfsgetumat mun litlu breyta um það.

Margir öryrkjar geta þó unnið eitthvað (einkum hlutastörf) og flestir örorkulífeyrisþegar vildu geta unnið meira en þeir gera nú.

Það væri þjóðhagslega hagkvæmt að skapa þeim skilyrði til að gera það – um leið og lífsgæði öryrkja yrðu betri fyrir vikið.

Það myndi gerast með viðhorfsbreytingu í samfélaginu og meiri stuðningi við atvinnuþátttöku öryrkja, meðal annars með aðlögun og auknum sveigjanleika á vinnustöðum og meiri jákvæðni atvinnurekenda og ríkisvaldsins.

 

Síðasta grein:  Við munum Stuðmenn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar