Þriðjudagur 22.12.2015 - 15:31 - FB ummæli ()

Jólakveðja til Viðskiptaráðs

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir að það sé fyrir neðan virðingu ráðsins að svara gagnrýni minni á róttækar hugmyndir þeirra, um að fækka opinberum stofnunum um meira en helming.

Hann ákvað samt að gera það, til að leiðrétta meintan misskilning minn á hugmyndum ráðsins, en þær hafa mælst afar illa fyrir.

En það var enginn misskilningur í skrifum mínum. Ekki nokkur.

Þeir sögðu að Íslendingar bæru hlutfallslega meiri kostnað af opinberum stofnunum en aðrar þjóðir. Þess vegna þyrfti að stórfækka þeim eða leggja niður.

Ég sýndi með tölum OECD að við höfum ekki síður en grannþjóðirnar full efni á því að vera alvöru þjóð, enda opinber útgjöld okkar fjarri því að vera hlutfallslega meiri en grannþjóðanna sem við berum okkur saman við. Raunar erum við undir meðallagi OECD-ríkja.

Við gætum gengið lengra og sundurgreint opinberu útgjöldin í einstaka þætti og það styður einnig mál mitt. Ísland er hvergi með hlutfallslega meiri útgjöld en allar aðrar vestrænar þjóðir. Við erum í hærri kanti í sumum málaflokkum, eins og gildir um hin norrænu velferðarríkin, en lægri í öðrum.

Ég get líka bent á að sumar af stærri stofnunum opinbera geirans (t.d. Landsspítalinn, Háskóli Íslands og Tryggingastofnun) eru reknar með minni hlutfallslegum tilkostnaði en sambærilegar stofnanir í grannríkjunum.

Systurstofnanir TR á hinum Norðurlöndunum kosta t.d. allt að fjórum sinnum meira en TR, sem hlutfall af umsvifum (útgreiddum lífeyri og bótum). Háskóli Íslands er einn ódýrasti háskóli Vesturlanda í sínum stærðarflokki, en nær samt ágætum árangri.

Ég hef þó sjálfur fært rök fyrir hagræðingu og auknum gæðum í starfsemi opinberra stofnana, jafnvel með sameiningu, þar sem starfsemin er nógu skyld til að skapa sterk samlegðaráhrif. Slíkt gildir þó ekki hvar sem er.

Tillögur Viðskiptaráðs eru hins vegar illa ígrundaðar og í anda leiftursóknar gegn opinbera geiranum, til að lækka útgjöld og fækka starfsfólki. Þeir segja jú að við höfum ekki efni á þessu.

Gagnrýni mín í fyrri grein stendur því í einu og öllu.

 

Samkeppnishæfni opinbera geirans er meiri en einkageirans.

Nú vil ég þó bæta um betur og senda Viðskiptaráði jólagjöf, í tilefni hátíðarinnar sem í hönd fer.

Gjöfina er að finna á eftirfarandi tveimur myndum, sem raunar koma frá Viðskiptaráði sjálfu. Kanski það sé auðveldara fyrir Viðskiptaráð að trúa þessum niðurstöðum en tölum OECD sem ég lagði fram!

Myndirnar sýna að opinberi geirinn á Íslandi kemur betur út í alþjóðlegum samanburði á samkeppnishæfni en einkageirinn, samkvæmt skýrslu IMD stofnunarinnar. Fleiri skýrslur um samkeppnishæfni hafa ítrekað komist að sömu niðurstöðu (t.d. World Economic Forum skýrslurnar).

Á fyrri myndinni má sjá að Ísland kemur langbest út í samanburði á samfélagslegum innviðum (í 11. sæti árið 2015). Innviðirnir eru einkum á ábyrgð opinbera geirans.

Skilvirkni hins opinbera kemur betur út en skilvirkni atvinnulífsins og efnahagsleg frammistaða, sem einkum er á ábyrgð einkageirans, kemur verst út – og fer raunar versnandi. (Myndirnar koma úr kynningu hagfræðings Viðskiptaráðs á könnun IMD frá síðasta vori).

Screen shot 2015-12-22 at 1.57.20 PM

Á seinni myndinni má svo sjá ítarlegri sundurliðun á útkomunni. Lang besta útkoman tengist frammistöðu opinbera geirans. Grunnstoðir samfélagsins koma í 1. sæti. Það er eina dæmið um að Ísland sé á toppnum og það er hið opinbera sem sér um grunnstoðirnar.

Sama gildir um heilsu og umhverfi, menntun og tæknilega innviði, sem er fyrst og fremst í umsjá ríkisins. Samfélagslega umgjörðin er góð á Íslandi, miðað við önnur lönd.

Framleiðni, skilvirkni atvinnulífsins, efnahagur og verðlag nær varla máli hins opinbera í þessum efnum. Þar liggur ábyrgðin að mestu hjá einkageiranum.

Screen shot 2015-12-22 at 1.56.42 PM

Heildarmyndin er þannig sú, að verkefnin við að bæta einkageirann virðast sannarlega vera ærin og því verðug viðfangsefni fyrir Viðskiptaráð.

Ef við skoðum afleita frammistöðu einkageirans í aðdraganda hrunsins verður þetta auðvitað mun meira afgerandi og brýnna.

Kanski Viðskiptaráð ætti að líta sér nær. Það eru ansi margar stofnanir og samtök einkageirans að gera það sama og Viðskiptaráð, þ.e. að reyna að hafa áhrif á stjórnmálin í þágu eigin hagsmuna (SA, LÍU, SI, Samtök atvinnurekenda, SFF, o.m.fl.). Þarna mætti sameina og spara, í anda tillagna Viðskiptaráðs.

Þetta er allt fjármagnað með félagsgjöldum á fyrirtæki, sem fleyta kostnaðinum svo út í verðlagið. Við erum með eitt hæsta verðlag í heimi, án þess að hafa hæstu laun í heimi. Kanski það sé á ábyrgð einkageirans? Væri ekki verðugt verkefni fyrir Viðskiptaráð að lækka verðlag á Íslandi, með hagræðingu í einkageira, án þess að lækka laun vinnandi fólks?

Opinberi geirinn er hins vegar með mun betri útkomu. Það virðist vera minna bilað þar en í einkageiranum.

Hvers vegna finnst Viðskiptaráði þá brýnast að steypa opinbera geiranum í upplausn eða fyrir björg, eins og felst í tillögum þeirra?

Menn vita að gríðarleg vandamál geta tengst sameiningu tveggja stofnana, sérstaklega ef þær eiga ekki nógu mikið sameiginlegt eða ef aðgerðin er illa undirbúin og illa framkvæmd. Það er heldur ekki góð hugmynd að stjórnendur stofnunar sem starfar úti á landi sitji í annarri stofnun í Reykjavík.

Að steypa saman miklum fjölda stofnana er eins og óráðstal, án allrar ábyrgðar – nema það sé hugsað sem skemmdarverk.

Er það af illa ígrunduðum hugmyndafræðilegum ástæðum eða bara fjandskap í garð opinberra starfsmanna sem Viðskiptaráð fer fram með þessum hætti?

Eða þjónar það hagsmunum einkageirans að ryðja opinbera geiranum úr vegi og skapa þannig fleiri gróðafæri fyrir einkafyrirtæki?

Þetta mætti ræða í jólaboðunum.

Ég sendi Viðskiptaráðsmönnum og öllum öðrum bestu jólakveðjur.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar