Laugardagur 06.02.2016 - 12:56 - FB ummæli ()

Leiða vaxtabætur til hærra húsnæðisverðs?

Í umræðum um húsnæðismál er oft fullyrt að ekki þýði að hækka vaxtabætur eða húsaleigubætur því það leiði einfaldlega til verðhækkana á íbúðarhúsnæði, hvort sem er til kaupa eða leigu.

Þetta hefur verið fullyrt í tengslum við fyrirhugaðar breytingar ríkisstjórnarinnar á skipan húsnæðismála, sem nú eru til meðferðar á Alþingi.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa fullyrt þetta, einnig talsmenn Samtaka atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráðs og einstaka hagfræðingar.

Þessir aðilar hafa hins vegar ekki sýnt nein gögn sem styðja mál þeirra.

Enda hafa þeir kolrangt fyrir sér.

Þetta er mikilvægt, því þessi málflutningur um að stuðningur ríkisins við kaupendur íbúðahúsnæðis eða leigjendur leiði einfaldlega til verðhækkana á húsnæði, getur haft skaðleg áhrif á möguleika ungs fólks á að koma sér upp húsnæði.

 

En hvað segja staðreyndirnar?

Hér að neðan sýni ég tvær myndir er varpa skýru ljósi á málið.

Fyrst er mynd sem sýnir þróun þess stuðnings sem vaxtabæturnar hafa veitt fjölskyldum við húsnæðiskaup frá 1995 til 2014. Stuðningur vaxtabótanna er sýndur sem hlutfall af vaxtakostnaði vegna húsnæðiskaupa (og sýnir þar með hve stóran hluta vaxtakostnaðar vaxtabætur greiða).

Stuðningur vaxtabóta

Hér má sjá að um 1996 greiddu vaxtabæturnar um 27% af vaxtakostnaði húsnæðislána hjá meðalfjölskyldunni (lágtekjufjölskyldur fengu meira en hátekjufólk minna). Þessi stuðningur minnkaði svo ár frá ári til 2008, er hann var kominn niður í 13%.

Stuðningurinn var svo aukinn mikið eftir hrun, frá 2009 til 2012, til að létta húsnæðisskuldurum verulega auknar byrðar vegna verðbólgu og kauðmáttarskerðingar, meðal annars með sérstöku vaxtabótunum 2010 og 2011.

Þær runnu svo út árið 2013 og vaxtabætur lækkuðu enn frekar á árinu 2014 og er stuðningur vaxtabótakerfisins nú með minnsta móti á ný.

Ef við bætum inn á myndina línu um þróun söluverðs á íbúðarhúsnæði (á föstu verðlagi 2015 per fermetra) þá má sjá hvort hækkanir eða lækkanir vaxtabóta tengist hækkunum verðlags á íbúðarhúsnæði.

Niðurstaðan er sú, að ekkert samband er milli hækkunar vaxtabóta og hækkunar húsnæðisverðs. Raunar er sterkt neikvætt samband milli þessara þátta á tímabilinu.

Samband vaxtabóta og íbúðaverðs

Þarna má glögglega sjá að á tímabilinu eru þrjú megin skeið verðhækkana íbúðarhúsnæðis (1998 til 2000; 2003 til 2007 og svo 2012 til 2014 – raunar hækkar verðið einnig 2015 og þá meira en frá 2012 til 2014).

 

Villukenningin afsönnuð

Þegar fyrsta verðhækkunin ríður yfir (1998 til 2000) höfðu vaxtabætur verið lækkandi frá 1996 og lækkuðu áfram samhliða verðhækkun húsnæðis.

Vaxtabæturnar lækkuðu svo áfram næstu árin og umtalsvert einmitt þegar mesta verðhækkun íbúðarhúsnæðis reið yfir, frá 2003 til 2007.

Ástæða þeirrar verðhækkunar á bólutímanum voru verulega auknar lánveitingar bankanna, en ekki stuðningur vaxtabótakerfisins. Hann var verulega minnkandi samhliða þessum verðhækkunum.

Síðan þegar vaxtabætur voru hækkaðar verulega árin 2009 og 2010 þá fór það saman við verulega lækkun húsnæðisverðs (vegna hrunsins). Toppurinn í upphæð vaxtabóta á árinu 2011 tengist engri sprengingu í húsnæðisverði það árið.

Svo þegar húsnæðisbætur fóru aftur lækkandi eftir 2011 þá var húsnæðisverð hækkandi og mest á árinu 2015 eftir að vaxtabætur voru aftur komnar í lægstu lægð.

Það er því enginn fótur fyrir fullyrðingum um að hækkun vaxtabóta leiði sjálfkrafa til hækkunar húsnæðisverðs.

Raunar mætti lesa gögnin þannig að lækkun þess stuðnings sem vaxtabótakerfið veitir húsnæðiskaupendum tengist frekar hækkunum húsnæðisverðs. En aðrir þættir eru oft að verki.

Það sama gildir um húsaleigubætur. Það var engin hækkun húsaleigubóta sem orsakaði verulega hækkun leiguverðs á Höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum. Aðrir þættir voru þá að verki.

Þarna eru því engin rök fyrir því að draga úr stuðningi ríkisins við húsnæðiskaupendur og leigjendur.

Þetta eru hins vegar sterk rök fyrir því að auka slíkan stuðning, eins og fyrirhugað er í nýjum frumvörpum Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Vonandi lætur Alþingi staðreyndir ráða för við afgreiðslu umbótafrumvarpanna, en ekki áróðurstengdar villukenningar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar