Sunnudagur 14.02.2016 - 11:19 - FB ummæli ()

Saga ASÍ: Mikið rit um lífskjör og framfarir

JPV535799Fyrir nokkrum misserum kom út Saga Alþýðusambands Íslands eftir Sumarliða R. Ísleifsson. Verkið er mikið af vöxtum, í tveimur bindum sem eru hvort um sig um 400 blaðsíður. ASÍ hafði frumkvæði að því að ráðist var í þessa söguritum, en ASÍ fagnar hundrað ára afmæli á þessu ári. Verkið spannar tímabilið frá efri hluta 19. aldar til um 2010 og gefur víðtæka og heildstæða mynd af viðfangsefninu.

Sumarliði R. Ísleifsson skilgreinir nálgun verksins í inngangi sem “sögu verkalýðs á Íslandi”, frekar en sem hefðbundna sögu verkalýðshreyfingarinnar sem stofnunar. Hann fylgir í þessu fordæmi Þorleifs Friðrikssonar í ritum hans um sögu Dagsbrúnar, þar sem fókusinn var frekar á lífshætti og lífskjör verkafólks og sagan sögð út frá sjónarhóli fólksins frekar en hreyfingarinnar. Í höndum Sumarliða vefst þetta þó eðlilega saman, saga lífskjaranna og saga hreyfingarinnar. Það má því lýsa þessu verki sem sögu verkalýðs, lífskjara og framfara.

Þessi nálgun Sumarliða og þeirra ASÍ manna sem með honum unnu er afar vel heppnuð, sérstaklega í fyrra bindinu. Bækurnar gefa ljóslifandi sýn á stöðu verkafólks og þróun lífskjara á Íslandi frá því að nútímavæðing samfélagsins hófst undir lok 19. aldar til þess tíma er Ísland var komið í hóp hinna hagsælustu þjóða og gat státað af lífskjörum almennings sem eru með því besta sem þekkist í heiminum í dag (Stefán Ólafsson 2013).

Þetta er því saga mikilla breytinga og mikils árangurs. Sjónum er auðvitað sérstaklega beint að því hvernig framfarirnar spruttu úr grasrót hins vinnandi fólks og hvernig barátta þess fyrir umbótum með virkjun samtakamáttar fór fram, skref fyrir skref. Þar skiptust á skin og skúrir, sigrar og ósigrar, samstaða og sundrung – en mest var þróunin þó framávið.

Sumarliði leitar víða fanga, í fræðiritum og samantektum um sögu verkalýðshreyfingarinnar, þingtíðindum, dagblöðum, tímaritum og skýrslum, auk æviminninga og rita um sögu einstakra verkalýðsfélaga. Þó meginsjónarhornið sé á líf alþýðufólks nær hann að tengja frásögnina vel við stofnanasögu verkalýðshreyfingarinnar, sem náði því að verða frá og með fjórða áratug síðustu aldar ein af áhrifamestu stofnunum samfélagsins.

Hvert tímabil í sögunni er skilmerkilega sett í samhengi við stöðu og þróun samfélagsaðstæðna. Þannig byrjar Sumarliði bæði bindin með kafla um samfélagið á tímabilinu og helstu breytingaþætti. Til dæmis byrjar fyrra bindið á umfjöllun um atvinnubyltinguna á Íslandi frá um 1890 til 1940, eftir stutta kynningu á þróun verkalýðshreyfingar í nágrannalöndunum. Það er að vísu stutt umfjöllun en mikilvæg til að setja verkalýðsbaráttuna í samhengi þjóðfélagsaðstæðna, bæði hér á landi og erlendis.

Aðstæður verkafólks á fyrri hluta 20. aldar

Það slær lesandann frá fyrstu köflum verksins hversu frumstæðar aðstæður íslensks verkafólks voru á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar. Vinna var stopul, aðstæður afar erfiðar og kjörin lök. Enda var Ísland eitt fátækasta svæði Evrópu á þeim tíma. Vegferð Íslendinga á tuttugustu öldinni, frá fátækt til bjargálna og velsældar var því löng og gerðist hratt, sérstaklega frá og með árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Í verki Sumarliða má því greina mikilvæga þætti nútímavæðingarinnar á Íslandi, þó fleira komi auðvitað við sögu þeirra víðtæku breytinga, svo sem tækniþróun, aukin menntun, menning og stjórnmál. Stjórnmál leika þó afar stórt hlutverk í sögu Sumarliða, enda var verkalýðshreyfingin öðrum þræði sprottin af pólitískum rótum og lék lengst af stórt hlutverk á leikvangi stjórnmálanna, einnig eftir að formleg skipulagsleg skil urðu milli Alþýðuflokksins og Alþýðusambandsins árið 1940. Án þessa sjónarhorns alþýðunnar og verkalýðshreyfingarinnar væri saga nútímavæðingarinnar á Íslandi afar takmörkuð og ófullnægjandi.

Sumarliði fjallar um alla mikilvægustu þætti lífskjaranna og lífsháttanna: kaup, vinnutíma og önnur starfstengd réttindi, atvinnu og atvinnuleysi, tryggingar (alþýðutryggingar og almannatryggingar), húsnæðismál, vinnutíma, frítíma og orlof, vinnuaðstæður, öryggi og aðbúnað, lífeyri og almenn velferðarmál. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar við mótun framfara á hinum ýmsu sviðum vinnunnar og lífskjaranna er vendilega rakið, stundum svolítið þó á kostnað anarra áhrifavalda, eins og tækniþróunar, menntunar og víðtækari stjórnmálaáhrifa en þeirra sem beinlínis tengdust verkalýðshreyfingunni.

Þá gerir höfundur vel grein fyrir því hvernig þróunin var ólík á Reykjavíkursvæðinu og á landsbyggðinni og hann gerir jafnréttismálum kynjanna og alþjóðlegum áhrifum góð skil. Eitt af því sem slær lesandann er hversu seint verkalýðshreyfingin fór að láta sig stöðu kvenna einhverju varða. Það var fyrst eftir að atvinnuþátttaka kvenna tók að aukast umtalsvert, eftir 1960, að eitthvað fór að þokast til hagsbóta fyrir vinnandi konur.

Á tíma Hannibals Valdimarssonar sem forseta ASÍ, á sjötta áratugnum, urðu samt nokkur umskipti í jafnréttismálum kynjanna. Bæði var framganga þeirra innan hreyfingarinnar þó hæg framanaf og umbótum í launamálum kvenna miðaði líka hægt í fyrstu og að sumu leyti einnig eftir að ASÍ-félögin fóru að sinna þeim af meiri krafti. Það var ekki bara að verkalýðshreyfingin hafi upphaflega mótast sem hreyfing verkakarla heldur gætti þar, eins og í samfélaginu almennt, íhaldssemi gagnvart breytingum á stöðu kvenna. Þetta batnaði þó umtalsvert á síðustu áratugum.

Þá setur Sumarliði víða stöðu og þróun verkalýðsmálanna í samhengi við þróunina í öðrum löndum, einkum á hinum Norðurlöndunum. Þó þar sé ekki um skipulegan víðtækan samanburð að ræða þá er mikið gagn af því að hafa slíkan almennan samanburð við grannríkin í verki sem þessu.

Meira er til af heimildum um sögu verkalýðs og alþýðuhreyfingar á fyrri hluta síðustu aldar en á síðustu áratugum. Seinni tíma verk eru oftar unnin á öðrum vettvangi en á sviði sagnfræðanna og birtingarvettvangur líka í meiri mæli erlendur en áður var. Heimildaöflun um seinni tíma þróun þarf því að fara meira á aðrar slóðir en duga Sumarliða svo vel á fyrra tímabilinu.

Pólitísk átök innan verkalýðshreyfingarinnar

Sérstaklega fróðleg er umfjöllun Sumarliða um pólitísk átök innan hreyfingarinnar á skeiðinu fram að seinni heimsstyrjöldinni, einkum átökum jafnaðarmanna og kommúnista/sósíalista um áhrif og völd í verkalýðsfélögunum vítt og breitt um landið. Sú saga er öðru fremur saga átaka og vonbrigða, saga sundrungar sem endaði með því að veikja verkalýðsflokkanna í heild og skapa Sjálfstæðisflokknum, flokki atvinnurekenda, umtalsverð ítök innan hreyfingarinnar á eftirstríðsárunum.

Þegar líða tók á eftirstríðsárin urðu pólitísku baráttumálin áfram fyrirferðamikil en beindust í vaxandi mæli að sitjandi ríkisstjórnum á hverjum tíma og réð þá nokkru um samskipti hreyfingar og ríkisstjórnar hverjir sátu í stjórn, báðu megin. Frá um 1980 breyttist pólitíska áherslan í verkalýðshreyfingunni meira frá slíkum flokkadráttum og litið var meira á ríkisstjórnir sem samningsaðila sem hægt væri að vinna með, til hagsbóta fyrir vinnandi fólk.

Þó samráðsskipanar (corporatisma) hafi gætt stöku sinnum á fyrri áratugum, svo sem í tíð stjórnar hinna vinnandi stétta 1934-1938, í tíð vinstri stjórnarinnar 1956-58 og eftir 1963, þá er það mat Sumarliða að með þjóðarsáttarsamningunum 1990 hafi samráðsskipanin orðið enn meira ráðandi en fyrr og breytt einkennum kjarabaráttunnar. Úr verkföllum tók að draga eftir 1980 og svo enn frekar hjá meðlimum ASÍ eftir 1990. Þá urðu átök á vettvangi opinberra starfsmanna oft fyrirferðameiri.

Þrátt fyrir að verk Sumarliða sé afar vel heppnaðí heild sinni þá finnst mér nokkur munur á fyrra og seinna bindinu. Það fyrra er betur heppnað sem heildstæð og ljóslifandi saga lífshátta og lífskjara verkalýðsins í baráttu sinni og framfaranna frá örbirgðarlífi margra til neyslusamfélags eftirstríðsáranna. Fyrra bindið er líka betur stutt af ríkulegum heimildum.

Seinna bindið er í meiri mæli stofnanasaga, þar sem umfjöllun um skipulag hreyfingarinnar verður fyrirferðameiri. Það endurspeglar þá þróun að verkalýðshreyfingin sjálf varð í meiri mæli stofnun þegar leið á tuttugustu öldina, með þeim kostum og göllum sem því fylgja. Eðli máls samkvæmt kemur þyngra og þurrara efni til skoðunar þegar stofnanaumhverfið verður viðameira og átök og framvinda markast meira af skipulagi innávið og tengslum hreyfingarinnar við samfélagið útávið.

Stofnanaþróuninni er ágætlega lýst af Sumarliða, ekki síst því hvernig hreyfingin var að mestu sjálfsprottin og borin í fyrstu uppi af einstaklingum í sjálfboðavinnu. ASÍ hóf ekki reglulegan rekstur skrifstofu fyrr en um 1930, eða um einum og hálfum áratug eftir stofnun þess. Skrifstofunum fjölgaði svo með auknum þroska hreyfingarinnar og auknum umsvifum seinni áratuga, með aukinni þjónustu við meðlimi.

Þó seinna bindið sé þannig heldur þyngra yfirlestrar er þar þó einnig víðast sami stíll og framsetning og í fyrra bindinu. Þannig eru þar ágætir ítarlegir kaflar um félagsleg réttindi og félagslíf, þróun kjara og efnahags 1960 til 2010 og um jafnréttismál og lífeyrissjóði. Meira fann ég fyrir því í seinna bindinu að heimildaöflun hefði mátt vera víðtækari, með meiri notkun efnis úr öðrum áttum en af vettvangi sagnfræðinnar, en það er kanski ósanngjarnt að ætlast til slíks.

Í seinna bindinu fann ég líka meira fyrir hnökrum, flestum smávægilegum þó. Til dæmis er þar sagt á bls. 17, í umfjöllun um kjaramál eftir 1960, að á árinu 1963 hafi verið tekin upp umræða við stjórnvöld um að koma kjaramálum í annan farveg en verið hafði. “Tekin voru upp formleg samráð með markmið um að vinna að bættum hag almennings með því að stytta vinnutíma, lengja orlof, auka vinnuvernd og gera átak í húsnæðismálum.”

Síðan segir: “Næstu ár hélt þetta samráð áfram, ekki síst á sviði húsnæðis- og atvinnumála. Friðvænlegra varð á vinnumarkaði en verið hafði og kom ekki til almennra verkfalla fyrr en í efnahagskreppunni1968.” Það sem sagt er um samráðin er vissulega rétt, ekki síst um húsnæðismálin (sbr. miklar húsbyggingar fyrir lágtekjufólk í Breiðholti frá 1965), en það er villandi og ekki í samræmi við það sem fram kemur í kaflanum um kjaramál og efnahagslíf síðar í bindinu að friðvænlegra hafi verið frá 1963 til 1968 en áður. Víðtæk verkföll voru bæði í desember 1963 (t.d. meiri en á árinu 1961) og einnig á árinu 1965. Viðreisnarstjórnin hafði byrjað feril sinn upp úr 1960 með mikilli kjaraskerðingu og átök við verkalýðshreyfinguna voru mjög einkennandi mest allan sjöunda áratuginn og náðu hámarki frá 1968 til 1970, eins og fram kemur skilmerkilega síðar í bindinu.

Í inngangi að seinna bindinu (á bls. 9) má einnig misskilja í lauslegri umfjöllun um óðaverðbólgu og átök tímabilsins frá 1970 til um 1990, þegar sagt er í því samhengi að “verkafólk fékk sjaldnast aukinn kaupmátt nema rétt um stundasakir.” Þetta er að vísu rétt að í kjölfar mikilla kauphækkana (sem oft komu í kjölfar gengisfellinga sem höfðu skert kaupmátt umtalsvert) var gjarnan svarað með enn annarri gengisfellingu sem rýrði kaupmátt á ný. Menn tala iðulega um víxlhækkanir kaups og verðlags en mættu alveg eins tala um víxlverkun gengislækkana og kauphækkana.

Átök og hagsmunabarátta skiluðu árangri

En þegar kaupmáttarþróun bæði launa og ráðstöfunartekna heimilanna er skoðuð fyrir allt tímabilið frá um 1960 til 1987, sem almennt var tímabil óvenju mikilla kjaraátaka og verðbólgu, þá var það einnig tímabil hinna mestu kjarabóta fyrir almenning. Bæði var hagvöxtur mikill á þessum tíma og einkaneysla jókst óvenju mikið. Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna jókst þá meira en bæði fyrr og síðar (Stefán Ólafsson 2008). Þetta kom til af því, að þó sviftingar hafi verið miklar og kjaraskerðingar tíðar, þá jókst kaupmátturinn gjarnan mikið á hagvaxtarárunum og gjarnan meira en vöxtur þjóðarframleiðslu á mann (sbr. Katrín Ólafsdóttir og Stefán Ólafsson 2014, bls. 29). Verkalýðshreyfingin var sem sagt venjulega fljót að ná kjaraskerðingunum til baka – og vel það, þrátt fyrir allt.

Tímabilið frá um 1961 til 1987 var þannig mikið velsældartímabil, þrátt fyrir verðbólgu og hörð átök á vinnumarkaði. Kanski einmitt vegna mikillar ákveðni verkalýðshreyfingarinnar í kjarabaráttunni. Það var einmitt á þessu tímabili sem Íslendingar komust í röð þeirra þjóða sem hvað best lífskjör höfðu (Stefán Ólafsson 1990). Þó var það ekki bara hagstæð aukning kaupmáttar launa sem því skilaði heldur gætti einnig jákvæðra áhrifa af aukinni atvinnuþátttöku kvenna á ráðstöfunartekjur heimila. Hækkun kaups kvenna umfram kaup karla á sama tímabili skilaði sömuleiðis auknum kaupmætti heimila.

Á þessum tíma stórbatnaði húsakostur Íslendinga, bílaeign þeirra náði upp í hæstu hæðir í heiminum, húsbúnaður og rafeindatæki blómstruðu sem aldrei fyrr og ferðalög erlendis urðu almenningseign. Þessi mikla lífskjarabylting hefði mátt koma betur fram í umfjöllun Sumarliða í kaflanum um kjaramál og efnahagslíf 1960 til 2010, þó hennar sjái vissulega merki. Þetta er mikilvægt vegna þess að sumir sem tjá sig um þessi mál virðast halda að kjör almennings á Íslandi hafi ekki farið að batna að ráði fyrr en eftir þjóðarsáttarsamningana 1990. Þessi aðfinnsla mín er þó einkum spurning um áherslu og framsetningu, því þessa þróun má vel ráða af heildarumfjöllun Sumarliða í kaflanum um kjaraþróunina 1960 til 2010 – og víðar í verkinu.

Bækurnar eru vel skrifaðar, skýrar og aðgengilegar og ríkulega myndskreyttar. Varla má annars staðar finna á einum stað jafn víðtæka og yfirlitsgóða frásögn af þróun lífshátta alþýðunnar á Íslandi og mótun mikilvægra þátta samfélagsins síðustu hundrað árin eða svo. Sumarliði R. Ísleifsson hefur unnið mikið og gott verk og ASÍ á heiður skilinn fyrir að hafa haft þá víðsýni að láta gera slíkar bækur um þetta mikilvæga mál.

Heimildir:

Katrín Ólafsdóttir og Stefán Ólafsson (2014). Economy, Politics and Welfare in Iceland – Booms, Busts and Challenges. Osló: Fafo, bls. 1-123.

Stefán Ólafsson (1990). Lífskjör og lífshættir á Norðurlöndum. Reykjavík: Iðunn.

Stefán Ólafsson (2008). “Íslenska efnahagsundirð: Frá hagsæld til frjálshyggju og fjármálahruns”, í Stjórnmál og stjórnsýsla, árg. 4, nr. 2, bls. 231-256.

Stefán Ólafsson (2013). “Well-Being in the Nordic Countries: An International Comparison”, í Stjórnmál og stjórnsýsla, árg. 9, nr. 2, bls. 345-372.

 

PS. Þetta er ritdómur minn sem birtur var í tímaritinu Sögu fyrir skömmu.

Síðasti pistill:  Leiða vaxtabætur til hærra húsnæðisverðs?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar