Þriðjudagur 05.04.2016 - 16:53 - FB ummæli ()

Skattaskjól stuðla að lögbrotum og siðleysi

Menn segja að það sé ekki ólöglegt að nota skattaskjól, að eiga félög þar og vista í þeim eignir. Hins vegar er ólöglegt að svíkja undan skatti.

Skattaskjól eru þó fyrst og fremst notuð til að fela eignir og komast undan skattgreiðslum í heimalandinu.

Íslendingar sem nota skattaskjól gera það til þess að komast hjá því að greiða til fulls skatta af tekjum og eignum sem verða til á Íslandi.

Helsta málsvörn þeirra sem nota skattaskjól er að segja, að þeir gefi eignir og tekjur sínar sem skráðar eru í skattaskjólum upp til skatts í heimalandi sínu.

Hins vegar er ekki hægt að sannreyna það. Engin leið.

Einmitt vegna leyndarinnar sem er kjarninn í notkun og starfsemi skattaskjólanna.

Slík málsvörn getur því einfaldlega verið innantóm yfirlýsing, ef hún er ósannreynanleg.

 

Hvers vegna er notkun skattaskjóla ekki bönnuð?

Skattaundanskot eru sem sagt lögbrot. Þau bitna á heiðvirðum skattgreiðendum og eru beinlínis svik við samfélagið þar sem viðkomandi eignir urðu til.

Allar ríkisstjórnir í vestrænum löndum segjast vera andvígar starfsemi skattaskjóla og vilja beita sér gegn þeim, meðal annars á vettvangi OECD.

En hvers vegna er notkun skattaskjóla þá ekki beinlínis bönnuð?

Hvers vegna er ekki bannað fyrir íslenska ríkisborgara að eiga félög í þekktum skattaskjólum og að vista eignir þar?

Það væri þó ekki bann við því að eiga eignir erlendis almennt, þ.e. í löndum þar sem stjórnsýsla og upplýsingagjöf er skilvirk og heiðarleg. Ég er einungis að tala um bann við vistun eigna á óheiðarlegum aflandssvæðum, sem stuðla að lögbrotum.

Bann við notkun skattaskjóla virðist vera nauðsynleg forsenda fyrir skilvirkri og sanngjarnri framkvæmd skattalaga í landinu.

 

Yfirstéttin er helsti notandi skattaskjóla

Nú er það svo að notendur skattaskjóla eru alla jafna efnaðasta fólkið í hverju landi. Þetta er leið yfirstéttarinnar til að komast hjá fullum skattgreiðslum til heimalandsins.

Sennilega er það til marks um vald og áhrif yfirstéttarinnar í vestrænum samfélögum að notkun skattaskjóla er yfirleitt ekki beinlínis bönnuð.

Frá sjónarhóli heilbrigðrar stjórnsýslu og almenns siðferðis ætti notkun þeirra þó auðvitað að vera bönnuð.

 

Eru Íslendingar methafar í notkun skattaskjóla?

Nú benda Panama-skjölin til þess að Íslendingar séu óvenju miklir notendur erlendra skattaskjóla.

Það endurspeglar þá lausung, græðgi og spillingu sem festi rætur hér í tíðaranda áratugarins að hruni.

Bankarnir beinlínis beittu sér fyrir mikilli notkun skattaskjóla. Þeir grófu þannig undan samfélaginu, með blygðunarlausum hætti. Hugmyndafræðingar yfirstéttarinnar (nýfrjálshyggjumenn) sögðu sjálfsagt að nota viðskiptafrelsið með þessum hætti.

Sú þátttaka íslenskra stjórnmálamanna í notkun skattaskjóla sem lekinn frá Panama hefur þegar opinberað virðist einnig benda til óvenju mikillar virkni stjórnmálamanna okkar í skattaskjólum.

Þar erum við á plani með spilltum og vanþróuðum þróunarlöndum. Minnumst þess líka að þessi Panama skjöl eru örugglega ekki tæmandi upplýsingar um notkun Íslendinga á skattaskjólum.

Margt á því eftir að koma í ljós.

Það verður fróðlegt að sjá nöfn þeirra 600 íslensku efnamanna sem eru á Panama-listanum og mun segja mikið um samfélagið sem þróaðist á Íslandi á áratugnum að hruni.

Það er því mikið verkefni að vinna á Íslandi við að hreinsa út þá spillingu og lögleysu sem mikil notkun íslensks efnafólks á skattaskjólum er.

Það er sá hluti uppgjörsins við hrunið sem enn á eftir að framkvæma. Sú hreinsun er nauðsynleg forsenda þess að verjandi sé að selja hluti ríkisins í bönkunum. Hún er forsenda þess að koma á heilbrigðum kapítalisma í landinu.

Stjórnvöld eru aðilinn sem þarf að veita hið eðlilega viðnám gegn því að notkun skattaskjóla haldi áfram að grafa undan samfélaginu, bæði fjárhagslega og siðferðilega.

Það gengur því ekki að stjórnmálamenn séu sjálfir notendur skattaskjóla.

Það hljóta allir að sjá.

 

Síðasti pistill: Hve mikið eiga Íslendingar í skattaskjólum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar