Föstudagur 10.06.2016 - 11:25 - FB ummæli ()

Guðni sameinar þjóðina

Það sýnir sig ítrekað í könnunum að Guðni Th. Jóhannesson er sá forsetaframbjóðandi sem líklegastur er til að sameina þjóðina.

Tvennt kemur þar til.

Í fyrsta lagi er hann með yfirburðafylgi í nær öllum þjóðfélagshópum. Í reynd er fylgi hans óvenju vel jafnað milli ólíkra hópa samfélagsins. Guðni getur því verið fulltrúi allra.

Í öðru lagi er hann í langflestum tilvikum næsti kostur fyrir þá sem velja einhvern hinna frambjóðendanna (ef þeir kynnu að draga sig til baka). Þetta þýðir að þeir sem nú segjast ætla að kjósa einhvern annan eru samt ekki fjarri Guðna. Það yrði því án efa mikil sátt um Guðna sem forseta.

Forsendur Guðna til að verða sameiningartákn þjóðarinnar, eins og Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir, eru því óvenju góðar.

Enginn hinna frambjóðendanna nálgast þessa stöðu Guðna.

Guðni er einnig einstaklega vel hæfur til að gegna forsetaembættinu. Hann þekkir sögu forsetanna og stjórnmálanna betur en flestir og mun búa vel að því í embætti.

Ekkert er mikilvægara veganest í slíku hlutverki en traust þekking á sögunni og þeirri reynslu sem þar býr.

En Guðni er einnig sérstaklega geðþekkur maður sem á myndarlega fjölskyldu. Þau munu sóma sér vel sem fulltrúar þjóðarinnar.

Nú er tímabært að hleypa framtíðinni að í íslensku samfélagi.

Við þurfum að setja fortíð hrunsins afturfyrir okkur. Það væri því mjög rangt að flytja óuppgerðar deilur hruntímans og óreiðuáranna sem á undan því fóru til framhaldslífs á Bessastöðum.

Við eigum að horfa sameinuð til framtíðar með bjartsýni og traustan lærdóm af sögunni til leiðsagnar.

Sameiningarhlutverk forsetans er mikilvægara nú en oftast áður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar