Miðvikudagur 17.08.2016 - 07:47 - FB ummæli ()

Fjármagnshöftum létt af efnafólki

Gjaldeyrishöftin (fjármagnshöftin) frá 2008 hafa ekki snert almenning á neinn afgerandi hátt.

Það er vegna þess að lítil sem engin höft hafa verið á milliríkjaviðskiptum með vöru og þjónustu og almenningur hefur að auki getað ferðast nokkuð frjálslega til annarra landa með greiðslukort sín.

Helstu fórnarlömb fjármagnshaftanna voru efnamenn (atvinnurekendur og fjárfestar). Þeir gátu ekki flutt fjármagn úr landi að vild, eins og tíðkaðist fyrir hrun.

Nú þegar fjármagnshöftunum verður að mestu aflétt á næstunni þá eru það einkum efnamenn sem munu njóta aukins frelsis til að flytja fé úr landi, þar á meðal í erlend skattaskjól.

Í því ljósi er vægast sagt skondið að við alla kynningu á málinu og í fjölmiðlaumfjöllun er nú lögð sérstök áhersla á að þessi aflétting fjármagnshafta sé “í þágu almennings”!

Hún er hins vegar einkum í þágu þeirra efnuðustu. Það er eina fólkið sem getur flutt fjármagn úr landi, þannig að máli skipti.

Þetta má glögglega sjá þegar menn lesa lista fjármálaráðuneytisins um lykilatriði frumvarpsins um losun haftanna. Hann er hér:

  • Bein erlend fjárfesting innlendra aðila ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands.
  • Fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána verði frjáls upp að ákveðnu fjárhæðarmarki,  að uppfylltum tilteknum skilyrðum
  •  Einstaklingum veitt heimild til kaupa á einni fasteign erlendis á almanaksári, óháð tilefni og kaupverði. (NB! Þeir sem ekki hafa efni á að kaupa hóflega íbúð á Íslandi fagni þessu sérstaklega!)
  • Dregið úr skilaskyldu innlendra aðila á erlendum gjaldeyri. Hún verði afnumin vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum til kaupa á fasteign eða farartæki eða til fjárfestinga erlendis.
  • Ýmsar sértækar takmarkanir afnumdar eða rýmkaðar, m.a. heimildir einstaklinga til kaupa á ferðagjaldeyri. (NB! Þetta skiptir flesta litlu máli)
  • Heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar verða auknar svo hann geti betur stuðlað að verðlags- og fjármálastöðugleika.

Fyrsta janúar 2017 verði:

  • Fjárhæðarmörk hækkuð til fjárfestinga í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðslu erlendra lána.
  • Innstæðuflutningur heimilaður innan ofangreindra fjárhæðarmarka.  Skilyrði um innlenda vörsluaðila erlendra verðbréfafjárfestinga fellt niður. Þar með munu innlendir og erlendir aðilar geta flutt innstæður og verðbréf til og frá landinu og átt viðskipti með verðbréf erlendis innan þeirra marka sem frumvarpið setur þeim. (NB! Vaxtamunaviðskipti geta aukist enn frekar með þátttöku íslenskra fjárfesta og braskara)
  • Heimildir einstaklinga til kaupa á gjaldeyri í reiðufé rýmkaðar verulega. (NB! Gott fyrir þá sem vilja flýja íslensku krónuna með fé sitt)

Frelsi efnamanna til að flytja fé úr landi og til að taka þátt í fjármálabraski milli landa er sem sagt aukið á ný. Við nálgumst nú aðstæður eins og voru hér fram að hruni.

Það er þó vissulega leiðinlegt að sjá, að íslenskir efnamenn munu eitthvað áfram búa við þau höft að mega ekki kaupa meira en eina fasteign erlendis á hverju almanaksári.

Það er þó bót í máli, að fasteignin má að því er virðist kosta hvað sem er og vera óháð tilefni (eða eins og ráðuneytið segir: “…óháð tilefni og kaupverði”)!

Þegar þessar skýringar fjármálaráðuneytisins eru lesnar blasir þannig við að þetta afnám fjármagnshafta er ekki atriði sem snertir almenning sérstaklega eða yfirhöfuð.

Þetta er einkum í þágu efnafólks.

Það er því afar villandi að segja þetta sérstaklega í þágu “almennings”.

 

Síðasti pistill: Hrunið skýrt með klassískum kenningum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar