Mánudagur 10.10.2016 - 12:17 - FB ummæli ()

Eignaskiptingin á Íslandi – lök staða lægri hópa

Hagstofan birti í vikunni nýjar tölur um þróun og skiptingu eigna á Íslandi, frá 1997 til 2015, samkvæmt skattframtölum.

Tölurnar sýna að eignaskiptingin er talsvert ójafnari árið 2015 en hafði verið í byrjun tímans.

Hreinar eignir (eignir umfram skuldir) ríkustu tíu prósentanna jukust gríðarlega í aðdraganda hrunsins.

Skuldastaða þeirra eignaminnstu (sem skulda meira en þeir eiga) versnaði meira en staða þeirra efnuðustu í kreppunni.

Bil milli þeirra eignaminnstu og þeirra eignamestu varð mest á árinu 2010, en hefur minnkað nokku síðan þá.

Samt er eignarhlutur þeirra ríkustu meiri nú en var í byrjun tímabilsins (1997). Það má sjá á myndinni hér að neðan.

Eignaskipting 1997 og 2015

Þessi mynd sýnir hlutfallsskiptinguna milli tíu jafnstórra eignahópa (tíundarhópa), frá eignaminnstu tíu prósentum framteljenda (tíundarhópur 1) til eignamestu tíu prósentanna (tíundarhópur 10).

Hér má sjá að ríkustu tíu prósentin eiga árið 2015 um 64% allra hreinna eigna framteljenda, og hefur hlutur þeirra vaxið úr um 56% frá árinu 1997. Næsti hópur á um 23% framtalinna eigna (var 24% árið 1997).

 

Lök staða lægri og millihópa 

Samanlagt eiga ríkustu tuttugu prósent framteljenda hátt í 90% allra hreinna eigna á Íslandi.

Hlutur allra annarra en efstu tíu prósentanna er minni árið 2015 en hafði verið árið 1997.

Samþjöppun eigna hefur því aukist á tímabilinu, þ.e. eignaskiptingin er ójafnari árið 2015 en hún var 1997.

Eignaminnstu tíu prósentin skulduðu meira en þau áttu og er hlutfallsstaða þeirra svipuð nú og 1997.

Eignaminnstu 40% framteljenda eiga engar eignir og skulda flestir meira en þeir hafa umleikis af eignum. Fimmti eignahópurinn á mjög litlar eignir.

Þannig að um helmingur framteljenda á litlar eða engar eignir (þ.e. eignir umfram skuldir).

Algengt er að fólk byrji feril sinn á starfsævinnu með meiri skuldir en eignir (vegna húsnæðiskaupa og stofnunar fjölskyldu). Þeir yngstu eru því oft í hópi eignalausra.

Hins vegar er athyglisvert að eignastaða millihópanna skuli ekki vera betri en raun ber vitni. Hún hefur raunar versnað hlutfallslega á tímabilinu.

Eignaskiptingin er mun ójafnari en tekjuskiptingin, líkt og í öðrum löndum.

Tekjuskiptingin varð mun ójafnari á áratugnum fram að hruni, en jafnaðist svo á ný. Hún hefur orðið ójafnari á ný á síðustu þremur árum, einum vegna aukinna fjármagnstekna, sem renna einkum til þeirra eignamestu.

 

Þeir ríkustu fara framúr öðrum

Myndin hér að neðan sýnir svo þróun eigna tíundarhópanna frá 1997 til 2015, í milljónum króna á föstu verðlagi ársins 2015.

Þróun eignaskiptingar 1997 til 2015

Þar má glögglega sjá hversu ólíkt hlutskipti hópanna hefur verið á síðustu nærri tveimur áratugum.

Á myndinni má sjá hversu ört eignir ríkustu tíu prósentanna jukust í aðdraganda hrunsins, langt umfram alla aðra.

Þeir eignaminnstu (1. tíund) voru með meiri skuldir en eignir allan tímann (undir núll-línunni) og skuldastaða þeirra var versnandi á tímabilinu, uns hún tók djúpa dýfu eftir 2007.

Verst var skuldastaðan árið 2010 en hefur skánað síðan þá. Samt eru eignastaða lægstu tíu prósentanna ennþá verri en verið hafði árið 1997, þeir skulda meira en þá, þrátt fyrir batann sem varð 2011-2015.

Vöxtur eigna síðustu tvö árin hefur verið afar kröftugur hjá ríkasta tíundarhópnum (10. tíund). Eignir þeirra eru árið 2015 þegar orðnar meiri en var á árinu 2006.

Ekki tekur langan tíma uns eignir þeirra ríkustu verða orðnar svipaðar eða meiri en varð á toppnum árið 2007.

Staða efri millihópanna hefur batnað á síðustu árum, einkum vegna hækkunar fasteignaverðs.

En þó skuldastaða þeirra sem ekkert eiga hafi skánað þá er hún þó enn verri en var í byrjun tímabilsins.

Bilið milli þeirra efnuðustu og hinna efnaminnstu hefur breikkað mikið og forskot þeirra ríkustu heldur áfram að aukast, eins og seinni myndin sýnir glögglega.

 


Hér má sjá skýringar Hagstofunnar á gögnunum: http://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Efnahagur/Efnahagur__thjodhagsreikningar__skuldastada_heimili/THJ09005.px/.

Hér er alls staðar miðað við hreinar eignir, þ.e. eignir umfram skuldir, samkvæmt skattframtölum. Eignir í erlendum skattaskjólum eru vantaldar. Þær tilheyra almennt þeim eignamestu og því vanmeta niðurstöður skattframtala á Íslandi væntanlega ójöfnuðinn í eignaskiptingu meðal Íslendinga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar