Laugardagur 05.11.2016 - 14:23 - FB ummæli ()

Hættan frá hægri

Á meðan margir tala sig ringlaða um það, að hægri – miðju – vinstri víddin í stjórnmálum sé úrelt, þá skerpa hægri menn hugmyndir sínar og herða sóknina.

Hægri menn vita nefnilega vel hvað “hægrið” er í stjórnmálum. Þeir hafa hugmyndafræðina á hreinu.

En hverjir eru hægri menn?

Það eru yfirleitt þeir sem tala fyrir hugmyndum er gagnast einkum yfirstéttinni hverju sinni – þeim ríkustu og valdamestu.

Þeir eru sagðir íhaldsmenn, af því þeir vilja ekki breyta kerfum sem þjóna vel hagsmunum yfirstéttarinnar. Stundum beita þeir líka hugmyndum nýfrjálshyggjunnar um óhefta markaði, frelsi fjármagnsins og veikt ríkisvald, sem skilar sömu áhrifum yfirstéttinni til hagsbóta.

Yfirstéttin er venjulega ekki stærri en svona tíundi hluti þjóðarinnar – ríkustu tíu prósentin.

Milli og lægri stéttirnar eru stór meirihluti kjósenda og ættu því að geta haft mestu völdin í lýðræðissamfélagi. En yfirstéttin fær gjarnan mun fleiri til liðs við hugmyndir sínar – nær jafnvel meirihluta stundum í kosningum.

Hreina hægrið á Íslandi (Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn) fengu samanlagt um 40% atkvæða í nýliðnum kosningum. Restin (miðjan og vinstrið) fengu rúm 60%. Hægri flokkarnir fengu sem sagt mun meira en bara atkvæði yfirstéttarinnar – en þó ekki meirihluta.

Af hverju er meirihlutinn (vinstrið og miðjan) þá ekki að fara að stýra landinu í þágu almannahagsmuna í stað hagsmuna yfirstéttarinnar?

Klofningur, langtíma sundrung, heimska og óskýr hugmyndafræði skýrir mest að því. Stundum hefur miðjan líka haft of mikla þjónustulund við hægrið og fína fólkið.

Þannig gefa miðju og vinstri menn gjarnan frá sér völdin. Eða láta sér duga að vera áhrifalitlir meðreiðarsveinar hægri flokka…

 

Hægrið sýnir vígtennurnar

Á meðan miðjan og vinstrið skilgreina sig út úr myndinni þá vita hægri menn fyrir hvað þeir standa.

Nýr framkvæmdastjóri hagsmunasamtaka útvegsmanna segir t.d. að “þjóðin geti ekki átt neitt”!

Hún er að tala um sjávarauðlindina…

screen-shot-2016-11-05-at-12-03-52-pm

Þeir sem hún starfar fyrir samþykkja ekki það sem stendur í lögum, að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar. Þeir vilja heldur ekki fá það skráð í nýja stjórnarskrá.

Útvegsmenn vilja sjálfir eiga auðlindina og græða á henni – án afskipta almennings.

Þeir vilja heldur ekki greiða sanngjarnan hluta af auðlindarentunni til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar (t.d. til endurreisnar heilbrigðisþjónustunnar).

Nei, talskonan með frjálshyggjuheilann og vélbyssukjaftinn segir slíka skatta vera “ofbeldi”.

Hún er auðvitað að vinna fyrir laununum sínum, en hún vill líka sjálf hafa þetta þannig, að útvegsmenn geti nýtt auðlind annarra (þjóðarinnar) sem sína eigin. Það er hennar hægri hugmyndafræði.

Hannes Hólmsteinn hefði einmitt orðað þetta allt alveg eins. Og vísað í Ayn Rand og aðra hugmyndafræðinga yfirstéttarinnar og fjármálaaflanna.

Þetta fólk veit fyrir hvað hægrið stendur. Samtök atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráð brýna hægri raustina að staðaldri og reyna að stýra stjórnvöldum og almenningsáliti í þá átt.

ASÍ og önnur launþegasamtök ættu að veita mótvægi en eru oft heldur lítilþægir meðreiðarsveinar…

 

HræGammar ýfa fjaðrir

Braskfélagið Gamma hf. í Garðastræði (sem ætti raunar að heita “HræGamma hf.”) er komið í herferð til að koma á dagskrá einkavæðingu Landsvirkjunar, Orkuveitunnar, Isavia og sem flestra innviða í landinu (t.d. samgöngukerfinu). Sjá nánar um það hér.

HræGammar fjármálageirans og atvinnulífsins hafa einmitt líka skilning á því, að “þjóðin geti ekki átt neitt”.

Hvorki auðlindir eða Þingvelli, né vegina, skólana og sjúkrahúsin sem þjóðin þó byggði.

Og jafnvel þó gjöld fyrir rafmagnið frá Landsvirkjum og heita vatnið frá Orkuveitunni séu þau ódýrustu fyrir almenning sem þekkjast í Evrópu, segja Gammarnir að það sé slæmt fyrirkomulag.

Þessir hugmyndafræðingar sérhagsmuna vilja auðvitað taka þetta yfir og fara að græða á því í eigin vasa. Þá myndi almenningur fá að greiða meira fyrir þessa þjónustu.

Væri það í þágu almannahagsmuna? Ónei!

Sérgróðaöflin kreista alltaf meira út úr slíkum rekstri en opinberir aðilar, sem hafa skaffað okkur hita og ljós með miklum ágætum á Íslandi í áratugi.

 

Hægrið veit hvað það vill

Hægrið er sem sagt með allt sitt á hreinu. En vinstrið og miðjan segja að hægri – vinstri tal sé úrelt bók. Þau vilja frekar heita “umbóta” eitthvað eða „frjálslynd“ eitthvað.

Kanski þeir sem ekki tilheyra yfirstéttinni (eða ekki beinlínis dreymir um að komast í yfirstéttina síðar) ættu að hugsa málið betur.

Miðjan og vinstrið ættu náttúrulega að vinna saman alla jafna. Úrslit kosninganna nú gera það að vísu ekki einfalt.

Að öðru leyti ættu þau að reyna að vinna gegn ofurvaldi hægri aflanna. Mikið er í húfi. Samstarf vinstri og miðju við hægrið þarf þá að fela í sér alvöru möguleika á viðspyrnu gegn yfirgangi og undirferli hægrisins.

Í millitíðinni ættu fulltrúar meirihluta almennings að gera sér betur grein fyrir því hvar almannahagsmunir liggja og hvernig hægt sé að varast fyrirséða yfirtöku hægrisins á sameiginlegum eignum og hagsmunum þjóðarinnar – bæði nú og í framtíðinni.

Hægrið er nefnilega með slíka yfirtöku á dagskrá sinni.

Hægrið vill útrýma þeirri hugsun að „þjóðin eigi landið og miðin“. „Þjóðin getur ekki átt neitt“, segja þau.

Þeirra sýn er sú að landið sé í eigu útvalinna „landeigenda“ og þjóðin bara gestur í landinu – eins og túristarnir. Gestur sem má rukka.

Það liggur því ekki svo mjög á að skilgreina hægri – vinstri víddina út úr stjórnmálasögunni.

Hún hefur enn mjög mikið að segja um skiptingu auðs og valds í samfélaginu.

 

Síðasti pistill:  Hvað er í kortunum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar abstraksjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar