Mánudagur 23.01.2017 - 15:32 - FB ummæli ()

Skuldir heimila – þróun og staða

Skuldabyrði heimilanna varð eitt stærsta málið í stjórnmálunum eftir hrun.

Gríðarleg gengisfelling, með tilheyrandi verðbólgu, stórjók eftirstöðvar verðtryggðra skulda og um 20% skerðing kaupmáttar heimilistekna gerði skuldabyrðina afar erfiða fyrir meirihluta heimila – einkum í lægri og milli tekjuhópum.

Ýmis úrræði vinstri stjórnarinnar beindust sérstaklega að þeim sem verst voru staddir og Skuldaleiðréttingin svokallaða varð eitt helsta stefnumál ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem tók við sumarið 2013.

Vinstri stjórnin hafði einnig stórhækkað vaxtabætur til að létta heimilum skuldabyrðina. Vaxtabætur nýttust eignaminni og tekjulægri heimilum sérstaklega og tóku einnig tillit til fjölda barna á heimilinu.

Skuldaleiðréttingin átti að breikka stuðning til heimila ofar í tekjustiganum, en þó með þaki svo hún færi ekki með fullum þunga upp allan tekjustigann (eða þannig var um það rætt fyrirfram).

Það er fróðlegt að skoða nú nokkrum árum síðar hvernig framvindan í skuldum heimilanna hefur verið.

skuldir-samanburdur

Mynd 1 sýnir skuldir heimila sem hlutfall ráðstöfunartekna þeirra frá 1989 til annars ársfjórðungs 2016, fyrir Ísland og hinar norrænu þjóðirnar, auk Hollands (heimild: Seðlabanki Íslands).

Skuldirnar náðu hámarki hér á landi árið 2010, eftir að verðbólguskotið gekk yfir, en hafa lækkað ört á hverju árið síðan, raunar meira en hjá nokkurri þessara þjóða sem hér eru sýndar.

Hækkun ráðstöfunartekna á einnig drjúgan þátt í lækkandi skuldahlutfalli hér á landi. (Raunar lækkuðu skuldir Íra með næstum jafn miklum hraða og hjá Íslendingum – sjá hér).

Dönsk heimili voru og eru mun skuldugri en íslensk heimili og það sama á við um hollensk heimili. Ísland hefur svo lækkað niður fyrir bæði norsk og sænsk heimili á síðustu árum. Einungis finnsk heimili skulda minna en þau íslensku í lok árs 2015 og byrjun 2016.

Þetta er góður árangur úr erfiðri stöðu Íslendinga á fyrstu tveimur árum kreppunnar.

Ekki er afgerandi munur á umfangi lækkunar skulda heimilanna í stjórnartíð vinstri stjórnarinnar og þeirrar sem á eftir kom. Sú seinni hafði þó lengri tíma til að lækka skuldirnar því sú fyrri þurfti að taka á sig verðbólguskot hrunsins, með hækkun skulda og lækkun kaupmáttar er varði til um 2010 – auk þess að búa við mun erfiðari fjárhagsstöðu ríkissjóðs.

Í byrjun árs 2016 er Ísland komið í svipaða stöðu og hafi verið um 1989. Með áframhaldandi lækkun skulda heimilanna er Ísland komið í góða stöðu, raunar betri en í flestum grannríkjanna.

Þetta má telja góðan árangur og í lagi að hæla báðum ríkisstjórnum fyrir sinn þátt í því. Dómstólar eiga líka stóran þátt í lækkun gengistryggðra lána og svo hafa einhverjir greitt sjálfir niður skuldir sínar.

 

Skuldabyrði ólíkra tekjuhópa

En hvernig snerti þessi skuldaþróun ólíka tekjuhópa heimila?

Það má sjá á mynd 2, er sýnir hlutfall framteljenda sem skulda meira en 300% af ráðstöfunartekjum (þ.e. búa við mjög erfiða skuldabyrði), eftir fjórum jafn stórum tekjuhópum (hver hópur er 20% framteljenda, raðað frá lægri millitekjum, til millitekna, hærri millitekna og hátekjuhópsins).

Lægsta tekjuhópi (lægstu 20% framteljenda) er sleppt, vegna þess að þar eru margir námsmenn (16-25 ára) sem búa hjá foreldrum, eru tekjulitlir og eiga sjaldan íbúðir og íbúðaskuldir.

Myndin sýnir vel misjafna skuldabyrði tekjuhópanna.

skuldabyrdi-tekjuhopa

Mynd 2: Þyngd skuldabyrðarinnar í fjórum tekjuhópum fólks sem var með íbúðaskuldir, frá 1997 til 2015 (heimild: Seðlabanki Íslands). Hlutfall framteljenda sem eru með skuldir um eða yfir 300% af ráðstöfunartekjum sínum.

Þessi mynd segir eftirfarandi sögu:

  • Mjög þung skuldabyrði var lang algengust í lægri tekjuhópunum.
  • Erfið skuldabyrðin í hátekjuhópnum var rétt um helmingur af byrðinni í lægsta tekjuhópnum þegar mest var (árið 2010)
  • Árið 2015 var erfið skuldabyrði (meira en 300% ráðstöfunartekna) í hátekjuhópnum einungis um þriðjungur af því sem var í lágtekjuhópnum (lægri millitekjuhópnum).
  • Bilið milli lægri og hærri hópanna hefur þannig aukist á síðustu árum

Erfið skuldabyrði var sem sagt langmest í lægri og milli tekjuhópum íbúðaeigenda, en viðráðanlegri í hátekjuhópnum (þ.e. þegar skuldir eru miðaðar við ráðstöfunartekjur viðkomandi).

 

Lækkun skulda mest í hærri tekjuhópum

Síðasta myndin sýnir lækkun skuldabyrðarinnar í þessum ólíku tekjuhópum, bæði fyrir þá sem voru með íbúðaskuldir og alla framteljendur, frá toppnum 2010 til 2015.

laekkun-skulda-eftir-tekjuhopum

Mynd 3: Heildarlækkum erfiðrar skuldabyrði (300% af ráðstöfunartekjum eða meira) frá 2010 til 2015, eftir ólíkum tekjuhópum (heimild: Seðlabanki Íslands).

Hér má sjá að heildarlækkun skulda var áberandi mest í hæstu tekjuhópunum (í prósentustigum talið).

Í lægsta tekjuhópnum fækkaði framteljendum (með íbúðaskuldir) sem voru með erfiða skuldabyrði um 12 prósentustig á meðan fækkunin var 18-19 stig í hæstu tekjuhópunum, þegar miðað er við þá sem voru með íbúðaskuldir.

Þegar miðað er við alla fækkaði þeim sem voru með erfiða skuldastöðu (300% af ráðstöfunartekjum eða meira) um 4 prósentustig en í hæsta tekjuhópnum var það meira en þrefalt (14 prósentustig).

Það hefur því gengið mun betur hjá hæstu tekjuhópunum en þeim sem eru í miðju eða með lægri miðtekjur.

Þetta er í takti við það sem kom fram í nýrri skýrslu fjármálaráðuneytisins um niðurstöðu Skuldaleiðréttingarinnar (sjá hér).

Þungi stuðningsins þar fór til þeirra tekjuhærri sem betur voru staddir en milli og lægri miðtekjuhóparnir fengu minni stuðning en efni stóðu til.

Þetta er því dæmi um aðgerð sem stuðlaði frekar að auknum ójöfnuði en jöfnun kjara. Varla er hægt að hrósa fyrir þessa framkvæmd.

Raunar á við um báðar ríkisstjórnirnar sem sátu fyrst eftir hrun að varla var nógu mikið gert fyrir þá verst settu. Veruleg hækkun vaxtabóta hjá vinstri stjórninni, sem fram kom 2009 til 2011, létti þó byrðar þeirra verr settu svo um munaði.

Frá 2013 lækkuðu vaxtabætur hins vegar umtalsvert og enn frekar þegar skuldaleiðréttingarinnar tók að gæta (því viðmið vaxtabótanna voru ekki hækkuð nógu mikið).

Margir þeirra sem fengu einhverja skuldaleiðréttingu frá 2014 sátu svo uppi með mun lægri vaxtabætur en áður, sem dró úr gildi Leiðréttingarinnar. Vaxtabætur eru nú minni en nokkrum sinnum fyrr (sjá tölur Ríkisskattstjóra  hér).

Þessa framkvæmd alla hefði verið hægt að útfæra með mun skilvirkari hætti til að létta þeim heimilum byrðarnar sem mest þurftu á að halda.

Þess vegna leyfði ég mér að fullyrða í síðasta pistli að framkvæmd þessarar skuldaleiðréttingar, sem ég þó studdi upphaflega, hafi verið “skelfileg”.

Tilefnið til skuldalækkunar hjá heimilum var ærið, en framkvæmdin hefði átt að vera með öðrum hætti.

 

Síðasti pistill:  Leiðréttingin – skelfileg framkvæmd!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar