Sunnudagur 29.01.2017 - 15:04 - FB ummæli ()

Ætti að selja Alþingishúsið og Þingvelli?

Viðskiptaráð lagði til um daginn að ríkið seldi sem mest af byggingum sínum til einkaaðila (sjá hér).

Hugsunin er þá væntanlega sú, að ríkið leigi síðan húsnæðið af þeim fjárfestum sem kaupa góssið (á góðu verði, eins og tíðkast almennt við einkavæðingu).

Viðskiptaráð nefnir sem dæmi allar skrifstofubyggingar ríkisins, skólahúsnæði, byggingar Landsspítalans, lögreglustöðvar og jafnvel kirkjur.

Sem sagt flestar verðmætar fasteignir sem ríkið notar fyrir starfsemi sína.

Alþingishúsið er hluti af skrifstofuhúsnæði ríkisins. Stjórnarráðið líka. Og Bessastaðir.

Áður hafa Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins lagt til að sem flestar stofnanir ríkisins verði lagðar niður og að aðrar eignir en fasteignir verði einnig seldar fjárfestum.

Landsvirkjun, Orkuveitur, bankar, flugstöðvar, ÁTVR, vegir o.fl. sl. hafa verið nefnd í þessu sambandi.

Einnig hafa þessir aðilar lagt til skipan ferðaþjónustu sem í reynd gæti falið í sér að eignarhald á landinu verði að flestu leyti fært í hendur fámennrar stéttar eignamanna. Svokallaðir landeigendur, hver á sinni þúfu, gætu þá rukkað ferðamenn og einnig íbúa Íslands fyrir að fara um landið og t.d. taka myndir af fjöllum og fallvötnum, svo dæmi sé tekið.

Í þeim anda yrðu Þingvellir auðvitað líka seldir einhverjum sjálfgræðismönnum – innlendum eða erlendum.

Þarna er sem sagt talað fyrir róttækari einkavæðingu og eins konar ofurkapítalisma fjáraflamanna, langt umfram það sem nokkurs staðar tíðkast.

Menn átta sig sennilega ekki á því hversu róttæk sjálfgræðisöflin á Íslandi eru – hve langt fámenn yfirstétt efnamanna er reiðubúin að ganga til að sölsa undir sig öll verðmæti á Íslandi.

Þetta er kanski það sem átt er við með hugtakinu “ræningjakapítalismi” (“predatory capitalism”).

Talsmenn nýfrjálshyggju tala fyrir svona sýn á samfélagið og talsmaður útvegsmanna sagði nýlega: “þjóð getur ekki átt neitt”!

Þið skiljið hvað átt er við með slíkum boðskap:  Einungis ríkir einstaklingar mega eiga verðmæti sem máli skipta. Sameign þjóðar á ekki að tíðkast á neinu sviði.

Hvenær fara þeir svo að ásælast íbúðarhúsnæði almennings sem enn er í séreign?

 

Hverjir myndu græða – skattgreiðendur eða auðmenn?

Svona tillögur eru gjarnan settar fram með því fororði að þetta sé „hagkvæmt“ fyrir ríkið (og þar með fyrir skattgreiðendur).

Nú er svo að húsnæði ríkisins hér á landi er yfirleitt hagkvæmt, vel nýtt og þokkalega við haldið. Notkun þess kostar oftast mun minna en ef leigt væri af almennum leigumarkaði. Ég þekki mörg dæmi um slíkt.

Þetta tal um að hagkvæmt væri fyrir ríkið að gerast leiguliði auðmanna í stað þess að eiga húsnæði sem opinber starfsemi notar er því yfirleitt eingöngu til blekkingar.

Það sem vakir fyrir sérhagsmunasamtökum, eins og Viðskiptaráði og Samtökum atvinnurekenda, er að vinna að aukinni fésæld fámennrar yfirstéttar fjárfesta („sjálfgræðismanna“) – jafnvel þó það sé á kostnað skattgreiðenda.

Ef allt húsnæði ríkisins væri komið í hendur auðmanna þyrfti hver bygging sem ríkið á nú að hafa á framfæri sínu fjárfesti sem krefst vænlegs arðs af byggingunni á hverju ári, jafnvel á hverjum ársfjórðungi.

Það væri verulega aukinn húsnæðiskostnaður.

Einkaaðilar sem keyptu opinberar byggingar gætu auk þess hækkað afnotagjöld (leigu) af slíkum byggingum upp í markaðsverð, sem væri mun hærra en nú er í flestum tilvikum. Í því væru fólgin mikil fjáraflatækifæri fyrir fjárfestana.

Þess vegna hafa fjáraflamenn einkageirans áhuga á að komast yfir sem flestar eignir þjóðarinnar, hvort sem um er að ræða fasteignir ríkisins, náttúruauðlindir eða innviði.

Þeir geta grætt ógeðslega mikið á því!

Þeim þætti heldur ekki verra að hafa hreðjatak leigusala á allri ríkisstarfseminni, sem þeir líta á sem keppinaut einkageirans – keppinaut sem þeir vilja yfirleitt feigan, en væru til í að blóðmjólka.

Svo má í þessu sambandi rifja upp reynslu Reykjanesbæjar af því að hafa farið að hluta inn á þessa braut á árum „sterakapítalismans“ (frá 2003 til 2008). Sjálfstæðismenn í bæjarstjórninni seldu frá bænum fjölmargar fasteignir og stóran hluta úr Orkuveitu Suðurnesja.

Það fór illa. Bæjarfélagið varð nánast gjaldþrota og ber nú miklar byrðar vegna þessa langt inn í framtíðina. Svipað gerðist í Hafnarfirði, þó í minni mæli væri.

Dettur nokkrum í hug að fjáraflamenn einkageirans séu að leggja svona villtar tillögur til af sérstakri umhyggju fyrir ríkisrekstri og sameignum þjóðarinnar – eða fyrir hagsmunum almennra skattgreiðenda?

Nei, það er græðgin ein sem ræður för í þessu.

 

Síðasti pistill:  Skuldir heimila – þróun og staða

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar