Föstudagur 24.02.2017 - 12:01 - FB ummæli ()

Háleitar hugsjónir um áfengi

Maður er djúpt snortinn yfir því hversu mikið er af hugsjónafólki á Alþingi um þessar mundir.

Sérstaklega þegar kemur að álitamálum um sölu áfengis.

Við búum við skipan sölumála áfengis sem sérfræðingar í lýðheilsu eru almennt sammála um að sé farsæll millivegur, er sameinar gott aðgengi að slíkri vöru og hóflegt viðnám gegn misnotkun þess.

Um þrír af hverjum fjórum kjósendum í landinu eru andvígir því að selja sterkt áfengi í matvörubúðum.

ÁTVR verslanirnar og starfsfólk þar fær hæstu einkunnir í ánægjuvog viðskiptalífsins – ár eftir ár. Einkafyrirtækin standa sig almennt verr.

Við búum sem sagt við fyrirkomulag sem gengur vel og mikil ánægja er með.

Hugsjónafólkið á Alþingi vill hins vegar hafa vit fyrir þjóðinni og troða áfenginu inn í flestar matvörubúðir um land allt – þrátt fyrir andstöðu kjósenda.

Þetta er heldur ólýðræðisleg forsjárhyggja, sem þarna á að framkvæma í nafni “viðskiptafrelsis”.

Hugsjónafólkið vil meiri samkeppni um sölu áfengis og frelsi til að hvetja almenning áfram í drykkjunni – með auglýsingum.

Aðrar tegundir af frelsi skipta engu máli fyrir hið prúða hugsjónafólk – svo sem frelsi frá áfengisvandamálinu, eða jákvæð markmið í lýðheilsumálum þjóðarinnar.

Það mætti ætla að við búum í samfélagi þar sem búið sé að leysa öll vandamál almennings.

Því þurfi að breyta skipan áfengissölumála til að búa til ný vandamál fyrir samfélagið að takast á við.

 

Yrði breytingin til bóta?

Ég hef sjálfur búið í löndum þar sem áfengi er selt í matvöruverslunum og get alveg lifað við það. Ég sé hins vegar ekki yfirburði þeirrar skipanar.

Þar er t.d. ekki betra aðgengi að fjölbreyttu framboði áfengra drykkja en hér tíðkast nú.

Úrval áfengisdrykkja er yfirleitt lítið í matvöruverslunum í þessum löndum og af því að þær eru svo margar verður þrengri markaður fyrir sérverslanir með gott úrval gæðavína og öls.

Sérverslanir með gott úrval áfengis eru því oft færri og vegalengdir milli þeirra lengri. Þannig verður það líka hér eftir að Bónus og Hagkaup og kaupmaðurinn á horninu fara að selja áfengi.

Meira verður þá fyrir því haft að fá góðu eða sérstöku tegundirnar. Aðgengi að glundri og bónusvínum eykst hins vegar mikið.

Ef niðurstaðan á hinu háa Alþingi verður samt sú, að fara inn á þessa nýju braut aukinna vandamála, þá finnst mér lágmark að þeir sem fá gróðann af sölu áfengis í sinn vasa taki líka á sig hinn aukna kostnað samfélagsins af því tjóni sem áfengið veldur.

Annars gæti þurft að hækka skatta á saklausan almenning, til að greiða fyrir auknar byrðar af áfengisvandanum í heilbrigðiskerfinu og löggæslunni.

Best væri þó að hugsjónafólkið á Alþingi fyndi sér verðugri viðfangsefni í framfaraleitinni – til dæmis á sviði húsnæðismála ungs fólks. Þar bíða stór og brýn verkefni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar