Laugardagur 18.03.2017 - 16:21 - FB ummæli ()

Frumstæð læknisfræði Seðlabankans

Áhyggjuefni dagsins er ofþensla í efnahagslífinu, sem hefur hækkað gengi krónunnar. Útflutningsgreinar kvarta um versnandi afkomu vegna þessa.

Hærra gengi er gott fyrir heimilin, því það eykur kaupmátt þeirra gagnvart innfluttum vörum og þjónustu.

Hærra gengi þýðir hins vegar minni tekjur útflutningsgreina í krónum talið (þó erlendu tekjurnar séu þær sömu).

Hver er helsta orsök ofþenslunnar?

Það er óvenju mikill vöxtur ferðaþjónustunnar. Þaðan er þetta lúxusmein sprottið.

Seðlabankinn á að stýra peningastefnu þjóðarinnar, þar með talið genginu, eins og hægt er.

Í ofþenslu er forskrift „haglæknisins” í Seðlabankanum sú, að spyrna gegn bólgunni – kæla eða hægja á efnahagsumsvifum í landinu.

Hans helsta meðal við framkvæmd peningstefnunnar er hækkun eða lækkun stýrivaxta. Bindiskylda kæmi þó líka til greina en hún er ekki í tísku hjá nýfrjálshyggjuhagfræðingum nútímans.

Hækkun stýrivaxta er því megin úrræði Seðlabankans, eða viðhald hás vaxtastigs.

Háir stýrivextir eiga að draga úr ofþenslunni með því að halda aftur af lántökum í landinu. En er það líklegt til að draga úr vexti ferðaþjónustunnar – mun það fækka ferðamönnum sem hingað vilja koma? Þeir eru ekki að koma hingað til að taka lán!

Stórtækir ferðaþjónustuaðilar (flugfélögin og félög sem eru stórtæk í hótelbyggingum) taka einkum lán erlendis, á mun lægri vöxtum en tíðkast á Íslandi.

Hátt vaxtastig á Íslandi, sem ætlað er til að draga úr vexti ferðaþjónustunnar, lendir því einkum á heimilunum sem eru með húsnæðisskuldir, en einnig á minni fyrirtækjum.

Háir stýrivextir lenda sem sagt ekkert sérstaklega á ferðaþjónustunni – heldur mest á öðrum.

Þetta úrræði virkar á svipaðan hátt og ef læknir setti gifs á vinstri upphaldlegg sjúklings sem er með bólgu eða brot í hægri ökla!

Það hefði auðvitað engin áhrif á sjúkdóminn, enda frumstæð læknisfræði í meira lagi.

Hagstjórn Seðlabankans er svolítið af þessum toga. Úrræðið beinist ekki að rótum vandans.

 

Vitlegri úrræði

Leið markaðarins í þessari stöðu er sú að gengi krónunnar hækkar uns verðlag Íslandsferða til útlendinga verður svo hátt að úr straumi ferðamanna dregur loks. Við höfum sem sagt verið á þeirri leið.

Gallinn við þessa „leiðréttingu” markaðarins er, að sú hækkun sem þarf til að stemma stigu við ofþenslunni sem stafar af of mikilli velgengni ferðaþjónustunnar drepur allar aðrar útflutningsgreinar áður en yfir lýkur – sem er slæmt.

Lækning markaðarins og Seðlabankans drepur ýmsa aðra saklausa aðila í þjóðarbúinu og leggur að auki ósanngjarnar byrðar á heimilin sem eru að sligast undan húsnæðisskuldum. Hittir alls ekki í mark – og er kanski bara sjálfsmark!

Svokallaðir „markaðsaðilar” vilja að lífeyrissjóðir verði neyddir til að flytja fjárfestingar sínar í stórum stíl úr landi. Þannig megi halda hávaxtastiginu hér á landi áfram og jafnframt lækka gengi krónunnar.

Það er hins vegar skylda stjórnenda lífeyrissjóða að ávaxta fé sjóðanna sem best, í þágu félaga sinna. Þess vegna vilja og eiga þeir auðvitað að leggja fénu þar sem ávöxtunin og vextirnir eru hæstir – á Íslandi!

Vitlegra væri að stjórnvöld (ríkisstjórnin) tækju að sér að stýra þjóðarbúinu og hvíla bæði Seðlabankann og óhefta markaðinn svolítið.

Ég er að tala um að ríkisstjórnin grípi inní með raunsærri aðgerðum, í anda Keynes. Nærtækast er að setja sérstakan komuskatt á ferðamenn, til dæmis 10 þúsund krónur á hvern ferðamann (veita mætti afslátt þegar fjölskyldur koma saman). Þetta mætti útfæra með ýmsum hætti, jafnvel þannig að íslenskum ferðamönnum væri hlíft við skattinum (sem væri best).

Önnur leið væri að færa virðisaukaskatt á ferðaþjónustu upp í það sem tíðkast í öðrum atvinnugreinum (sem hefði átt að gerast fyrir löngu). Svo mætti fara bil beggja eða finna enn önnur úrræði af sama toga.

Þetta góða úrræði gæti líkað fjármagnað samgönguáætlun sem er munaðarlaus um þessar mundir…

 

Feilskot Seðlabankans og óhefta markaðarins

Ferðaþjónustuaðilar myndu að sjálfsögðu reka upp ramakvein og fella tár við grátmúr útvegsmanna þegar þetta kæmi á dagskrá.

En þetta er það sem þarf og ætti að virka til að draga úr þenslunni. Hægja á vextinum. Og þetta er leið sem gerir það án þess að setja aðrar útflutningsgreinar í úlfakreppu.

Þá mætti líka í framhaldinu lækka vexti umtalsvert, sem hjálpar atvinnulífi og heimilum og gerir umhverfið á Íslandi heilbrigðara, eins og talsmenn atvinnurekenda hafa nýlega bent á.

Það er ekki oft sem ég er sammála talsmönnum atvinnurekenda. En mér hugnast vel nýupptekin barátta þeirra fyrir lækkun vaxta. Hvers vegna skyldu launþegafélögin ekki hafa sömu afstöðu í því máli? Þau taka auðveldlega upp launastefnu atvinnuekenda þegar SALEK er á dagskrá…

Eru þau meira að hugsa um ávöxtun lífeyrissjóða en um hag heimilanna?

En boltinn er hjá stjórnvöldum. Þau ættu að fara að beita alvöru hagstjórn sem tekur á þeim vanda sem við er að eiga.

Nóg er komið af feilskotum Seðlabankans og óhefta markaðarins.

 

Síðasti pistill: Ný bók um hrunið:  Stjórnmálamenn stóðu sig vel

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar abstraksjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar