Laugardagur 29.04.2017 - 13:31 - FB ummæli ()

Nýtt kerfi ellilífeyris – kostir og gallar

Um áramótin síðustu tóku gildi ný lög um ellilífeyri almannatrygginga (sjá hér).

Markmið nýju laganna voru eftirfarandi:

  • Að einfalda greiðsluflokka ellilífeyris (fækka lífeyrisflokkum úr fjórum í tvo – grunnlífeyri og heimilisuppbót).
  • Einfalda reglur um frítekjumörk (fækka frítekjumörkum úr þremur í eitt og láta allar tegundir tekna vega eins gagnvart lífeyri almannatrygginga). Þetta endaði sem eitt frítekjumark upp á 25 þúsund krónur á mánuði fyrir allar skattskyldar tekjur (utan séreignasparnaðar og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga).
  • Auka sveigjanleika til töku ellilífeyris (heimila töku ellilífeyris frá 65 ára aldri, gegn varanlegri lækkun greiðslna; heimiluð er einnig frestun töku lífeyris til 80 ára aldurs, gegn varanlegri hækkun lífeyris).
  • Boðað er að innleiddur verði möguleiki á að vera í hálfu starfi og á hálfum lífeyri frá og með árinu 2018 (það á eftir að útfæra).

Samhliða þessum breytingum á skipulagi ellilífeyris almannatrygginga var grunnlífeyrir almannatrygginga hækkaður, einkum fyrir þá sem voru með heildartekjur á bilinu 250 til rúmlega 400 þúsund kr. á mánuði.

Hækkanir voru á bilinu 10 þúsund og upp í um 56 þúsund krónur krónur á mánuði fyrir þá sem einkum voru með aðrar tekjur frá lífeyrissjóðum (hækkanir þessar eru fyrir skatt). Þeir sem voru einkum með fjármagnstekjur gátu fengið meiri hækkanir en þetta, en þeir sem voru með umtalsverðar atvinnutekjur samhliða lífeyri fengu talsvert minni hækkanir á greiðslum almannatrygginga um áramótin.

Þeir sem eru með 450 þúsund eða meira í heildartekjur á mánuði fá hins vegar lækkun (vegna þess að grunnlífeyrir sem áður var tæpar 30 þús. kr. og allir fengu óháð tekjum frá lífeyrissjóðum fellur nú niður).

Megin efnisatriði breytinga á kerfinu voru sum sé einföldun, aukinn sveigjanleiki og sérstök hækkun ellilífeyris almannatrygginganna.

 

Kostir breytinganna

Ef við reifum kostina fyrst, þá má fagna bæði einföldun lífeyrisflokkanna og hækkunum á grunni ellilífeyris almannatrygginganna.

Einföldum lífeyrisflokkanna hefur lengi verið á dagskrá og er löngu tímabær.

Markmið einföldunarinnar er að gera kerfið gagnsærra og skiljanlegra fyrir notendur þess. Þessi breyting skilar því að hluta, en kerfið verður samt áfram flókið. Nokkuð er þó vissulega unnið með þessari einföldun.

Hækkun lífeyrisgreiðslnanna er fagnaðarefni, enda varð hún meiri eftir að fráfarandi ríkisstjórn fór höndum um tillögur nefndarinnar sem starfaði að málinu fyrir velferðarráðuneytið.

Það gerðist á lokastigum afgreiðslu Alþingis á lögunum í október síðastliðnum og nærri tvöfaldaði kostnað við breytingarnar. Án inngrips ríkisstjórnarinnar hefði kjarabót breytinganna verið heldur lítilfjörleg fyrir ellilífeyrisþega.

Almennt hljómar það vel að auka sveigjanleika til töku ellilífeyris. Þær breytingar sem gerðar eru nú í þá veru finnst mér hins vegar gallaðar. Aðrar á eftir að útfæra.

Snúum okkur þá að helstu göllunum sem ég tel að fylgi þessum nýju lögum.

 

Gallar breytinganna

Nefndin sem útfærði þessar tillögur fyrir velferðarráðuneytið virðist hafa einblínt um of á það markmið að einfalda kerfið, en lítt hugað að öðrum mikilvægum markmiðum lífeyriskerfa, svo sem því að veita vinnuhvata og hvata til sparnaðar (sjá hér).

 

Frítekjumörk lækkuð – vinnuhvati rýrður

Þetta kom fram í því að nefndin lagði til að öll frítekjumörk yrðu beinlínis aflögð. Áður höfðu verið í gildi frítekjumörk vegna atvinnutekna, fjármagnstekna og vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum.

Frítekjumörk vegna atvinnutekna voru um 109 þúsund krónur á mánuði, þ.e. lífeyrisþegar máttu vinna fyrir þeirri upphæð án þess að það skerti lífeyri þeirra frá almannatryggingum. Önnur frítekjumörk voru mun lægri, sem undirstrikaði mikilvægi vinnuhvatans sem fólst í frítekjumarkinu á atvinnutekjum.

Fyrri nefnd um breytingar á almannatryggingakerfinu hafði þá öndverðu stefnu að hækka öll frítekjumörk, og ekki síst vegna atvinnutekna (sjá hér). Tilhneigingin í seinni tíð hafði verið í þá átt að hækka frítekjumörk almennt og draga með því smám saman úr skerðingum lífeyris almannatrygginga vegna annarra tekna lífeyrisþega. Leyfa fólki þannig að njóta betur ávaxta af eigin vinnuþátttöku og sparnaði (t.d. skyldusparnaði í lífeyrissjóðum o.fl.).

Tillaga nýju nefndarinnar um að leggja af öll frítekjumörk var því afar róttæk breyting í ranga átt, að mínu mati. Raunar mætti hún andstöðu í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þegar á hólminn var komið og var hið almenna frítekjumark upp á 25 þúsund krónur innleitt í lokaafgreiðslu laganna á Alþingi í október – sem var til bóta.

Samt sitja lífeyrisþegar sem stunda launaða vinnu meðfram töku lífeyris almannatrygginga uppi með lækkun frítekjumarksins úr um 109 þúsund í 25 þúsund krónur á mánuði. Það er veruleg rýrnun vinnuhvatans í kerfinu.

Núverandi ríkisstjórn hefur boðað að frítekjumörk vegna atvinnutekna verði hækkuð á kjörtímabilinu og ber að fagna því.

Það er stefna í rétta átt og ætti raunar að leggja af allar skerðingar lífeyris vegna atvinnutekna lífeyrisþega, eins og tíðkast t.d. í Noregi og Svíþjóð.

Að auka vinnuhvata í lífeyriskerfi almannatrygginga verður sérstaklega mikilvægt þegar kemur að því að breyta lífeyriskerfi öryrkja, í framhaldi af þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar á ellilífeyrinum.

 

Skerðingar vegna annarra tekna auknar

Annar galli nýju laganna sem þessu tengist er sú staðreynd að skerðingarhlutföll vegna annarra tekna eru hækkuð umtalsvert, þ.e. þegar aðrar tekjur fara yfir 25 þús. kr. frítekjumarkið. Skerðing var áður mest tæp 39% en fer nú almennt í 45% og fyrir þá sem fá heimilisuppbót skerðist hún til viðbótar um 11,9%. Þetta gildir um allar skattskyldar tekjur utan séreignasparnaðar og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga.

Skerðing vegna annarra tekna getur þannig orðið að hámarki um 56,9% ofan frítekjumarksins. Það er afar mikil skerðing að mínu mati og rífleg hækkun frá því sem áður var. Þetta tel ég vera skref í ranga átt.

Lækkun frítekjumarkanna og hækkun skerðingarhlutfallanna rýra í reynd talsvert þá hækkun sem þó var gerð á lífeyri almannatrygginga með lagabreytingunum um síðustu áramót, einkum fyrir þá sem eru með atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur samhliða lífeyri almannatrygginga.

Nefndin um breytingar almannatrygginga lagði síðan einnig til að réttur til lífeyristöku yrði almennt hækkaður í 70 ár í skrefum á næstu 24 árum. Það er auðvitað skertur réttur almennings og hefði mátt ætla að hann réttlætti meiri kjarabætur til lífeyrisþega en boðaðar voru í skýrslu nefndarinnar, enda sparar slík hækkun lífeyristökualdurs útgjöld kerfisins í framtíðinni.

 

Enginn ætti að fresta töku lífeyris til áttræðs

Tillaga nefndarinnar um að hækka lífeyristökualdur í 70 ára myndi gera Íslendinga að einu þjóðinni í heiminum sem væri með svo háan lífeyristökualdur. Ég hef þó ekki orðið var við neitt sérstakt andóf gegn því, enda fresta margir töku lífeyris allt að 70 ára aldursmarkinu, einkum karlar.

Með hækkun almenna lífeyristökualdursins missa menn þó af þeirri kjarabót sem felst í aukningu réttinda með frestuninni frá 67 til 70 ára aldursins. Það er réttindatap og kemur sérstaklega illa við þá sem hafa snemma byrjað starfsferil og unnið lengst af í erfiðisvinnu hvers konar.

Boðað er að auknir möguleikar á töku hlutalífeyris samhliða vinnuþátttöku verði innleiddir árið 2018 (hálf vinna+hálfur lífeyrir). Það væri hægt að útfæra með vinnuhvata, en liggur ekki enn fyrir, svo óvíst er um áhrif þess ef til kemur. Afnám allra skerðinga vegna atvinnutekna væri þó betra úrræði.

Nefndin og lögin opna einnig á að menn geti frestað töku ellilífeyris alveg til 80 ára aldurs, gegn varanlegri hækkun lífeyris.

Enginn skyldi þó láta sér detta í hug að taka slíku “tilboði”. Meðallífaldur er ekki miklu hærri en 80 ár svo afar miklar líkur væru á því að þeir sem frestuðu töku lífeyris svo lengi fengju lítinn ellilífeyri eftir stritið alla ævina – og umtalsverður fjöldi fengi aldrei ellilífeyri, þrátt fyrir að hafa greitt skatta og í lífeyrissjóði alla starfsævina.

Svona fyrirkomulag þekkist hvergi í heiminum, það er að fresta töku ellilífeyris til áttræðs, enda myndi það í mörgum tilvikum beinlínis fela í sér afsal réttinda til töku ellilífeyris.

 

Afnema ætti allar skerðingar vegna atvinnutekna

Skynsamlegt markmið nú væri að byrja á að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna, eins og núverandi rikisstjórn stefnir raunar að.

Eftir umtalsverða hækkun á því ætti svo að halda áfram og stefna að algjöru afnámi allra skerðinga í almannatryggingum vegna atvinnutekna lífeyrisþega.

Ríkinu dugar alveg að fá skatttekjur af atvinnutekjum lífeyrisþega, bæði ellilífeyrisþega og öryrkja.

Þeir sem hafa allan sinn lífeyri úr lífeyrissjóðum hér á landi mega raunar vinna eins mikið með töku lífeyris og þeir vilja, án þess að lífeyrir þeirra skerðist nokkuð. Það eru fyrst og fremst lífeyrisþegar með lægri tekjur og skert réttindi í lífeyrissjóðum sem eru fórnarlömb skerðinga á lífeyri almannatrygginga vegna atvinnutekna. Þetta fer sérstaklega illa með öryrkja sem stunda launaða atvinnu – en vinnuhvatinn er fáum mikilvægari en einmitt örorkulífeyrisþegum.

Með afnámi allra skerðinga vegna atvinnutekna væri vinnuhvatinn hafður í hámarki og bæði skynsemi og réttlæti fullnægt í opinbera lífeyriskerfinu.

Þjóðarbúið myndi hagnast umtalsvert af hinum aukna vinnuhvata sem þeirri skipan fylgir.


Höfundur er stjórnarformaður Tryggingastofnunar ríkisins. Það skal tekið fram að hann lýsir hér eigin skoðunum en ekki afstöðu TR á neinn hátt.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar abstraksjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar