Þriðjudagur 29.08.2017 - 12:31 - FB ummæli ()

Allt rétt sem ég sagði um skatta

Í gær var birt ný skýrsla ASÍ, Skattbyrði launafólks 1998-2016.

Þetta er mikilvæg skýrsla fyrir almenning, enda sýnir hún hvernig þróun skattkerfisins og velferðarbóta hefur verið óhagstæð lægri og milli tekjuhópum.

Ég hef skrifað mikið um þessi mál á síðusta áratug (sjá t.d. hér og hér) og féll í mikla ónáð hjá Sjálfstæðismönnum og talsmönnum fyrirtækja og fjármála – helstu valdaöflum samfélagsins.

Stofnað var til sérstakrar herferðar gegn skrifum mínum og lagt í viðamikla útgerð til að skaða mannorð mitt, með alls konar lygum og afbökunum.

Ástæðan var sú, að ég sýndi að um leið og skattbyrði hátekju- og stóreignafólks var stórlega lækkuð frá 1995 til 2007 þá var skattbyrði lægri og milli tekjuhópa aukin umtalsvert. Þetta var stjórnvöldum óþægilegt og varpaði skugga á arfleifð Davíðs Oddssonar, sem hafði sagt fólki að ríkisstjórnir hans væru að lækka skatta allra.

Þetta er ömurleg saga sem ég nenni þó ekki að rifja upp núna.

Nú fær ég hins vegar uppreista æru mína því þessi ágæta skýrsla ASÍ endurtekur margar af fyrri niðurstöðum mínum og skýringum sömuleiðis.

Ég átti svo sem alltaf von á að staðreyndirnar kæmust í gegn á endanum!

Inn í skýrslu ASÍ vantar hins vegar umfjöllun sem tengist fjármagnstekjum og áhrifum þeirra á heildarskattbyrði hátekjuhópanna.

Þróun skattbyrðarinnar var nefnilega þannig, að um leið og skattbyrði lágtekju- og millihópa hækkaði fyrir hrun þá stórlækkaði skattbyrði hæstu tekjuhópa, ekki síst fyrir áhrif aukinna fjármagnstekna sem báru mun lægri skatta en atvinnutekjur launafólks.

Vinstri stjórnin 2009-2013 rétti þetta að nokkru leyti af á stjórnartíma sínum, en síðan hefur sigið til sömu áttar á ný.

Nettóþróunin á tímabilinu frá 1998 til 2016 var sú, að milli og lægri tekjuhópar hafa þurft að taka á sig auknar byrðar, langt umfram hæstu tekjuhópana.

Ætla má að þetta nýja innlegg ASÍ um þróun skattbyrðar launafólks (þ.e. um þróun álagningar, presónuafsláttar, vaxtabóta, barnabóta o.fl.) muni koma inn í kjarabaráttu launafólks á næstunni.

Það er ekki nóg að hækka kaup ef aukin skattbyrði og minnkandi stuðningur velferðarkerfisins étur upp ávinning af launahækkunum kjarasamninga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar