Fimmtudagur 26.10.2017 - 17:34 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn snúa baki við séreignastefnu

Sú var tíðin að séreignastefna í húsnæðismálum var ein helsta skrautfjöðrin í stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Það var á eftirstríðsárunum og stóð til þess tíma er nýfrjálshyggjan varð allsráðandi í flokknum.

Séreignastefna í húsnæðismálum höfðaði sérstaklega vel til millistéttarinnar í samfélaginu, sem var mjög vaxandi á þessum árum.

Það skapaði Sjálfstæðisflokknum sterka stöðu og gerði flokknum kleift að ná um 40% fylgi og jafnvel meiru en það í Reykjavík þegar best lét. Aðrir flokkar höfðu enga samsvarandi áherslu í húsnæðismálum sem gekk jafn vel í jafn  stóra hópa kjósenda.

Enda féll séreignastefnan vel að sjálfstæðislínunni og gömlu áherslunni á slagorðið “stétt með stétt”. Það var þá.

Eftir að tími Davíðs og nýfrjálshyggjunnar rann upp, einkum frá og með 1995, breyttist þetta allt saman.

Flokkur Davíðs og Hannesar hafði einkum áhuga á óheftum markaði og hagsmunum yfirstéttarinnar. Millistéttin var ekki lengur sérstakt viðmið og markmið – heldur fjárfestar og fyrirtækjamenn.

Í samræmi við það hafa Sjálfstæðismenn í seinni tíð barist gegn öllum ríkisafskiptum af húsnæðismarkaði og beinlínis grafið undan opinberum stuðningi við kaup ungs fjölskyldufólks á íbúðarhúsnæði.

Þetta kemur hvað best fram í þróun þess stuðnings sem stjórnvöld hafa veitt ungu fólki til húsnæðiskaupa með greiðslu vaxtabóta, sem í reynd niðurgreiða óhóflegan vaxtakostnað vegna íbúðakaupa.

Þessa þróun má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir hve stór hluti vaxtabætur voru af vaxtakostnaði heimila. Þetta er góð vísbending um breytilegan stuðning stjórnvalda á þessu sviði.

Mynd 1: Stuðningur stjórnvalda við kaup ungs fólks á íbúðarhúsnæði Niðurgreiðsla vaxtakostnaðar vegna íbúðakaupa. (Heimild: Hagstofa Íslands)

 

Myndin sýnir hvernig opinber stuðningur minnkaði frá ári til árs á Davíðs-tímanum, frá 1996 til 2007. Fór frá því að ríkið greiddi um 27% af vaxtakostnaði að meðaltali niður í 13% árið 2007.

Lágtekjufólk fékk meira en meðaltalið, því vaxtabæturnar voru og eru tekju- og eignatengdar. Þetta hefur því verið sérstaklega mikilvægur stuðningur við ungt fjölskyldufólk sem oft er í lægri og milli tekjuhópum.

Vaxtabæturnar gerðu fleirum kleift að eignast íbúðarhúsnæði og hafa virkað afar vel (sjá hér).

Vinstri stjórn Samfylkingar og VG stórjók svo vaxtabæturnar frá 2009 til 2012, til að létta ofurþungri skuldabyrði af heimilunum í kreppunni, í kjölfar nýfrjálshyggjuhrunsins.

Stuðningurinn hefur svo farið hraðminnkandi frá 2013 til 2016, eftir að Sjálfstæðismenn komust aftur til valda.

Árið 2016 var þessi stuðningur við íbúðakaup ungs fjölskyldufólks orðinn minni en nokkrum sinnum fyrr, eftir að vaxtabótakerfið kom til sögunnar, eða einungis um 7% af vaxtakostnaði.

Á sama tíma er húsnæðisverð orðið hærra en nokkrum sinnum fyrr! Pælið í því…

 

Hverjir styðja nú séreignastefnu og húsnæðismál ungs fólks?

Miðað við ofangreind gögn er ljóst að Samfylkingin og VG snéru algerlega við stefnu Sjálfstæðisflokksins á þessu sviði, frá 2009 til 2012.

Í kosningabaráttunni nú hefur Samfylkingin lofað að tvöfalda vaxtabætur og barnabætur og sýnt vilja til að efla einnig stuðning við leigjendur. VG boða svipaða línu.

Sjálfstæðisflokkurinn skilar hins vegar auðu – að mestu leyti.

Í staðinn eru hin “frjálsu” leigu- og braskfélög markaðarins í sérstöku uppáhaldi hjá Sjálfstæðisflokknum, en það eru einmitt þau sem hafa keyrt upp húsnæðisverð og leigu úr öllu hófi (t.d. Gamma Capital ehf. og Almenna leigufélagið).

Sjálfgræðisstefna Sjálfstæðisflokksins nær sem sagt nú orðið einungis til yfirstéttarinnar – en millistéttin er úti í kuldanum.

Þarna er því heilmikið tækifæri fyrir velferðarflokkana á vinstri væng og miðju til að hasla sér völl á þessu sviði.

Viðhorfakannanir sýna að þeir sem leigja gera það oftast af illri nauðsyn og þá til skemri tíma. Þegar börn koma til sögunnar verður fýsilegra að eiga.

Öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði mun því áfram vera lykilþáttur í velferð ungs fjölskyldufólks.

Þeir stjórnmálaflokkar sem styðja kröftuglega viðleitni til að koma sér þaki yfir höfuðið munu uppskera víðtækan stuðning kjósenda í framtíðinni – og kanski líka á laugardaginn!

 

Síðasti pistill:   Skattbyrði tekjuhópa frá 1992 til 2015

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar abstraksjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar