Miðvikudagur 22.11.2017 - 11:28 - FB ummæli ()

Kaupþingslánið: Hvers vegna var það veitt?

Hið fræga símtal Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde veitir engin svör við því, hvers vegna þetta umdeilda lán var veitt.

Raunar gerir símtalið það enn tortryggilegra, vegna þess að í símtalinu kemur fram að það hjálpi Kaupþingi einungis í 4-5 daga og að Davíð telji engar líkur á að það fáist endurgreitt (sjá hér).

Veð í dönskum fjárfestingabanka í yfirstandandi fjármálakreppu hlaut að vera ótraust. Enda stóð sá banki þá þegar á brauðfótum eins og margir fjárfestingabankar og síðar var hann leystur upp.

Seðlabankinn mátti á endanum þakka fyrir að fá einhver verðmæti út úr þessu veði – en þjóðin tapaði þó um 30 milljörðum þegar upp var staðið.

Lánveitingin var ákveðin í þessu símtali nærri hádegi mánudaginn 6. október. Geir flutti hrunræðuna í sjónvarpi um fjórum stundum síðar. Neyðarlögin voru sett um kvöldið. Landsbankinn var fallinn fyrir opnun daginn eftir.

Menn voru búnir að sitja maraþonfundi í Ráðherrabústaðnum alla helgina á undan til að leita leiða til að bjarga bönkunum. Niðurstaðan á sunnudagskvöld var sú, að ekkert væri hægt að gera. Hrunið var þá orðið fyrirséð, enda undirbúningur að setningu neyðarlaganna þegar hafinn.

Ef menn lesa ræðu Geirs Haarde þá er líka algerlega óskiljanlegt að það skuli hafa verið til umræðu fyrr um daginn að veita þetta lán (sjá ræðuna hér).

Hvers vegna henda menn um 80 milljörðum króna inn í hít væntanlegs bankahruns – ef ljóst er að það bjargar engu, heldur frestar falli Kauþings í besta falli um 4-5 daga?

Þetta var restin af gjaldeyrisforða þjóðarinnar, andvirði nýs Landsspítala og Sundabrautar segir Geir í símtalinu. Engir smá peningar. Og það var brýn þörf fyrir þessa peninga í annað.

Í framhaldinu var t.d. óvíst hvort hægt væri að flytja nauðsynjar til landsins (lyf, eldsneyti o.fl.) – einmitt vegna gjaldeyrisskorts.

Ef þessu fé hefði ekki verið kastað á bálið hefði neyðarlánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og hinum norrænu þjóðunum ekki þurft að verða jafn stórt.

Hvers vegna var þetta lán þá veitt, með þeim hætti sem varð?

Símtalið veitir engin svör við því. Það gerir þennan gjörning reyndar enn óskiljanlegri en hann var fyrir. Þetta var ákvarðanataka í fáti og fumi, eins og það birtist í símtalinu.

Var þetta til að kaupa tíma? Og þá fyrir hverja? Og til hvers?

Það er aldrei rætt hvert þessir peningar áttu að fara. Hvernig þeir áttu að skipta máli í bankanum? Hvaða mikilvæga hlutverki þeir áttu að gegna? Hverju þeir áttu að bjarga?

Það hefur heldur aldrei verið skýrt með fullnægjandi hætti hvar þessir peningar enduðu.

Af hverju er það ekki gert? Þetta var fé almennings.

Það á að vera hægt að rekja allar greiðslufærslur frá Kaupþingi þessa örlagaríku daga…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar abstraksjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar