Mánudagur 21.05.2018 - 11:14 - FB ummæli ()

Hattarnir og hástéttin í Bretlandi

Konunglegt brúðkaup í Bretlandi er mikil veisla – fyrir háa sem lága.

Á laugardag voru það Harry og Meghan sem gefin voru saman í Windsor kastala. Ung og ástfangin og allt í fína með það.

Ég fylgdist með útsendingum í sjónvarpinu og hafði gaman að, þó ég sé enginn aðdáandi bresku konungsfjölskyldunnar né annars kóngafólks.

Það er bara gaman að upplifa fjölbreytileika mannlífsins – og í Bretlandi er það stéttaskiptingin sem er hvað athyglisverðust.

Konungleg brúðkaup eru eins og leikhúsverk um stéttaskiptinguna í Bretlandi. Allir ættu að sjá þessa sýningu í Windsor – frá byrjun til enda (hér).

Það er nefnilega mjög mikil stéttaskipting í Bretlandi, að minnsta kosti í samanburði við Ísland. Ég kynntist því allvel á námsárunum.

Breska stéttaskiptingin er ekki bara um muninn á ríkum og fátækum – sem þó er mjög mikill – heldur snýst hún líka um skiptingu þjóðarinnar í æðra og óæðra fólk. Þá sem hafa “status” og hina sem eru ekkert eða því sem næst.

Það er arfleifð frá konunga- og aðalsveldi miðaldanna.

Í Bretlandi er fátt mikilvægara en einmitt að sýna stétt og stöðu sína í samfélaginu – hvort maður tilheyri háum eða lágum.

Þeir ríku sýna ríkidæmi sitt með óðalssetrum í sveitum, glæsivögnum (Rolls Royce bílum, Bentley, Jagúar, Range Roverum o.s.frv.), hestum og refaveiðum, svo dæmi séu tekin.

En það er þó ekki nóg. Nánari stöðutákn eru líka kölluð til. “Status symbol” svokölluð.

Eitt mikilvægt stöðutákn er tungumálið. Allir þekkja muninn á yfirstéttar-ensku og alþýðu-ensku. En fleira kemur til.

Hattar eru til dæmis mikilvægt stöðutákn í bresku samfélagi.

Bowler hattar og pípuhattar hafa lengst af verið tákn yfirstéttarkarla.

Allir alvöru fjármálamenn í City í London gengu til langs tíma með Bowler hatta á virkum dögum og pípuhatta um helgar (á kappreiðum og héraðsmótum). Annars voru þeir núll og nix!

En konurnar í yfirstéttinni slá hins vegar öll met í skrautleika hattanna – ekki síst þegar kemur að konunglegum brúðkaupum. Þar ná hattasýningar þeirra hámarki.

Veislan í Windsor var með þeim bestu fyrr og síðar.

Og allir í hátíðarskapi – nema Victoría Beckham!

 

Páfuglar og smáfuglar

Að horfa á brúðkaupið í Windsor var svolítið eins og að horfa á skrautlega dýralífsmynd eftir David Attenborough.

Myndir af mökunar-hegðun páfugla kom upp í hugann.

Konurnar í hópi boðsgesta, sem voru auðvitað fyrst og fremst úr yfirstéttinni, kepptust við að skarta sem ævintýralegustum höfuðbúnaði. Með sperrtar fjaðrir og annað glingur. Hér eru smá dæmi…

Höfuðbúnaðurinn verður að vonum skrautlegur í meira lagi þegar mikið stendur til, rétt eins og í dýraríkinu hjá David Attenborough.

Sumt er smart og smekklegt en annað getur orðið svona og svona…

En allt er það skrautlegt og yfirleitt til marks um merkilegheit.

Hjá sumum þeim sem standa næst drottningunni og eldra aðalsfólki er hins vegar mjög sérstakur leikur í gangi, sem snýst um að vera með afkáranlegasta hattinn.

Elísabet drottning leggur gjarnan línuna í þeirri keppni. Oft með því að tjalda litríkum lampaskermum með álímdu ávaxtaskrauti – hún hefur sinn stíl segja menn.

Camilla Parker Bowles (verðandi drottning) reynir iðulega að slá drottningunni við í furðulegheitum. Hún skorar oft glæsilega.

Svo er hún líka hugmyndarík og ráðagóð, eins og þegar hún tók gamla bláa skúringamoppu og setti öfuga á kollinn – og sló í gegn!

Hún er mitt uppáhald í þessari fjölskyldu…

 

Svart og hvítt í eina sæng

Það sætir líka tíðindum í þessu skemmtilega brúðkaupi að kvonfang Harrys er af svörtum rótum runnin. Þess sá líka merki í kapellunni.

Þar var menningu svartra Bandaríkjamanna gerð góð skil, með frábæru tónlistarfólki úr þeirra átt og svo kom hinn stórkostlegi svarti eldklerkur sem talaði af jafnvel enn meiri innlifun og ástríðu en Marteinn Lúter King.

Ég hygg að það hafi farið um margan aðalsmanninn í kapellunni þegar klerkurinn talaði um að við ættum öll að hafa ástina að leiðarljósi í lífinu – svo mannkynið yrði þar með eins og ein fjölskylda.

Það er nú ekki beint í samræmi við hugmynd bresku yfirstéttarkarlanna um samfélag. Í huga þeirra er fátt mikilvægara en stór og breið gjá milli fjölskyldna yfir- og undirstétta;  milli æðri og óæðri;  milli páfugla og smáfugla; milli svartra og hvítra.

Hvað um það! Harry og Vilhjálmur eru meira synir Díönu prinsessu en Karls prins. Strákarnir hennar eru föðurbetrungar. En eins og menn muna þá var Díana full nútímaleg fyrir gömlu stemminguna í höllinni.

Þess vegna var Camilla aftur kölluð til verka.

En áfram þokast tíminn og þá heldur meira í rétta átt. Meghan kemur sennilega með góða blöndun inn í konungsfjölskylduna og er það vel.

En gamli tímann verður þó áfram við völd í höllinni. Camilla sér um það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar