Þriðjudagur 10.07.2018 - 11:03 - FB ummæli ()

Samband fjármálavæðingar, ójafnaðar og hruns

Hrunið 2008 var klassísk fjármálakreppa sem kom í kjölfar óvenju viðamikils bóluhagkerfis (sjá umfjöllun um það hér). Bólan sprakk vegna þess að fjármálakerfið hafði safnað svo miklum erlendum skuldum að ekki var við ráðið.

En hvers vegna gerðist það?

Rótin að tilurð bóluhagkerfisins og því gríðarlega óhófi sem þá tíðkaðist liggur í fjármálavæðingunni (financialization).

Fjármálavæðing sprettur af auknu frelsi á fjármálamörkuðum og ónógu aðhaldi eftirlitsaðila (Seðlabanka og Fjármálaeftirlits) og stjórnvalda.

Fjármálavæðing felst í auknu vægi fjármálageirans, hann fær stærra hlutverk og tekur til sín stærri hluta af umsvifum efnahagslífsins. Því fylgir aukið vægi hlutabréfa- og verðbréfamarkaða og verulega aukin spákaupmennska með lánsfé.

Fjármálavæðing gefur af sér mikinn vöxt fjármagnstekna eða eignatekna (financial/capital incomes), en þær koma að langmestu leyti í hlut hátekjuhópanna. Þannig var það alls staðar á Vesturlöndum.

 

Einstakur vöxtur fjármagnstekna

Myndin hér að neðan sýnir vöxt fjármagnstekna í íslenska þjóðarbúinu frá 1992 til 2015, sem var gríðarlegur.

Mynd 1: Fjármagnstekjur sem hlutfall allra framtaldra tekna, 1990 til 2015. (Heimild: Ríkisskattstjóri)

 

Fjármagnstekjur voru alls um 2% allra framtaldra tekna árin 1994-1995 og hækkuðu upp í nærri 25% á toppi bóluhagkerfisins árið 2007.

Þetta var mikil aukning og mun meiri en sást í öðrum vestrænum löndum á þessum tíma – enda var stærð íslenska bóluhagkerfisins einstök.

Stærstu hlutar fjármagnstekna voru söluhagnaður hlutabréfa og annarra eigna, sem tengdist spákaupmennskunni (braskinu), en síðan komu arðgreiðslur úr fyrirtækjum, vaxtatekjur og leigutekjur.

Fjármagnstekjur báru einungis um 10% tekjuskatt (þ.e. fjármagnstekjuskatt) fram að hruni á meðan atvinnutekjur vinnandi fólks og lífeyristekjur báru mun hærri tekjuskatt.

Fjármagnstekjur nutu sem sagt mikilla skattfríðinda – og gera raunar enn (samanber umfjöllun í bókinni Ójöfnuður á Íslandi).

 

Fjármálavæðingin: Einkamál hátekjuhópanna

Fjármagnstekjurna komu fyrst og fremst í hlut tekjuhæstu tíu prósentanna, eignamesta fólksins í landinu. Vöxtur þeirra snerti nær eingöngu hátekjuhópana, eins og sýnt er á mynd 2 hér að neðan.

Mynd 2: Hlutur fjármagnstekna af heildartekjum hátekjuhópa (tekjuhæstu tíu prósentin og hæsta eina prósentið), í samanburði við hin 90 prósentin (allan þorra almennings). (Heimild: Ójöfnuður á Íslandi 2017).

 

Hjá tekjuhæsta eina prósentinu voru fjármagnstekjur tæp 10% árið 1995 en fóru upp í um 80% árin 2005 til 2007. Lækkuðu síðan eftir hrun (niður í um 30% árið 2011), en eru að nálgast helming á síðustu árum.

Hjá tekjuhæstu tíu prósentunum fóru fjármagnstekjur frá um 3% árið 1995 upp í tæp 50% árið 2007.

Hjá öllum þorra almennings, öðrum en tekjuhæstu tíu prósentunum, voru fjármagnstekjur yfirleitt á bilinu 2-8% af heildartekjum til skatts á öllu tímabilinu.

Fjármálavæðingin og vöxtur fjármagnstekna var því sem næst einkamál hátekjuhópanna. Og þær tekjur nutu mikilla skattfríðinda að auki, umfram atvinnutekjur venjulegs vinnandi fólks.

Þannig jók fjármálavæðingin ójöfnuð tekna stórlega á áratugnum fram að hruni.

Mat okkar Arnaldar Sölva Kristjánssonar, í bókinni Ójöfnuður á Íslandi, er að fjármálavæðingin skýri um tvo þriðju af ójafnaðaraukningunni til 2008, en breytt skatta- og velferðarstefna skýri um þriðjung af aukningu ójafnaðarins.

 

Frá fjármálavæðingu til hrunsins

Fjármálavæðingin var drifin áfram af skuldasöfnun, einkum erlendum skuldum en einnig skuldum við lífeyrissjóði almennings.

Það var þessi skuldasöfnun sem á endanum felldi bankakerfið og skildi stóran hluta atvinnulífsins eftir tæknilega gjaldþrota. Fyrirtækjum og fjármálastofnunum var drekkt í skuldum.

Til stærsta hluta þeirra skulda var stofnað vegna eignabrasks yfirstéttarinnar í landinu, tekjuhæstu tíu prósentanna.

Almenningur bar svo mestu byrðarnar af kreppunni sem kom í kjölfar hrunsins.

Braskið eða spákaupmennskan snérist um að komast yfir verulegar eignir (hlutabréf o.fl.) er gáfu af sér verulegar fjármagnstekjur á stuttum tíma, þegar hlutabréfavísitalan blés út, sem og önnur eignaverð.

Þannig var sambandið milli fjármálavæðingarinnar, aukins ójafnaðar og hrunsins á Íslandi.

Þetta þurfa allir að skilja, svo varast megin endurtekningu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar