Mánudagur 10.12.2018 - 17:33 - FB ummæli ()

Þjóðin vill ríkiseign banka

Í skýrslu nefndar fjármálaráðherra um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er ein sérstaklega athyglisverð niðurstaða, sem kom úr Gallup könnun meðal almennings (frá október 2018).

Spurt var: „Hversu jákvæður eða neikvæður ertu gagnvart ríkinu sem eiganda banka?“

Um 61% sögðu jákvæð, 25% voru hlutlaus og einungis 14% voru andvíg ríkiseign banka.

Ef einungis er litið til þeirra sem taka afstöðu eru það 81% sem eru jákvæð gagnvart ríkiseign en tæp 19% eru neikvæð.

Það er því stór meirihluti almennings sem styður ríkiseign banka.

Nefndin er þó augljóslega að reka það erindi í skýrslunni að ríkið selji Íslandsbanka í heilu lagi og tvo þriðju af Landsbankanum (ríkið verði minnihlutaeigandi Landsbankans).

Sett er fram alls konar kjaftæði til að réttlæta það (erlendir aðilar komi þar að, samkeppni aukist, hagræðing aukist, vextir lækki…).

Svona var líka talað þegar bankarnir voru seldir á árunum 2000-2003.

Menn muna hvernig aðkomu erlendra aðila var háttað þá (sbr. Hauck & Aufhäuser)!

Þetta er líklega það sem fjármálaráðherra lagði fyrir nefndina að gera. Allir vita um áhuga hans á að bankarnir verðir seldir einkaaðilum.

 

Ríkið er betri eigandi – segir almenningur

Þær ástæður sem svarendur í könnuninni nefna helstar fyrir afstöðu sinni eru að ríkið sé betri eigandi banka, það sé meira traustvekjandi, arðurinn fari til okkar, minni líkur séu á spillingu og græðgi og að illa fari.

Menn muna auðvitað að ríkið átti Landsbankann í 117 ár án þess að hann færi á hausinn en eftir einkavæðingu 2003 liðu einungis um 5 ár áður en einkaaðilarnir voru búnir að reka hann og aðra banka í þrot, sem var svo stórt að nærri heimsmeti gekk.

Reynslan af einkaeign banka er sem sagt arfaslæm á Íslandi – beinlínis baneitruð.

Menn hafa líka séð hversu miklum arði ríkisbankarnir skila til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar (207 milljarðar á sl. 5 árum – sjá hér).

Pælið í því!

Hrægamma í Valhöllu fýsir nú að fá þennan góða arð í einkavasa.

Þjóðin þarf að vera á varðbergi svo gammarnir hirði ekki þennan væna bita af almenningi.

 

Síðasti pistill:  Ójöfnuður eykst á ný

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar