Miðvikudagur 20.05.2020 - 13:14 - FB ummæli ()

Bjartsýna sviðsmyndin fyrir Ísland

 

Við erum náttúrulega í talsverðri óvissu um framhaldið, bæði framvindu veirufaraldursins og efnahagslífsins.

Samt spá menn í þróun hagvaxtar og atvinnuleysis næstu mánuði og misseri, jafnvel upp á prósentubrot.

Bankar, hagsmunasamtök og opinberar stofnanir hafa sett fram formlegar spár um þetta fyrir árið og það næsta.

Útkomurnar eru nokkuð breytilegar – raunar mjög breytilegar.

Þau svartsýnustu spá allt að 18% samdrætti þjóðarframleiðslu á árinu en þau bjartsýnni eru nær 7-9%.

Erlendis óttast svartsýnismenn að kreppuþróunin geti orðið eftirfarandi: Heilsukreppa> Efnahagskreppa> Fjármálakreppa.

Eftir að sóttvörnum lýkur ríki djúp efnahagskreppa sem gæti leitt af sér enn meiri skuldavanda en þegar var orðinn, sem geti svo af sér greiðsluþrot banka og stjórnvalda í fjármálakreppu, bæði í þróunarlöndum og í hagsældarríkjunum (sjá hér).

Þá færi sannarlega allt á versta veg, með langvarandi og ófyrirséðum afleiðingum.

Undirstöður alþjóðlega kapítalismans eru veikari en menn grunaði. Þetta þarf þó ekki að fara á alversta veg.

En ef við beinum sjónum eingöngu að Íslandi þá sýnist mér að svigrúm sé fyrir nokkra bjartsýni – þrátt fyrir allt.

 

Ýkjur Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins (SA)

Þegar svartsýnasta spáin er skoðuð, sú sem kom nýlega frá Viðskiptaráði og SA upp á 18% samdrátt í ár, þá virðist hún byggð á veikari forsendum en hófsamari spárnar (sjá hér).

Þar gætir kanski líka þess að þetta eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem eru að þrýsta á stjórnvöld um styrkveitingar og aðstoð til fyrirtækja.

Þau sjá sér hag í að dekkja myndina til að auka slagkraft sinn á bónbjargarveginum sem liggur til ríkisins – sem þau sjá þó gjarnan í líki andskotans í venjulegu árferði!

Við höfum því ríka ástæðu til að hafna spá Viðskiptaráðs og SA.

Landsbanki, Íslandsbanki og fjármálaráðuneytið hafa spáð djúpri en skammvinnri samdráttarkreppu, upp á í kringum 9%. Góður vöxtur taki svo við strax á næsta ári. Atvinnuleysið gæti þó orðið að meðaltali allt að 11% á árinu, segja þau.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði spáð 7,2% samdrætti og meðalatvinnuleysi um 8% í ár. Hann spáði líka mjög örum uppgangi á næsta ári, eða allt að 6% hagvexti og að atvinnuleysi fari þá niður í um 7% hér á landi.

Seðlabankinn er með nýja spá 20. maí og gerir þar ráð fyrir 8% samdrætti á árinu og góðum vexti á næsta ári – og er þar í takti við hinar hófsamari spárnar.

Ég held að forsendur þessara hófsamari spáa eða sviðsmynda séu líklegri til að rætast.

Það kemur meðal annars í ljós þegar við förum betur ofaní nærmyndina á Íslandi.

 

Ísland: Almenn kreppa breytist í kreppu ferðaþjónustunnar

Eftir vel heppnaðar sóttvarnaraðgerðir erum við að opna atvinnulífið – skref fyrir skref. Þegar er farið að draga úr atvinnuleysi, samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar.

Atvinnuleysi fór í 17,8% í apríl (samtals á atvinnuleysisskrá og í hlutabótaleið). Á fyrstu tveimur vikunum í maí fækkaði um 7500 manns í hlutabótaleið (sjá hér). Það mun halda áfram.

Vinnumálastofnun spáir nú að atvinnuleysi í maí fari niður í 14,8%.

Með enn meiri opnun fer atvinnuleysis síðan neðar. Gæti orðið á bilinu 10-12% í júní og síðan lækkað frekar.

Það sem gerist er að með meiri opnun fer meginhluti atvinnulífsins aftur á þokkalegt ról. Ekkert góðæri en starfsemi ætti víða að vera alveg viðunandi.

Ferðaþjónusta og greinar beintengdar henni verða áfram í vanda, raunar í sérstöðu. Skoðum það nánar í samhengi.

Á myndinni hér að neðan má sjá samhengi ferðaþjónustunnar í atvinnulífinu á Íslandi, út frá skiptingu vinnuafls milli atvinnugreina (heimild: Hagstofa Íslands).

Í lok árs 2019 var ferðaþjónusta og tengdar greinar með um 14,4% af vinnuaflinu á Íslandi. Það hafði lækkað lítillega frá 2018. Gisti- og veitingastaðir voru með um 7,5% vinnuaflsins.

Um 85% vinnandi fólks var í öðrum greinum en ferðaþjónustu. Megnið af því fólki ætti að geta verið í þokkalegri stöðu. Stærstur hluti íslenska atvinnulífsins ætti því að geta verið kominn á þokkalegan skrið í sumar.

En ef ferðaþjónusta og tengdar greinar verða áfram í djúpri kreppu eigum við þá að búast við að allt starfslið þeirra greina, 14-15% vinnuaflsins, verði áfram atvinnulaust, eins og svartsýnustu spárnar gera ráð fyrir?

Nei, það er ólíklegt og órökrétt.

Ferðaþjónusta og tengdar greinar munu ekki deyja alveg út.

Íslendingar munu nota einhvern hluta ferðaþjónustu og veitingastaða í sumar og síðan losnar smám saman um flug milli landa. Einhver hluti ferðaþjónustunnar mun hafa einhverja starfsemi í sumar. Ríkisstuðningurinn mun einnig tryggja það.

Annað sem léttir róðurinn er eftirfarandi:

Í venjulegu árferði stólar ferðaþjónustan í stórum stíl á erlent skammtímavinnuafl. Allt að helmingur starfsfólks á hótelum, veitingastöðum og bílaleigum er af þeim toga.

Það sem meira er, stór bylgja af erlendu skammtímavinnuafli hefur á síðustu árum verið flutt til landsins í mars til maí til að vinna við ferðaþjónustuna á háannatímanum. Síðan hverfur drjúgur hluti þess fólks aftur á brott yfir vetrartímann.

Það fólk hefur ekki komið inn til landsins núna í vor og því þarf ekki að greiða þeim atvinnuleysisbætur í sumar.

Með öðrum orðum, atvinnuleysisvandinn tengdur ferðaþjónustu verður ekki eins stór og hefði orðið ef kreppan hefði byrjað í júlí eða ágúst. Þetta léttir róðurinn í sumar.

Mikil not ferðaþjónustunnar á erlendu skammtímavinnuafli endurspeglar mikinn sveigjanleika sem gerði þann ofurvöxt sem varð hér í ferðaþjónustu á skömmum tíma mögulegan.

Ferðaþjónusta er viðkvæm atvinnugrein og ekki heppileg undirstaða atvinnulífs í of mikilli stærð. Við blasir að hún mun dragast saman til skemmri tíma og sennilega er skynsamlegt að hafa meira hóf á vexti hennar í framtíðinni.

Því þarf nú að flytja vinnuafl þaðan að einhverju leyti til annarra greina, með skynsamlegri atvinnustefnu, eins og ASÍ hefur bent á (sjá hér)

 

Þetta verður viðráðanlegt

Ef allt ferð á besta veg og veiran losar tökin á heimshagkerfinu þá gæti atvinnuleysi hér verið komið niður í 6-8% í haust.

En ef veiran nær sér á nýtt flug með haustinu, hér eða í heiminum almennt, þá getur þetta auðvitað orðið verra.

Læknar segja þó að nýr farandur verði viðráðanlegri í heilbrigðiskerfinu, meðferð hafi batnað með aukinni þekkingu og einhver lyf finnast sem að gagni koma. Úr dánarlíkum dregur.

Það verður því varla þörf fyrir jafn víðtækar lokanir í seinni bylgju faraldursins.

Á næsta ári gæti bólusetning komið til sögunnar og gjörbreytt stöðunni til hins betra – jafnvel leyst vandann meira og minna.

Á Íslandi er augljóslega útlit fyrir þokkalega endurreisn í sumar og vonandi enn frekar á næsta ári.

 

Síðasti pistill: Vaxandi kreppur kapítalismans

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar