Þriðjudagur 23.06.2020 - 22:09 - FB ummæli ()

Bandaríkin: Hnignandi heimsveldi?

Fyrir um þremur árum skrifaði bandaríski stjórnmálafræðingurinn Richard Haass bókina World in Disarray (Heimsskipan í upplausn).[1] Þar færði hann margvísleg rök fyrir því að staða Bandaríkjanna sem forysturíkis í heiminum hafi veikst. Heimsskipanin sem mótaðist í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar, öðru fremur undir forystu Bandaríkjanna og vestrænna samherja þeirra, væri nú í vaxandi upplausn.

Í tíð Trump-stjórnarinnar hafa Bandaríkin svo dregið sig enn meira út úr virkri þátttöku í alþjóðasamfélaginu og hirt lítt um langtíma samherja, hvort sem er á vettvangi NATO, Sameinuðu þjóðanna, eða annarra alþjóðlegra samstarfs- og samráðsstofnana. Þessu fylgir aukið tómarúm sem skapar meiri tækifæri fyrir ólýðræðisleg stjórnvöld, eins og Kína og Rúsland o.fl., til að gera sig fyrirferðameiri á alþjóðavettvangi.

Alþjóðlega samráðskerfið virkar ekki eins vel og oft áður. Samt eru einstök þjóðríki nú meira háð alþjóðlegum áhrifaöflum vegna alþjóðavæðingarinnar. Geta til að taka á sameiginlegum vandamálum, svo sem hnattrænni hlýnun, hættulegum smitsjúkdómum, fjármálakreppum, hryðjuverkum og alþjóðlegum glæpum hefur rýrnað að sama skapi.

Í apríl síðastliðnum og nú í byrjun júní hefur Richard Haass skrifað greinar í tímaritið Foreign Affairs þar sem hann fjallar enn frekar um þessi mál og hvernig Covid-19 faraldurinn og efnahagskreppan sem honum fylgir hefur áhrif á þessa undirliggjandi þróun sem hann fjallaði um í ofangreindri bók sinni (sjá t.d. hér).

Oft hafa djúpar kreppur, eins og sú sem nú gengur yfir, verið rótin að breyttri stefnu í heiminum. Þannig leiddi seinni heimsstyrjöldin í kjölfar Kreppunnar miklu til nýrrar heimsskipanar á alþjóðavísu (valdajafnvægi í kalda stríðinu), sem og nýrrar skipanar þjóðmála innan vestrænna landa (einkum með tilkomu blandaða hagkerfisins og vexti velferðarríkisins). Richard Haass á ekki vona á slíkum grundvallarbreytingum núna, heldur því að undirliggjandi þróun í heimskerfinu muni áfram vera á sömu upplausnarleiðinni – en þó á meiri hraða en áður.

Lakur árangur Bandaríkjanna í glímunni við veiruna, víðtæk mótmæli vegna kynþáttamisréttis, óreiðukennd stefna og vægast sagt óvenjulegir starfshættir ríkisstjórnar Donalds Trump hafa orðið Bandaríkjunum álitshnekkir, sem veikir stöðu þeirra á heimsvettvangi enn frekar, segir Haass. Hugsanlega gætu Bandaríkjamenn tekið sig á og breytt um kúrs, en það verður hægara sagt en gert. Demókratar virðast heldur ekki til stórræðanna um þessar mundir.

En Haass talar einnig um að bandaríska samfélagsmódelið njóti almennt minnkandi aðdáunar í heiminum og að það veiki einnig stöðu þeirra sem heimsveldis. Rótgróin mannréttindabrot gegn svörtum og veikt velferðarkerfi tengjast miklum samfélagsmeinum sem aðrar vestrænar þjóðir hafa leyst með betri árangri en Bandaríkin. Covid-veiran hefur svo opinberað þessa veikleika enn frekar en áður var – með meiri smithættu og hærri dánartölum svartra og fátækra almennt.

Þetta er allt í beinni útsendingu fyrir heiminn allan að sjá og það lítur ekki vel út fyrir Bandaríkin, segir Richard Haass.

Fleiri nafntogaðir fræðimenn hafa nýlega fært rök í þessa veru, svo sem Francis Fukuyama, Joseph Stiglitz, Daron Acemoglu, Joseph S. Nye og Christopher R. Hill (sjá nýlegar greinar í Foreign Affairs og á Project Syndicate).

 

Fölnandi fyrirmynd – misheppnuð samfélagsstefna

Bandaríkin voru almennt talin fyrirmyndarríki á fyrstu áratugunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Þau voru helstu sigurvegarar stríðsins, kyndilberi vestræns lýðræðis, frjálsra viðskipta og hagsældar fyrir alla; rísandi millistéttarsamfélag sem veitti almenningi og innflytjendum tækifæri til að bæta hag sinn og komast áfram í lífinu.

Ameríski draumurinn stóð fyrir þá ímynd.

Upp úr 1980 fór nýfrjálshyggjan að breiðast út, en hvergi var henni fylgt jafn langt og í Bandaríkjunum. Sú stefna var umtalsvert frávik frá þjóðfélagssáttmála eftirstríðsáranna og jók hún ójöfnuð og veikti velferðarríkið enn frekar. Í stað þess að hagvöxturinn færi í að bæta hag allra rann hann nú að stærstum hluta til fámennrar ofurríkra yfirstéttar, sem einnig naut aukinna skattalækkana um leið og skuldir hins opinbera og alþýðuheimila jukust. Ekkert lát er á þeirri þróun, eins og Thomas Piketty og félagar hafa sýnt.

Blár skuggi féll á ameríska drauminn.

Nýfrjálshyggjan varð síðan í vaxandi mæli hluti af alþjóðavæðingunni sem tengd hefur verið hnignun iðnaðar í vestrænum ríkjum, aukinni fjármálavæðingu og óstjórn í fjármálakerfum (með aukinni hættu á fjármálakreppum) og vexti skattaskjóla. Þetta hefur allt falið í sér aukinn ójöfnuð, aukna skuldasöfnun og veikara ríkisvald í mörgum löndum (sjá t.d. hér).

Bandaríkin eru auðvitað enn mesta herveldi plánetunnar og búa enn að miklum efnahagslegum styrk, þó þeim gæðum sé meira misskipt en annars staðar á Vesturlöndum. Vegna stærðar sinnar er Kína hins vegar nú þegar komið með stærri hluta heimsframleiðslunnar en Bandaríkin. Því fylgir aukið pólitískt og samfélagslegt vægi í heiminum. Kína er þó ekki freistandi fyrirmynd vestrænna lýðræðissinna né norrænna velferðarsinna

Eftir því sem samfélagsmeinin í Bandaríkjunum hafa orðið sýnilegri hefur staða Bandaríkjanna sem fyrirmyndarríkis og heimsveldis orðið léttvægari, segja ofangreindir fræðimenn. Það er verðugt umhugsunarefni.

 

Bandaríska leiðin var og er leið Sjálfstæðisflokksins

Bandaríkin höfðu auðvitað mikil áhrif hér á landi, bæði sem heimsveldi í kalda stríðinu og sem fyrirmynd að “frjálslyndu lýðræðissamfélagi”. Sjálfstæðisflokkurinn mótaði stefnu sína mjög í anda bandarísku leiðarinnar. Bandaríkin voru höfuðbólið og Ísland hjáleiga þess.

Þegar nýfrjálshyggjan breiddist út upp úr 1980 fylgdu helstu boðberar hennar í Sjálfstæðisflokknum bandarískum útfærslum kenningarinnar – og gengu langt í því. Sú stefna náði hámarki í taumlausri græðgisvæðingu yfirstéttarinnar í aðdraganda fjármálakreppunnar 2008 og féll svo endanlega í hruninu. Samt hafa talsmenn hennar látið eins og ekkert sé og róa enn á sömu miðum.

Frá þessum hugmyndafræðingum heyrist lítið nú um augljósar meinsemdir bandarísku leiðarinnar, þar sem lýðræði er undirlagt af auðræði, mannréttindi minnihlutahópa eru gróflega brotin, fátækt við hlið ofurríkidæmis sker í augu og forsetinn beitir ríkisvaldinu ítrekað í þágu sinna eigin persónulegu hagsmuna – svo fátt eitt sé nefnt. Hið meinta gagnvirka aðhald í bandaríska stjórnkerfinu (e: checks and balances) virðist léttvægt þegar á reynir.

Hvernig er hægt að hafa sem fyrirmynd samfélag sem nær ekki máli sem mannréttindasamfélag, sem beygir lýðræðið undir peningaöflin og viðheldur ójöfnuði og fátækt sem myndi aldrei líðast á Norðurlöndum?

En eins og sjá má af skrifum hins virta sérfræðings um alþjóðamál, Richards Haass, sem ég hef hér greint frá, sem og margra annarra fræðimanna, þá sjá menn þar vestra nú æ betur hvernig gallar bandarísku leiðarinnar eru farnir að skaða heimsveldisstöðu Bandaríkjanna. Það eru tíðindi, svo ekki sé meira sagt.

Sjálfstæðismenn neituðu að horfast í augu við afleiðingar af nýfrjálshyggjustefnu sinni í kjölfar hrunsins og brenndu skýrslu endurskoðunarnefndar flokksins, með eftirminnilegum hætti. Skyldu þeir endurskoða sín stefnumál núna, í ljósi afleitrar reynslu af bandarísku leiðinni á höfuðbólinu sjálfu?

————————–

[1] Richard Haass er virtur sérfræðingur í alþjóðamálum og fyrrverandi ráðgjafi tveggja ríkisstjórna Repúblikana, undir forystu Bush feðganna, um utanríkismál (sjá hér). Hann er nú forstöðumaður hlutlausrar stofnunar, Council on Foreign Relations, og telst ekki til andstæðinga Repúblikana (flokks Trumps forseta). Gagnrýni hans er sérstaklega athyglisverð í þessu ljósi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar