Fimmtudagur 22.03.2018 - 12:50 - FB ummæli ()

Steinn úr húsi Kolbrúnar

Í Fréttablaðinu 12. mars sl. heldur Kolbrún Bergþórsdóttir  því fram að ég hafi látið „sérkennileg orð falla um múslima“ í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2014.  Þetta hafi leitt til þess að hópur „hatursfólks“ hafi kosið mig.  Þótt forysta Framsóknarflokksins hafi brugðist sé ásýnd flokksins nú orðin „geðþekkari“ og sé það vel.

Það sem ég sagði

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna lýsti ég sem kunnugt er afstöðu minni til þeirrar ákvörðunar Reykjavíkurborgar að gefa Félagi múslima á Íslandi lóð til að byggja á mosku.  Í viðtali við blaðamann visir.is þann 23. maí 2014 lýsti ég þeirri skoðun að afturkalla ætti lóðarúthlutunina.  Í því sambandi vitnaði ég meðal annars til Sádí-Arabíu og var orðrétt haft eftir mér: „Það myndu koma peningar að utan ef moska yrði byggð hérna. Ekki spurning. Þeir byrja að streyma inn um leið [og] leyfið fyrir moskunni fæst.“  Með þessu vísaði ég til hins alkunna, að Sádí-Arabar hafa verið öðrum þjóðum duglegri að styrkja byggingu moska í Evrópulöndum þar sem breidd er út öfgakennd útgáfa af íslamstrú.

Flestir skildu orð mín sem varnaðarorð þótt Kolbrún kjósi að líta á þau sem hatur.  Fylgir hún þar borgarstjórnarefni Samfylkingarinnar í Reykjavík, Degi B. Eggertssyni, sem vildi ekki gera mikið úr hættunni og lét hafa eftir sér að maður stýrði ekki borg með því að mismuna fólki eftir trúarskoðunum.

Jón og séra Jón

Ég var ekki búinn að vera nema örfáa mánuði í borgarstjórn þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, greindi opinberlega frá því að sendiherra Sádí-Araba hefði tjáð honum að Sádí-Arabar hyggðust leggja umtalsvert fé til byggingar mosku í Reykjavík.  Kvaðst forsetinn hafa orðið „hissa og svo lamaður“ og brýndi fyrir Íslendingum að vakna til vitundar um vandann sem fylgdi öfgafullri íslamstrú.  Kvað forsetinn þann vanda ekki verða leystan með barnalegri einfeldni og aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta. Í viðtali sem Kolbrún sjálf tók við forsetann hafði hún orðrétt eftir honum:  „Ég tel líka ástæðu til að árétta að þau öfl sem hafa fóstrað og fjármagnað öfgakennda útgáfu af íslam, stutt staði [lesist „moskur“, innskot S.B.S.] og skóla þar sem ungt fólk, einkum karlmenn, eru aldir upp í öfgakenningum, hafa greinilega ákveðið að Ísland eigi að vera hluti af þeirra athafnasvæði.“  Mér vitanlega hefur Kolbrún ekki gagnrýnt þessi ummæli forsetans enda ekki tilefni til.  Það er því greinilegt að það skiptir Kolbrúnu máli hvaðan varnaðarorðin koma.  Ekki er sama hvort þar á í hlut Jón eða séra Jón.

Borgarstjórarnir á undan og eftir Jóni

Þessar fréttir urðu hins vegar til þess að Dagur B. Eggertsson, sem þá hafði tekið við sem borgarstjóri af Jóni Gnarr, mælti fyrir um rannsókn á fjárframlagi Sádí-Araba.  Í ljós kom að Sádí-Arabar höfðu ákveðið að leggja allt að 350 milljónir króna til að reisa mosku í Reykjavík. Fyrrverandi borgarstjóra og oddvita Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, var ekki skemmt.  Kvað hún sér hljóðs í fjölmiðlum og varaði við því að Sádar yrðu boðnir hingað velkomnir.  Í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði hún að það væri „fráleit hugmynd að Sádi-Arabía [fengi] að setja fjármagn í byggingu mosku í Reykjavík.“  Það þurfti því fyrrverandi borgarstjóra – konu með bein í nefinu – til að taka af skarið.  Borgarstjórinn á eftir Jóni treysti sér ekki til að biðja um meira en skýrslu.  Eftir það hefur ekki heyrst meira frá honum.

Nýju fötin Kolbrúnar

Vera má að ályktanir Kolbrúnar stafi af vanþekkingu hennar á málefnum Sádí-Araba enda hefur lítið verið sagt af fréttum hér á landi um markmið þeirra með uppbyggingu moska í Evrópu.   Kolbrún, sem hefur á undanförnum missersum starfað sem ritstjóri DV, ætti þó að muna eftir því þegar efni úr skýrslu þýsku leyniþjónustunnar lak í þarlenda fjölmiðla í árslok 2016.  Í skýrslunni kom fram að Sádí-Arabar hefðu stutt öfgahópa í Þýskalandi með því að fjármagna moskur, trúarskóla og trúarleiðtoga.  Það eru síðan ekki nema örfáar vikur frá því að fréttir voru sagðar af því frá Belgíu að Sádi-Arabar hefðu, eftir þrýsting frá þarlendum stjórnvöldum, samþykkt að hætta öllum afskiptum af Stórmoskunni í Brussel.  Í frétt Reuters fréttaskrifstofunnar þar sem fjallað er um þessar vendingar, er Sádí-Aröbum lýst sem útflytjanda öfgakenndrar útgáfu af íslam (e. „a global exporter of an ultra-conservative brand of Islam“).  Varla telur Kolbrún að stefna Sádí-Araba sé önnur hér á landi en á meginlandinu?

Enda þótt Kolbrún sé nú „fastur penni“ Fréttablaðsins þýðir ekkert fyrir hana að reyna að telja lesendum blaðsins trú um að það hafi verið sérkennilegt þegar ég setti mig upp á móti því að hér yrði reist moska með fjármagni frá Sádí-Arabíu.  Það hljómar eins og nýju fötin keisarans.  Það sem er hins vegar„sérkennilegt“ er að slík ummæli skuli koma úr ranni einstaklings, sem þar til nýverið var ritstjóri DV, en á vefmiðlinum dv.is hafa „virkir í athugasemdum“ um árabil fengið, að því er virðist óátalið af hálfu ritstjórans, að spúa hatri yfir múslima og trú þeirra í athugasemdum sem þeir rita við fréttir blaðsins.  Hver er ábyrgð Kolbrúnar á því?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Borgarfulltrúi og oddviti Borgarinnar okkar Reykjavík, sem býður fram í næstu borgarstjórnarkosningum.  Lögfræðingur að mennt.  Eflist við allt mótlæti.
RSS straumur: RSS straumur